Meðlimir í Facebook hópnum Prepparar á Íslandi eru vel undirbúnir ef allt fer á versta veg. Meðlimir hópsins eiga það sameiginlegt að vera í sífellu að undirbúa sig fyrir dómsdag og hamstra þeir nú mat og aðrar nauðsynjar vegna jarðskjálftahrinunar síðustu daga. Hópmeðlimir eru einnig duglegir við að deila alls kyns hugmyndum að nauðsynjum og upplýsa hvorn annan um tilboð og afslætti til þess að hægt sé að gera stór innkaup fyrir minni pening, áður en hamfarir skella á. Einnig eiga þeir það sameiginlegt að finna til ákveðinnar öryggiskenndar við að hafa birgðirnar yfirfullar í býtibúrum, skápum og hillum.
Einn meðlimur hópsins, Eli Uno, segist vera vel undirbúinn. ,,Við hjónin erum talsverðir dómsdags prepparar. Nú höfum við allt til alls til þess að geta lokað og læst hurð í um eitt ár ef til þess kæmi,“ segir Eli. ,,Við erum með tvær 500 lítra frystikistur sneisafullar af mat og fjóra metra af þurrvörum. Einnig höfum við mikið gas og græjur til að elda á, sem og rafstöð. Maður veit aldrei.“
Laufey tekur þessum ráðstöfunum fagnandi. ,,Flott og gott að taka þetta með alvöru. Sýnir að þetta þarf og hjálpar í mörgum tilvikum. Gott að þið getið lokað ykkur af. Ég er í Grindavík, búin að pakka niður því nauðsynlegasta. Sef samt alveg vel en hef vasaljós á náttborðinu.“
Það er vel hægt að skilja að mörgum hverjum stendur ekki á sama þegar móðir náttúra lætur á sér kræla. Allur er varinn góður. Dómsdagur er aldrei of langt undan.