Franski hönnuðurinn Jean Paul Gaultier fagnaði í gær 50 árum í bransanum með glæsilegri sýningu fyrir Gaultier Paris á tískuvikunni í París.
Sýningin markar tímamót þar sem línan sem Gaultier sýndi í gær er síðasta haute couture-línan sem hann hannar.
Gaultier kvaddi með stæl og fékk margar af helstu fyrirsætum heims til að ganga tískupallinn á sýningunni, meðal annars systurnar Gigi og Bellu Hadid, Karlie Kloss, Irinu Shayk, Winnie Harlow og Ditu Von Teese. Í lok sýningarinnar steig tónlistamaðurinn Boy George á svið og flutti lagið Back to black eftir Amy Winehouse.
Ný hugmynd
Gaultier kom mörgum á óvart í síðustu viku þegar hann tilkynnti í færslu á Twitter að vor- og sumarlínan 2020 yrði síðasta haute couture-lína sem hann hannar.
Í sömu færslu sagðist hann þó vera með nýja hugmynd. Það má því reikna með að hann sé ekki tilbúinn að segja alveg skilið við tískubransann.
This show celebrating 50 years of my career will also be my last. But rest assured Haute Couture will continue with a new concept. pic.twitter.com/PJCC53K4tm
— Jean Paul Gaultier (@JPGaultier) January 17, 2020