Samfylking er stærri en Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík samkvæmt nýrri könnun Gallup. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri má vel við una en flokkur hans bætir við sig frá síðustu kosningum og er nú með 26,4 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn er með rúmlega 25 prósent fylgi og talsvert langt undir kjörfylgi sínu. Könnunin er því áfall fyrir Eyþór Arnalds sem leiðir flokkinn í stjórnarandstöðu. Sjálfstæðisflokkurinn var í eina tíð með hreinan meirihluta í Reykjavík og hefur draumur manna verið sá að endurreisa það gamla vígi. Samkvæmt könnun Gallup er langt í land með það en flokkurinn myndi missa einn borgarfulltrúa til Vinstri grænna ef þetta yrði niðurstaðan.
Könnunin felur í sér þau stórtíðindi að Framsóknarflokkurinn fengi einn borgarfulltrúa en Flokkur fólksins dettur út úr borgarstjórn. Vigdís Hauksdóttir, fulltrúi Miðflokksins, hefur verið áberandi á kjördímabilinu en uppskeran er ekki í samræmi við það. Flokkurinn missir fylgi og er við það að falla úr borgarstjórn.
Píratar eru með 10,5 prósent og bæta við sig tæpum þremur prósentustigum frá kosningum. Viðreisn og Vinstri græn mælast með 8,9 prósenta fylgi, hvor flokkur. VG sem fékk 4,6 prósent atkvæða í kosningunum, tvöfaldar fylgi sitt.
Könnunin birtist í Fréttablaðinu í dag.