Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er Þórarinn, tæplega sextugur sykursýkisjúklingur með miklar taugaskemmdir í fótum af völdum sykursýki. Hann er samt sem áður hinn hressasti og vill ekki gera mikið úr sjúkdómnum.
„Ég hef ekki alltaf verið þetta slæmur. Þetta byrjaði með dofa í tám fyrir mörgum árum sem síðan færðist smám saman upp í gegnum tíðina”.
Hann vissi alltaf að það var vandamál með blóðflæði niður í fætur en en í dag er hann með með miklar taugaskemmdir í fótum og þarf að vera á taugadeyfandi lyfjum á næturnar, einfaldlega til að geta sofið.
Iðjuleysið hundleiðinlegt en tek út refsinguna
„Ég þarf að passa mig að vera ekki mikið á löppum á daginn því verkurinn er verstur á næturnar en það er alveg hundleiðinlegt að sitja í iðjuleysi, jafnvel þótt maður verði að taka út refsinguna” segir Þórarinn og hlær.
Þórarinn lætur ekkert stoppa sig þrátt fyrir sjúkdóminn og segist fyrr fara í gröfina en vorkenna sjálfum sér og gefast upp. „Það er frekar frúin sem er með áhyggjur en ég er þeirrar blessunar njótandi hafa verið vel giftur í tæp 40 ár“.
Vítahringur
Þórarinn segir sykursýkina vera afar ættgenga í sinni ætt, hann hafi lengi vitað hvert stefndi en hafi ekki haft miklar áhyggjur og verið mikill sykurgrís og hafi þá sérstaklega sólginn í gos. Og mikið af því!. „Freistingarnar eru út um allt!„ segir Þórarnn og hlær en sykursýkin hefur þjáð hann í tvo áratugi og versnað mjög á sl. 10 árum.
„Ég þurfti að sprauta mig af insúlíni í mörg ár en það eru ákveðnir gallar sem fylgja insúlíninu. Matarlystin eykst, sem aftur kallar á meira insúlín sem aftur kallar á meiri mat og þannig verður til vítahringur. En svo komu líftæknilyfin sem breyttu miklu, ég léttist til dæmis um 17 kíló eftir að ég fór að fá þau á göngudeildinni einu sinni í viku“.
Þórarinn segist alltaf hafa staðið í þeirri trú að á einhverjum tímapunkti myndi hann missa annan eða báða fæturnar. „Það þarf svo lítið til. Einn lítill steinn í skó getur valdið sári sem aldrei grær. En læknarnir og hjúkrunarfræðingarnir passa afar vel upp á mig“.
Bíður eftir aðgerð
Þórarinn bíður eftir aðgerð en miðað við ástandið í dag er ómögulegt að segja hvenær að henni kemur.
„Ég er svosem ekkert að velta mér upp úr mögulegum fótaskorti, það er mun frekar að ég óttist að missa sjónina“ segir Þórarinn en blinda er algeng meðal einstaklinga með alvarlega sykursýki.
Náðu að snúa augnbotnablæðingu við
,,Það er mjög vel fylgst með augunum á mér og ég fer í reglulegt eftirlit. Ég hef tvisvar fengið augnbotnablæðingu en sem betur fer tókst að snúa því við. Ég er er líka á blóðþrýstingslyfjum sem hjálpa mikið við að halda þrýstingi í augum í skefjum.
Það er ekki annað hægt en að dást að jákvæðni Þórarins og konu hans enda var mikið hlegið í viðtalinu. Þau njóta lífsins saman og velta sér ekki upp sjúkdómnum.