Neytandi vikunnar er Berglind Berghreinsdóttir, 55 ára öryrki. Berglind á tvö uppkomin börn. Hún er á leigumarkaði og kveður lítið eftir þegar búið er að standa skil á leigu og öðrum reikningum. Það litla sem eftir er segir Berglind að fari í eldsneyti, mat og þess háttar. Berglind segir að þar sem hún sé öryrki hafi hún tíma sem hún annars hefði ekki. Berglind hefur staðið í þeim sporum að vera aðstandandi heilabilaðs einstaklings. Það veitti henni innsýn í þann veruleika sem þessi sjúklingahópur býr við. Berglind sá margt sem betur mætti fara og vildi leggja sitt af mörkum við að laga það.
Öll sóun er slæm, ekki síst sóun á reynslu
Hún segir að það þurfi að auka fræðslu starfsfólks um sjúkdóminn og tryggja að nægur mannskapur sé til staðar til þess að sinna þeim veiku. Vegna fjölda mistaka og slysa á hjúkrunarheimilum og öðrum viðeigandi stofnunum, ákvað Berglind eftir hvatningu fleiri aðila að stofna síðuna Verndum veika og aldraða. Það hefur aldeilis sýnt sig segir Berglind að það er gríðarleg þörf. Í dag hafa verið stofnuð samtökin Verndum veika og aldraða. Stjórn samtakanna leitast við að leiðbeina, hjálpa og aðstoða aðstandendur með allt er varðar réttindi og leiðir í kerfinu. Berglind segir að það eigi ekki allir að þurfa að uppgötva sama hjólið. Öll sóun er slæm, ekki síst sóun á reynslu. Berglind segir þetta sína leið til þess að gera erfiða og óvelkomna reynslu að einhverju jákvæðu.
Hve miklu eyðir Berglind í mat á mánuði og hvar verslar hún helst ?
„Eins og áður sagði er ég öryrki og hef mjög lágar tekjur. Það fara um 60.000 kr í mat og rekstur heimilisins á mánuði. Ég reyni að fara vel með en það gengur misvel. Ég versla helst í lágvöruverðsverslunum. Ég versla þar sem ég tel mig gera hagstæðustu innkaupin, reyni að velja íslenska framleiðslu en get það ekki alltaf. En vegna örorku minnar þarf ég oft að versla það þyngsta og fá sent heim u.þ.b. einu sinni í mánuði. Ég reyni að gera magninnkaup og skipta því í heppilegar einingar. Mér finnst oft út í hött hvað við flytjum mikið inn af vörum sem við getum hæglega framleitt hér á landi og þá líka skapað atvinnu.“
Hvað með sparnað í matarinnkaupum og hverju villt þú breyta sem neytandi ?
„Ég reyni að versla hagstætt, kaupa og jafnvel elda ríflega og frysta, reyni að nýta matinn sem best. Svo er ég með Bokashi fötur (fyrir lífrænan úrgang) þar sem ég set sem mest af afgöngum sem ekki nýtast og fæ vonandi bráðum moltu þaðan sem ég nýti í garðinn sem ég hef aðgang að. Eitt er alveg hunsað af þeim sem reka verslanirnar og það er að veita ríflegan afslátt ef þú ferð á sjálfsafgreiðslukassana ef ætlast er til að fólk nýti sér þá. Þá þarf líka að tryggja að kassa starfsfólkið missi ekki vinnuna, með því að skapa önnur störf.
Ávextir og grænmeti fara og seint á niðursett verð
Ég vil að það verði hægt að kaupa ávexti og grænmeti í minni pakkningum án þess að það verði óhagstætt og þar með minni matarsóun. Og það þarf að passa betur hvað er sett í „minni-matarsóunar-kassana“ því alltof oft sé ég beinlínis „mat“ sem er ekki boðlegur og ætti strax að fara í lífrænt rusl. Það að bjóða myglaða ávexti /grænmeti á niðursettu verði er ekki jákvætt heldur finnst mér það móðgandi og benda til þess að ekki sé nægilega vandað til verka, og matvaran fari of seint í þessa kassa.
Losna sem allra mest við plastumbúðir
Ég vona að maður geti í meiri mæli keypt áfyllingarvörur. Ég er sjálf búin að skipta út sumu eins og úr handsápum í plastbrúsum í sápustykki. Þau eru ekki síðri. Vil losna sem allra mest við plastumbúðir. En því miður hverfa þær aldrei alveg,en ég reyni að endurnýta þær líka til dæmis í garðinn.Mér finnst líka alveg út í hött að reyna að stjórna neyslu fólks með því að hækka skatta á til dæmis sykur…miklu betra og markvissara væri að lækka skatta á hollustuvörur og þannig hvetja til neyslu á þeim.“
Telur þú álagningu verslana sanngjarna og gerir þú verðsamanburð á vörum og þjónustu ?
„Nei alls ekki. Allt of há álagning. Ef Bónus getur lækkað verðið þá er það líka hægt hjá Hagkaup sem á Bónus líka. Það var merkilegt hvað fyrirtæki sáu sér allt í einu fært að lækka verðin hjá sér þegar Costco var að opna. Þetta er hægt, það þarf bara vilja til þess. En á meðan fólk verslar hluti á uppsprengdu verði þá er enginn hvati til að lækka verðið. Já, ég reyni að gera kannanir áður en ég ákveð við hvaða fyrirtæki ég vil skipta.“
Verðtryggð lán, óverðtryggð lán eða engin lán ?
„Ég er svo heppin að vera ekki með lán.“
Leggur þú fyrir og ef svo er hvaða leiðir notar þú ?
„Ég get ekkert lagt fyrir. Ef það vildi svo ólíklega til að afgangur yrði einn mánuðinn, þá færi hann í þeim næsta.“
Umhverfisvernd, skiptir hún þig máli ?
„Umhverfisvernd skiptir mig miklu máli og ég flokka eins og ég get. Í heimsóknum mínum í Sorpu sveið mig oft að sjá nothæfum hlutum hent. Það væri vel hægt að nýta marga hluti (jafnvel í varahluti), þótt þeir nýtist kannski ekki í upprunalegu hlutverki. Því minni förgun því betra. Fyrir tæpu ári síðan, kynntist ég konu sem heitir Jóna Imsland. Við vorum ósáttar við þá sóun sem við sjáum til dæmis á Sorpu og við ákváðum að stofna hóp á Facebook og köllum hann Heimaendurvinnsla-Nýtum betur.
Í þessum hópi er bannað að selja hluti. Þarna er fólk að gefa frá sér ýmislegt sem getur nýst næsta manni og á þessu tæpa ári eru næstum 2500 manns komnir í hópinn og fjölgar daglega. Ég er þakklát og stolt af þeim viðtökum sem hópurinn hefur fengið. En það er nóg pláss og fólk er velkomið. Til að verja hópinn net-árásum eins og við höfum flest orðið vör við (falskir aðgangar og vírusar) þá er ein spurning sem við viljum að fólk svari við innganginn.“