Kristel Ben Jónsdóttir er neytandi vikunnar hjá Mannlíf. Hún er 36 ára Stöðfirðingur, en býr á Fáskrúðsfirði. Unnusti Kristel heitir Eðvarð Þór en hann er sjómaður á Ljósafellinu. Hún á fimm börn þar af tvær stelpur sem hún fékk í bónus, þær eru börn Eðvarðs af fyrra hjónabandi. Það er svo sannarlega hægt að segja að nóg sé að gera hjá Kristel en ásamt fullu fjarnámi í stúdents og sjúkraliðanámi, starfar hún í hlutastarfi sem sjúkraflutningakona og í afleysingum á Uppsölum, dvalarheimili aldraðra.
Kemur til dyranna eins og hún er klædd
Kristel heldur þar að auki úti opnu snappi þar sem hún kemur til dyranna eins og hún er klædd. Hún sýnir frá daglegu lífi og talar um allt milli himins og jarðar meðal annars líkamsímynd og lífsreynslu. Kristel segist ekki taka þátt í að sýna líf sitt eins og glansmynd, eins og samfélagsmiðlar ganga út á oft á tíðum. Hún segir það frábært ef það er sú leið sem fólk kýs en hún kjósi að sýna fólki að það er líka allt í góðu að vera með venjulegt heimili og ekki fínustu hlutina. Ef fólk hefur áhuga á því að fylgjast með Kristel, er snappið hennar Kristel84.
Hve miklu eyðir Kristel í mat á mánuði og hvar verslar hún helst ?
„Ég held að það sé eithvað um 100-120 þúsund á mánuði. Verðlag og úrval ráða því hvar ég versla helst.“
Hvað með sparnað í matarinnkaupum og hverju villt þú breyta sem neytandi ?
„Ég fer á Egilsstaði í Bónus eða á Reyðarfjörð í Krónuna til að versla ódýrari mat. Svo reyni ég að nýta úr frystinum og nota það sem til er og borða afganga. Ég reyni að henda sem minnst af mat, en því miður fer stundum eitthvað í ruslið. Ég legg mig þó alla fram við að reyna að minnka matarsóun á heimilinu. Ég kaupi gjarnan vörur sem eru komnar á afslátt sem er mjög sniðugt. Ég get sett flest af því í frost og þar skemmist það ekki.
Vill lækka verð á barnavörum og fæðuóþolsvörum
Ég myndi auðvitað vilja lækka verð á barnavörum, einnig lækka verð á ofnæmislausum mat því hann er afskaplega dýr. Til dæmis þarf ég að kaupa Oatly mjólkurvörurnar fyrir yngsta barnið okkar og er það mikill kostnaður þar því bara mjólkin er á bilinu 500-800 kr í staðinn fyrir að kúamjólkin er á um það bil 200 kr. Svo mætti yfirhöfuð verðleggja vörur mun lægra. Mér finnst reyndar snilld að búðir séu farnar að selja vörur sem eru komnar á síðasta neysludag á afslætti.“
Telur þú álagningu verslana sanngjarna og gerir þú verðsamanburð á vörum og þjónustu ?
„Nei, mér finnst álagning verslana oftast ekki sanngjörn og þá sérstaklega á sérfæðisvörum eins og Oatly, soya, rice og þessar ofnæmisvörur. Mér finnst bara glatað að þetta kosti allt svona mikið þegar einstaklingar þurfa að fá þessar vörur eins og minn gutti sem er með mjólkur- og soya ofnæmi og finnst mér grátlegt hvað þessar vörur kosta mikið. Hvað verðsamanburð varðar mætti ég vera duglegri með það, en geri það þó stundum.“
Verðtryggð lán, óverðtryggð lán eða engin lán ?
„Óverðtryggð lán, því þau hækka ekki með vísitölunni.“
Leggur þú fyrir og ef svo er, hvaða leiðir notar þú ?
„Maður reynir alltaf að leggja fyrir en við erum með ágætlega stórt heimili, þar sem við erum með 2 unglinga í framhaldskólanámi þar sem er heimavist og mötuneyti svo það leggst nú ekki mikið til hliðar eins og er. En það er planið í framtíðinni.“
Umhverfisvernd, skiptir hún þig máli ?
„Mér er alls ekki saman um umhverfi mitt og reyni ég eins og ég get að flokka plast, pappa, ál og lífræna sorpið.“
Hér má sjá fyrrum neytendur vikunnar þau Engil og Berglindi