Hver elskar ekki franskar? Hér kemur uppskrift að spennandi og djúsí rétti þar sem beikon og blámygluostur er í aðalhlutverki.
Ostafranskar með beikoni og blámygluosti
fyrir 3-4
BLÁMYGLUOSTA-BÉCHAMELSÓSA
2 sneiðar beikon, skorið smátt niður
50 g ósaltað smjör
60 g hveiti
550 ml mjólk
½ tsk salt
120 g blámygluostur, mulinn niður
nýmalaður svartur pipar, til að bragðbæta
Steikið beikonið á heitri, þurri pönnu þar til það verður stökkt. Takið beikonið af pönnunni og setjið á eldhúspappír til hliðar. Bræðið smjörið í miðlungsstórum potti á miðlungshita, passið að potturinn sé það stór að mjólkin komist fyrir í honum. Hrærið hveitið saman við smjörið og hrærið í allan tímann. Eldið í 1 mín.
Hellið mjólkinni saman við í mjórri bunu og hrærið í allan tímann með písk. Haldið áfram að hræra í sósunni þar til hún þykknar. Takið sósuna af hitanum og hrærið salti saman við, steiktu beikoninu og blámygluostinum. Bragðbætið sósuna með nýmöluðum svörtum pipar og salti.
OSTAFRANSKAR
Þunnskornar franskar
4 sneiðar beikon
100 g blámygluostur
hnefafylli graslaukur, saxaður smátt
Steikið beikonið á heitri pönnu á báðum hliðum þar til það verður stökkt. Takið af pönnunni og setjið á eldhúspappír til hliðar. Steikið frönskurnar og setjið þær á stóran disk eða í eldfast mót. Hellið blámygluostasósunni yfir og dreifið graslauknum yfir sósuna. Leggið beikonsneiðarnar yfir frönskurnar og smárberið strax fram.
Umsjón / Folda Guðlaugsdóttir
Stílisti / Bergþóra Jónsdóttir
Myndir / Hallur Karlsson