Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Andrea var hömlulaus ofæta sem fór í magaaðgerð: „Ég var alltaf að hugsa um að verða grönn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Mataræðið hjá mér hefur aldrei verið sérstaklega slæmt en magnið hefur alltaf verið minn akkilesarhæll; hvað ég borða mikið – ég hef engan sans fyrir því hvað er eðlilegur skammtur,“ segir Andrea Ævarsdóttir sem hefur glímt við matarfíkn í áratugi. Þyngst var hún 135 kíló. Hún fór í fyrra í magaaðgerð og hefur síðan lést um 50 kíló.

Andrea Ævarsdóttir er Ólafsfirðingur.

„Ég átti dásamlega æsku á Ólafsfirði. Ég á frábæra fjölskyldu sem hefur alltaf stutt mig í öllu sem mér hefur dottið í hug að brasa og alveg ofsalega góðar vinkonur sem eru bestu vinkonur mínar enn í dag.“

Andrea segist hafa verið orðin læs fjögurra ára og að hún hafi verið nörd.

„Ég var rosalegur lestrarhestur sem krakki og ég var búin að lesa hálft bókasafnið þegar ég var komin í grunnskóla. Bókasafnið var mjög sérstakt og þar var mikið af gömlum bókum og það mátti engu henda. Mér fannst þetta alltaf vera svo innileg stemmning. Ég á mjög auðvelt með að taka upp bók og algjörlega gleyma stað og stund. Bókasafnið var í gamla læknisbústaðnum og það var svo kósí. Það var svo geggjað að geta hreiðrað um sig í einhverju horni og vera látin algerlega í friði. Þar sat ég bara og las og svo tók ég með mér hrúgu af bókum heim. Bókasafnið heima var opið tvisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum, og þá daga sem var opið á sumrin var ég þar frá opnun til lokunar. Þegar ég var búin að lesa allt sem mér fannst áhugavert, sem voru barna- og unglingabækurnar, þá fór ég til Villu, sem var yfir bókasafninu, og spurði hvað ég ætti að lesa. Og hún byrjaði að rétta mér fullorðinsbækur; þá var ég kannski 12 eða 13 ára. Það endaði á því að þegar ég var búin að lesa slatta af fullorðinsbókum þá bara byrjaði ég á A og ég las alla A-hilluna. Svo fór ég í B og las alla B-hilluna.“

Hún hlær.

- Auglýsing -

„Ég var 12 ára þegar ég ákvað að verða bókasafnsfræðingur.“ Og Andrea er bókasafns- og upplýsingafræðingur í dag.

Hvað með uppáhaldsbækur eða uppáhaldshöfunda?

„Ég hef alltaf haft rosalega gaman af glæpasögum. Ég hlæ stundum að sjálfri mér; ef það er enginn drepinn þá hef ég ekkert gaman af því.“

- Auglýsing -

Hvað með að skrifa bók sjálf? Að verða rithöfundur?

„Það er svo merkilegt að mig hefur aldrei langað til að verða rithöfundur. Það var bara einhvern veginn stemmningin og umhverfið á bókasafninu og að geta sökkt mér í einhvern ímyndaðan heim sem höfðaði svo mikið til mín.“

Ímyndaður heimur. Andrea er spurð hvort hún hafi verið að flýja í einhvern heim út af einhverri ástæðu.

„Það eru rosalegir fitufordómar í samfélaginu.“

„Ég var ekki íþróttakrakki. Ég fór á skíði af því að mér fannst það gaman og svo á sumrin var fótbolti það eina sem var í boði íþróttalega séð. Og mér fannst hann ekki skemmtilegur. Þannig að yfir sumarið þá var ég svolítið mikið í einhverjum svona ímynduðum heimi. Ég var líka sennilega frekar einrænn krakki. Ég átti alveg vini en ég þurfti í raun og veru ekkert svo mikinn félagsskap og það er þannig enn í dag. Ég á frábæran vinahóp en mér hefur aldrei leiðst einni með sjálfri mér.“

„Á meðan flestir hefðu kannski borðað tvær sneiðar og jafnvel þrjár þá var ég að borða hálft brauð; áður en ég vissi af var ég kannski búin að borða átta brauðsneiðar.“

Tók verkjalyf gegn hungri

Andrea segist hafa byrjað að fitna þegar hún var 15 ára.

„Ég byrjaði að þyngjast þegar gelgjan fór að kikka inn. Ég er 1.67 m og ég var um 70 kíló þegar ég var 15 ára. Svo bara hægt og rólega pökkuðust kílóin á mig í gegnum tíðina.“

Hún segist ekki hafa verið mikið í sætindum og gosi heldur hafi einfaldlega borðað of mikið. „Þetta var ekki það að ég lægi í sælgæti. Ég var ekkert með það mikið af peningum á milli handanna að ég hefði efni á því að vera hangandi í sjoppunni; kannski aðeins þegar við vorum komin í 10. bekk en þá fórum við oft í löngu frímínútunum í sjoppu og keyptum okkur franskar. Þá var ég örugglega að borða franskar á hverjum einasta degi allan þann vetur. Það er ekki megrandi. Mataræðið hjá mér hefur aldrei verið sérstaklega slæmt en magnið hefur alltaf verið minn akkilesarhæll; hvað ég borða mikið – ég hef enga tilfinningu fyrir því hvað er eðlilegur skammtur. Þegar ég kom heim úr skólanum þegar ég var 15 – 16 ára þá settist ég niður og fékk mér kannski ristað brauð með rabarbarasultu. Á meðan flestir hefðu kannski borðað tvær sneiðar og jafnvel þrjár þá var ég að borða hálft brauð; áður en ég vissi af var ég kannski búin að borða átta brauðsneiðar.

„Maður var að drekka bjór á hverju einasta kvöldi og hann er sjúklega fitandi.“

Ég hef spurt sjálfa mig að því hvort ég hafi verið að reyna að fylla upp í eitthvað. Ég var náttúrlega einrænt barn. Og þó ég ætti vini þá var ég ein í marga daga að því leyti að hitta ekki aðra krakka. Ég vildi þá vera ein. En samt fann ég fyrir einmanaleika. Þannig að ég var kannski að fylla upp í einhvern einmanaleika með því að borða svona mikið. Svo er matarfíkn rosalega flókið fyrirbæri. Það slökknar á einhverjum heilastöðvum og frumurnar í maganum sem eiga að meta það hvenær við erum orðin södd og senda það upp í heilann hætta bara að virka. Þær hætta að vinna vinnuna sína.“

„En svo þegar ég horfi til baka þá sé ég að ég var alltaf í rosalega miklu óöryggi. Ég var rosa mikið í að þóknast fólki og hef alltaf verið svona „people pleaser“. Mér leið alls ekki vel.“ Ef þú vilt fylgjast með Andreu og árangri hennar þá er húm með aðganginn andrea_wins_at_life á Instagram.

Andrea segist ekki muna eftir því að neinn hafi bent henni á þetta fyrr en hún fór í framhaldsskólann á Laugum.

„Ég tók fyrsta árið í framhaldsskóla heima á Ólafsfirði og fór svo á Laugar þegar ég var 17 ára og þá fór ég eiginlega að heyra það í fyrsta skipti að ég væri feit. Þá var ég 83 kíló. Ég myndi ekki flokka það sem einelti en það var alveg verið að skjóta á mig. „Í alvörunni, ætlar þú að borða þetta? „Ætlar þú að borða svona mikið?“ „Finnst þér að þú ættir að klára þetta?“ Svo heyrði maður líka út undan sér og það var verið að tala um þetta en ekki verið að segja þetta beint við mig. Ég frétti að einhver hefði til dæmis talað um að ég hefði fitnað síðan ég byrjaði í skólanum. Svo heyrði ég að einhver hafi talað um að það væri eiginlega ekki hægt að hafa mig með í íþróttum af því að ég væri svo lengi að hlaupa. Ég sagði aldrei neitt. Ég reyndi einhvern veginn að láta þetta allt stökkva af mér eins og vatn af gæs. Þetta særði mig og settist algjörlega á sálina. Þetta varð vítahringur.

Ég upplifði að ég væri ekki að falla inn í eitthvað mót sem ætlast var til. Ofát er flokkað sem átröskunarsjúkdómur og þarna byrjaði ég að þróa með mér óheilbrigt samband við mat. Ég fór að svelta mig til að þyngjast ekki.“

Hún sleppti því stundum að fara í mötuneytið í skólanum.

„Þetta er heimavistarskóli og maður þurfti ekkert að skrá sig í mat. Maður bara mætti í mat eða mætti ekki í mat. Og stundum fór ég meira að segja í mat, setti mat á diskinn, hrærði aðeins í honum og sagðist svo ekki vera svöng.

„Ég fór að taka verkjatöflur ef ég varð svöng til að finna ekki fyrir hungrinu. Það er alveg ótrúlegt hvað tvær Paratabs slá á alla hungurtilfinningu.“

Eitt af því sem ég tók upp á á þessum tíma er sennilega það steiktasta sem ég hef gert tengt matarfíkninni minni. Ég fór að taka verkjatöflur ef ég varð svöng til að finna ekki fyrir hungrinu. Það er alveg ótrúlegt hvað tvær Paratabs slá á alla hungurtilfinningu. Stundum komu dagar þar sem ég borðaði ekkert í einn eða tvo daga. Ég drakk þá bara vatn og bruddi Paratabs eins og töflurnar væru smartís. Svo náttúrlega gat maður ekki gert það til lengdar þannig að þá sprakk ég á limminu og borðaði þá óheyrilega mikið í kjölfarið. Það vissi enginn af þessu. Enginn. Ég var rosa klár að fela þetta.“

Andrea er spurð hvar hún hafi fengið Paratabs.

„Það var apótek á Laugum. Það var ekkert mál að kaupa Paratabs. Ég tók yfirleitt fjórar til sex töflur á dag. Þetta byrjaði rétt fyrir jólafríið á 2. ári, sem var árið 1994, og stóð alveg fram á vorið. Ég hef greinilega maga úr stáli af því að töflurnar virtust ekki hafa haft nein áhrif á magann eða meltinguna. Svo voru þetta ekki brjálæðislega löng tímabil. Þetta voru kannski tveir dagar í einu og svo borðaði ég kannski rosalega mikið í 10 daga. Og svo svelti ég mig kannski í tvo daga og bruddi Paratabs á meðan.“

Andrea er spurð um andlega líðan sína á þessum tíma.

„Ef þú hefðir spurt mig þá þá hefði ég sagt „geggjuð“. „Frábær.“ „Mér líður geðveikt vel.“ En svo þegar ég horfi til baka þá sé ég að ég var alltaf í rosalega miklu óöryggi. Ég var rosa mikið í að þóknast fólki og hef alltaf verið svona „people pleaser“. Mér leið alls ekki vel. Og ég var að gera hluti sem ég segi ekki að ég sjái eftir í dag en ég hefði ekki gert þetta ef sjálfsmyndin hefði verið í lagi. Ég til dæmis svaf hjá strákum sem ég hafði engan áhuga á en ég gerði það af því að þeir höfðu áhuga á mér. Það var rosa sterk birtingarmynd. Það myndi sennilega vera sterkasta birtingarmyndin.“

„Ég er búin að fá verkfærið sem hjálpar líkamanum mínum og ég er búin að vera að fara til sálfræðings af því að ég þarf náttúrlega líka að vera með verkfæri sem stjórnar hausnum mínum.“

Hún er spurð hvað hún hafi hugsað með sér þegar hún var búin að sofa hjá þessum strákum.

„Þá sannfærði ég mig um að ég væri rosa sterk kona sem gæti sofið hjá þeim sem mig langaði til og ég þyrfti bara ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu. En innra með mér fannst mér ég vera djöfull aum að geta ekki bara verið ánægð með sjálfa mig án þess að þurfa að fá viðurkenningu annars staðar frá. Og það tók alveg langan tíma að vinna úr því að þurfa ekki utanaðkomandi viðurkenningu; að fá ekki viðurkenningu frá öðrum til að vera sátt í eigin skinni. Það var löng barátta. Það var mér rosalega mikilvægt að fá utanaðkomandi viðurkenningu. Ég byrjaði að drekka þegar ég var 18 ára og gerði það í raun og veru til þess að passa inn í hópinn og til þess að bústa sjálfstraustið mitt aðeins.“

Bjór er sjúklega fitandi

Andrea flutti til Englands eftir að hún hætti í framhaldsskóla árið 1996 og lærði þar ensku og fór í hótel- og veitingaskóla.

„Í hvert skipti sem ég bæti á mig 3-400 grömmum þá hef ég áhyggjur af því að ég muni þyngjast aftur.“

„Ég grenntist töluvert úti og náði einhvern veginn stjórn á matarfíkninni minni á meðan ég bjó þar. Ég vann á hótelum og kokkarnir sáu um að elda ofan í okkur og svo fékk ég matinn skammtaðan á disk. Þannig að ég var bæði að borða hollari mat sem ég fékk skammtaðan og svo var ég að vinna eins og skepna. Hótelið var lengst uppi í sveit og það tók um hálftíma að ganga í næsta þorp þar sem var ein matvöruverslun. Maður nennti ekki að fara þangað reglulega. Ég léttist örugglega um 10-15 kíló á meðan ég bjó í Englandi. Ég var svo fljót að falla í sama farið eftir að ég flutti aftur til Íslands árið 1997.

Ég flutti svo til Reykjavíkur árið 1999. Þá tók við dálítið djammtímabil í mínu lífi. Og áfengi er mjög fitandi. Ég vann í Bónus á daginn og svo fór ég að vinna á bar á kvöldin og þegar búið var að loka barnum þá fékk ég mér bjór og ég fékk mér bjór á fríkvöldum en þá hittust starfsmenn sem voru í fríi það kvöldið á barnum. Maður var að drekka bjór á hverju einasta kvöldi og hann er sjúklega fitandi.“

Andrea segir að hún hafi aldrei verið í hættu á að þróa með sér alkóhólisma.

„En þetta var samt alveg einn bjór á hverju einasta kvöldi og það er fljótt að telja. Svo voru þeir fleiri ef maður var í fríi en ég gat alveg sleppt því að drekka ef mig langaði til.“

Hún segir að hún hafi drukkið bjór á hverju kvöldi í um tvö ár.

„Þetta var svo mikið sósíalt en ef ég var ekki í vinnunni og fór ekki á barinn sem ég var að vinna á á frívöktum þá var ég ekkert að drekka. Þetta var svo rosa mikið einhvern veginn í umhverfinu mínu og eins og ég sagði áðan þá var ég alltaf að reyna að falla inn í hópinn þannig að maður var að fá sér bjór með vinnufélögunum af því að allir hinir voru að fá sér bjór eftir vinnu. Vinnufélagarnir voru náttúrlega vinir manns. Mér fannst ég ekki drekka of mikið en ef ég horfi til baka – klárlega. Alveg klárlega. Kannski að maður hafi að vissu leyti skipt matarfíkninni út fyrir einhverja áfengisfíkn. Ég hef hins vegar aldrei haft áhyggjur af drykkjunni hjá mér af því að það hefur aldrei verið erfitt fyrir mig að hætta að drekka. Ég var líka svolítið mikið á djamminu á þessum tíma – fór á skemmtistaði að dansa og djamma. Þetta voru um tvö ár. Svo kynntist ég fyrri eiginmanni mínum árið 2000. Hann var í hljómsveit og það var svolítið djamm í kringum það en það fór aðeins að draga úr þessu og ástandið að róast á árunum 2002-3003.“

Lamaður skjaldkirtill

Andrea segist hafa blásið út á þessum árum.

„Þegar við skildum árið 2004 þá var ég 135 kíló. Það er mesta þyngd sem ég hef nokkurn tímann náð. Það tengdist bjórnum og rosa óheilbrigðum lífsstíl. Maðurinn sem ég var gift var hár og grannur og gat borðað hvað sem var þannig að við borðuðum mikið ruslfæði. Skyndibita. Og við pældum ekkert í heilsunni. Og á meðan hann brenndi öllu þessu rusli þá safnaðist þetta allt saman utan á mig.“

Andrea segir að hún hafi þá tekið þá ákvörðun að þetta væri ekki lífið sem hún vildi lifa.

„Næstu tvö ár fóru í mikla vinnu. Ég fór að hitta sálfræðing eftir að við skildum og tók svolítið til í hausnum á mér. Ég var samt hvorki búin að átta mig á né viðurkenna fyrir sjálfri mér að ég væri matarfíkill. Þannig að ég var aðallega bara að vinna í sársaukanum sem tengdist skilnaðinum. Svo fór ég að fara í ræktina og þá skipti ég svolítið út matarfíkninni fyrir ræktarfíkn. Ég fór í ræktina áður en ég fór í skólann, en ég var þá í bókasafns-og upplýsingafræði við Háskóla Íslands, og eftir að ég var búin í skólanum. Þannig að ég fór í ræktina tvsivar á dag og tók þetta svolítið með trompi. Ég fór úr 135 kílóum niður í 74 kíló á árunum 2004-2007 en það var kannski ekki gert á brjálæðislegan heilbrigðan hátt. Ég fór aftur í það að svolítið svelta mig þó ég væri ekki þarna aftur að treysta á verkjatöflur til að finna ekki fyrir hungri. Og ég borðaði eins lítið og ég komst upp með og fór einmitt í ræktina tvisvar á dag sem ég held að sé heldur ekki alveg nógu hollt.“

Andrea kynntist öðrum manni og varð ófrísk snemma árs 2007 og fæddist eldri sonur hennar í nóvember.

„Meðgangan var geggjuð og ég þyngdist um 12 kíló á meðgöngunni sem ljósmóðirin var geðveikt ánægð með. Ég fékk hins vegar lamaðan skjaldkirtil í kjölfarið. Það fá þetta margar konur en þetta er oft ekki greint fyrr en seint og um síðir. Samkvæmt bandarískum samtökum innkirtlasérfræðinga þá fá 5% kvenna lamaðan skjaldkirtil í kjölfar meðgöngu.

Þetta hafði þau áhrif að ég varð mjög veik. Ég reyndi að vera með strákinn minn á brjósti í sex vikur og við grenjuðum bæði í sex vikur, hann af hungri en hann náði fæðingarþyngdinni sinni ekki fyrr en á 4. viku. Hann bara horaðist og horaðist og ég sat með hann í fanginu og hann grét og ég grét. Þetta var ömurlegt. Skjaldkirtillinn stýrir brunanum í líkamanum og ef hann virkar ekki þá eru efnaskiptin svo hæg að maður framleiðir ekki mjólk. Þannig að ég sat með strákinn minn og mér fannst ég vera algert „failure“ sem móðir þar sem barnið mitt væri að léttast og ég gerði mér náttúrlega enga grein fyrir því að ég var ekki að framleiða neina mjólk. Þannig að ég gafst upp á 6. viku. Hann fór að fá þurrmjólk úr pela og það er til marks um það hvað ég framleiddi litla mjólk að ég þurfti aldrei að fá þurrktöflur. Ég bara hætti með hann á brjósti einn daginn og that was it. Það var ekki dropi af mjólk í mér.“

„Skjaldkirtillinn stýrir brunanum í líkamanum og ef hann virkar ekki þá eru efnaskiptin svo hæg að maður framleiðir ekki mjólk.“

Andrea fór að þyngjast vegna lamaða skjaldkirtilsins þar sem efnaskiptin í líkamanum urðu svo hæg. „Ég gekk á milli lækna frá því í desember, þegar ég byrjaði að verða veik, og þangað til í maí 2008. Þetta var orðið það slæmt að ég gat ekki lyft höndunum upp til að hengja upp þvott. Og ég gat ekki greitt á mér hárið sjálf og þegar ég var verst þurfti barnsfaðir minn að tannbursta mig af því að ég gat ekki lyft hendinni til að bursta í mér tennurnar.“

Andrea var greind með fæðingarþunglyndi og var sett á þunglyndislyf. Þau virkuðu ekki. Þau breyttu engu. Hún talar um slen sem fylgi lömuðum skjaldkirtli.

„Og ég var líka komin í það að ég var að refsa sjálfri mér fyrir það að hafa borðað eitthvað sem var „vondur“ matur með því að borða ekkert.“

„Ég var einn daginn að lesa texta á bandarískri mömmugrúppu og þar sé ég texta: I’m so freaking tired. Ég var þar. Ég hélt mér varla uppréttri. Þetta var í febrúar 2008. Ég átti erfitt með allt. Ég þurfti að leggja mig oft á dag.“

Andrea segir að á bandarísku síðunni hafi verið listi yfir atriði sem tengdust lömuðum skjaldkirtli og sagt frá samtökum bandarískra innkirtlasérfærðinga. „Það voru 32 atriði á þessum lista yfir fylgikvilla. Af þeim sagði ég „já„ við 30. Ég fór til heimilislæknisins míns sem ég hafði farið oft til. Það var hann sem skrifaði upp á þunglyndislyfin og hann hafði sent mig í blóðprufur en það hafði aldrei verið athugað með skjaldkirtilinn. Ég bað hann um að lesa greinina sem hann gerði og þegar hann var búinn að því hringdi hann á Landspítalann og sagði að ég þyrfti að komast í blóðprufu og hann þyrfti að fá niðurstöðurnar strax. Það er ótrúlegt hvað kerfið getur unnið hratt þegar þannig liggur við. Það leið sólarhringur frá því ég fór í blóðprufuna og þangað til ég var byrjuð á réttu lyfjunum og ég fór að verða sjálfri mér lík þremur dögum síðar. Og þetta eru lyf sem ég mun þurfa að taka alla ævi.“

Andreu fór í kjölfarið að líða betur andlega. Hún varð svo aftur ófrísk og fæddist yngri sonur hennar í apríl árið 2009.

„Ég hélt mér þokkalega stöðugri í þyngd á þessum tíma en var samt í kringum 100 kíló þegar hann fæddist. Ég var komin með snert af meðgöngueitrun og svona alls kyns leiðindi en hann fæddist fullkomlega heilbrigður og risastór. Það var þetta venjulega sem fylgir meðgöngueitrun – hækkun á próteini í þvagi, of hár blóðþrýstingur og minna viðnám við sykri. Þetta var ekki eitthvað hræðilegt og ég þufti ekkert að vera inniliggjandi. Ég þurfti bara að fara í fleiri mæðraskoðanir út af þessu.“

Andrea segir að hún hafi strögglað við það að vera mamma á þessum tíma.

„Það var allt erfitt. Ég fór með strákana í ungbarnasund og það var krefjandi. Ég hef reyndar aldrei látið ofþyngdina stoppa mig í neinu. Ég hef aldrei verið týpan segi segir „nei, ég ætla ekki að fara í sund, ég er allt of feit“. Ef mig langar að fara í sund þá fer ég í sund. En það verður allt svo miklu erfiðara þegar maður er að burðast með svona mörg aukakíló. Allt í lífinu verður erfiðara. Það verður erfiðara að labba upp stiga og hvað þá með tvö ungabörn í eftirdragi. Það verður allt erfitt eins og að koma sér í skó og þurfa svo að koma börnunum í skó. Ég var ekki mikið að leika við krakkana mína af því að ég hafði bara ekki orkuna í það. Ég fór með þeim út og fylgdist með þeim leika sér en ég var ekkert endilega að leika með þeim af því að ég var of þung á mér.“

Hömlulaus ofæta

Andrea segir að hún hafi rokkað á milli þess að vera um 100 kíló og upp í um 120 kíló næstu 13 árin. Og lífið breyttist aftur.

„Ég og barnsfaðir minn skildum haustið 2011. Við erum rosa góðir vinir í dag. Hann er frábær maður en við vorum eiginlega vinir sem eignuðumst börn saman og erum að ala strákana upp í góðu samlyndi. Þeir eru reyndar óheppnir af því að við búum ekki í sama bæjarfélagi þannig að þeir geta ekki verið hjá okkur viku og viku en þeir fara til pabba síns aðra hverja helgi. Þeim finnst vera frábært að fara þangað og samskiptin eru mjög góð.“

Andrea sat oft á æskuárunum í kósí horninu á bókasafninu í gamla læknisbústaðnum á Ólafsfirði og las og jú, 12 ára gömul fór hana að dreyma um að verða bókasafnsfræðingur. Hún lét þann draum rætast og útskrifaðist úr bókasafns- og upplýsingafræði við Háskóla Íslands eftir að hún og barnsfaðir hennar slitu samvistum. Hún hefur síðan árið 2015 unnið á bókasafninu í Grindavík.

Andrea segir að andleg heilsa sín hafi oft verið slæm á þessum tíma.

„Ég held að ég sé alveg þokkalega sterkur karakter en sjálfsmyndin hefur verið þannig að ég hef stundum ekki einu sinni treyst mér til að fara á tónleika af því að ég hef bara ekkert átt til að vera í sem lét mig ekki líta út fyrir að vera tröllskessa. Ég hef stundum verið spennt fyrir að fara til dæmis í leikhús, á tónleika eða í einhver partí en svo þegar hefur dregið nær viðburðinum þá hef ég fundið fyrir kvíða og ekki fundist ég eiga neitt til að fara í. Ég er komin með ofnæmi fyrir svörtum fötum og vil helst ekki ganga í svörtu. Ég var meira að segja svoleiðis þegar ég var 120 kíló en það er erfitt fyrir fólk í ofþyngd að finna eitthvað annað en svart. Svo eru föt fyrir fólk í ofþyngd oft illa sniðin og þau eru oft dýrari þannig að það er ýmislegt sem hefur áhrif á þetta svo sem að geta ekki farið út í búð og keypt brjóstahaldraa á 5000 krónur en þurfa að fara í einhverja sérvöruverslun og kaupa brjóstahaldara á 15.000 krónur því að venjulegar búðir eru ekki með mínar stærðir. Það er bara hundleiðinlegt og hefur oft haft virkilega slæm áhrif á andlega líðan. Það liggur við að maður hafi rokkað upp og niður andlega eftir því hvernig hafi gengið að finna á sig föt.“

Andreu dreymdi alltaf um að verða grönn.

„Matarfíkillinn minn er ennþá þarna. Ég þarf að vinna stanslaust í sjálfri mér til að halda sjálfri mér frá því að detta ekki aftur í gömul mynstur.“

„Ég var alltaf að hugsa um að verða grönn. Missa fimm kíló. Missa 10 kíló. Komast niður fyrir 100 kíló. Ég var alltaf að hugsa um það.“

Samt hélt hún áfram að borða meira en góðu hófi gengdi.

„Já, af því að maður gat ekki stoppað sig. Það vantar hömlurnar. Það vantar móttakarann sem tekur við sedduhormóninu þannig að maður hættir að finna seddutilfiningu og manni finnst maður alltaf vera pínu svangur. Svo var ég stanslaust að hugsa að þetta væri auðveldara ef ég væri ekki svona þung. Ég var með einhverja drauma um hvernig lífið yrði ef ég væri grönn. Svo var ég hins vegar algjörlega hömlulaus ofæta. Þetta er ekki hægt að samrýma. Það er ekki hægt að vera hömlulaus ofæta og grönn.“

Hún talaði um kvíða. Segist þó ekki hafa fundið fyrir eiginlegum kvíða í gegnum tíðina heldur hafi hann tengst sjálfsmyndinni.

„Kvíðinn minnkar eftir því sem ég minnka. Ég tók til dæmis í tvö ár þátt í Útsvari fyrir hönd Grindavíkur. Ég var allt of þung og í sjónvarpinu en lét það ekki stoppa mig. Kvíðinn var þó meiri en ella þar sem ég var í þyngri kantinum.“

Fimm göt

Að minnka.

„Það eru örugglega 10 ár síðan ég hugsað í fyrsta skipti um að fara í magaaðgerð. Svo hugsaði ég oft með mér að þetta væri svo auðveld lausn og ég væri svo mikill aumingi ef ég tæki ákvörðun um að fara í magaaðgerð. Mér fannst ég ekki vera nógu dugleg við að ná tökum á þessu sjálf þannig að ég hummaði þetta fram af mér í öll þessi ár.

„Þetta var orðið það slæmt að ég gat ekki lyft höndunum upp til að hengja upp þvott. Og ég gat ekki greitt á mér hárið sjálf og þegar ég var verst þurfti barnsfaðir minn að tannbursta mig af því að ég gat ekki lyft hendinni til að bursta í mér tennurnar.“

Ég fór í jógakennaranám árið 2019 og þar var meðal annars rætt um lífsviðhorf sem maður er búinn að mynda sér eins og að ég trúi því að feitt fólk sé latt. Ég trúi því að aðrir haldi að feitt fólk sé latt.“

Andrea tók ákvörðun. Hún ákvað að fara í magaaðgerð í Tallinn í Eistlandi.

„Svona aðgerð kostar hér heima um 1.200.000 krónur en þar um 800.000 krónur. Þetta kostaði samt ógeðslega mikinn pening þar og ég átti ekkert fyrir þessu. Það eru ekki margir sem eiga 800.000 krónur inni á sparibauknum en ég sparaði mér 400.000 krónur með því að fara til Tallinn.“

Fjórar konur héldu til Tallinn í byrjun árs 2020 og var hjúkrunarfræðingur með í för.

„Þegar við skildum árið 2004 þá var ég 135 kíló. Það er mesta þyngd sem ég hef nokkurn tímann náð. Það tengdist bjórnum og rosa óheilbrigðum lífsstíl.“

„Við fengum fáránlega góða þjónustu. Íslenski hjúkrunarfræðingurinn hugsaði um okkur frá a til ö. Ég held ég gæti verið fyrirmyndardæmi um hvernig svona aðgerð getur heppnast vel. Það er rosa neikvætt umtal um svona aðgerðir og um hvað hefur farið úrskeiðis.“

Það voru gerð fimm föt. Fimm göt sem breyttu öllu.

Þetta var míníhjáveita.

„Þetta var eins og venjuleg hjáveituaðgerð nema að það var tekið minna í burtu af smáþörmunum og þetta er ólíkt magaerminni að því leytinu til að með erminni er gerður banani og restin af maganum er fjarlægður. Restin af maganum mínum er ennþá inni í mér en hann er bara ekki tengdur við hólfið sem maturinn fer ofan í. Hann er tengdur við smáþarmana þannig að hann er að gefa frá sér magasýrur. Það er hægt að velja um þrjár mismunandi aðgerðir og í raun og veru er magaermin minnsta inngripið en hún er óafturkræf. Míníhjáveita og venjuleg hjáveita eru stærri aðgerðir en það er til dæmis hægt að tengja gamla magann aftur við nýja magnan hjá mér ef þess þyrfti.“

Götin fimm voru saumuð og í rúminu lá Andrea Ævarsdóttir steinsofandi.

Og hún svaf í um sólarhring.

„Það var ekki fræðilegur möguleiki að vekja mig eftir aðgerðina og það var reglulega sprautað í mig blóðþynningarlyfjum og verkjalyfjum.

Þegar ég vaknaði var það fyrsta sem ég hugsaði „hvað er ég búin að gera?“ Þetta var pínu áfall. Hvað er ég búin að gera við mig? Ég er búin að fara í stóra aðgerð og get ekkert borðað. Fuck.

Það var vel hugsað um okkur á spítalanum þar sem við vorum í tvo sólarhringa. Svo vorum við á sjúkrahóteli í einn sólarhring og fengum við Actimel að drekka; það er svipað og LGG+. Ein slík flaska var hádegsimaturinn og maður var pakksaddur. Það var steikt. Maður þurfti að drekka þetta í pínulitlum sopum. Og ég var pakksödd.“

Hún hlær.

„Svo flugum við heim á degi fjögur og ég var komin í vinnu hálfum mánuði síðar.“

„Ég held ég gæti verið fyrirmyndardæmi um hvernig svona aðgerð getur heppnast vel.“

Andrea var á fljótandi fæði í 12 daga eftir aðgerðina.

„Svo tóku við um tvær vikur þar sem var meira maukað. Þá var maður að stappa sér fisk og kartöflur. Það var allt stappað í drasl. Hakk og kartöflumús. Svo eftir fyrsta mánuðinn var ég farin að borða flest allt. Ég get eiginlega ekki borðað brauð því það fer ekki vel í mig. En allt annað virðist ég geta borðað.“

Skammtarnir eru litlir og á þessu rúma ári hefur Andrea lést um 50 kíló.

„Matarfíkillinn minn er ennþá þarna. Ég þarf að vinna stanslaust í sjálfri mér til að halda sjálfri mér frá því að detta ekki aftur í gömul mynstur. Ég fór samt ekki í þessa aðgerð til að vera í megrun það sem eftir er ævinnar. Ég fór í þessa aðgerð til að ná stjórn á stjórnleysinu. En ég verð samt að vera meðvituð um hvað ég borða. Ég er svo heppin að brauð fer illa í mig þannig að ég er ekki að setjast niður og borða átta brauðsneiðar plús það að þær myndu aldrei komast ofan í mig. Ég hef náð að borða eina ristaða brauðsneið en mér varð illt í maganum af henni.“

XXL – Small

Maginn getur stækkað eftir svona aðgerð og segir Andrea að það sé fullt af fólki sem fitni aftur eftir magaaðgerðir.

„Ég er búin að fá verkfærið sem hjálpar líkamanum mínum og ég er búin að vera að fara til sálfræðings af því að ég þarf náttúrlega líka að vera með verkfæri sem stjórnar hausnum mínum.“

Andrea var í sambandi í nokkur ár og skildi í hittifyrra og segir hún þennan tíma hafa tekið á.

Hún segist hafa farið til sálfræðings í kjölfar skilnaðarins.

„Ég fór fyrst í meðferð til að vinna úr áföllum en eftir aðgerðina var meira farið í að vinna með sjálfsmat mitt af því að sterkt sjálfsmat gefur manni meiri viljastyrk. Við fórum til að mynda að vinna með ranghugmyndir tengdar mat og erum svolítið í þeirri vinnu. Ég er núna á alveg þokkalega góðum stað varðandi þessar ranghugmyndir gagnvart mat en áður fyrr skipti ég mat svolítið í „góðan“ og „vondan“ – „góður“ matur var til dæmis grænmeti og magurt kjöt en „vondur“ matur voru til dæmis kartöflur, hrísgrjón, brauð, sælgæti og pasta. Og ég fékk samviskubit ef ég borðaði „vondan“ mat. Við erum búin að vinna svolítið í þessu. Það er allt í lagi að fá sér hrísgrjón með matnum; ég er ekki að gera neitt rangt. Ég er ekki að brjóta af mér þó ég fái mér hrísgrjón með matnum því ég var pínu komin þangað. Og ég var líka komin í það að ég var að refsa sjálfri mér fyrir það að hafa borðað eitthvað sem var „vondur“ matur með því að borða ekkert.“

„Ég held að ég sé alveg þokkalega sterkur karakter en sjálfsmyndin hefur verið þannig að ég hef stundum ekki einu sinni treyst mér til að fara á tónleika af því að ég hef bara ekkert átt til að vera í sem lét mig ekki líta út fyrir að vera tröllskessa.“

Þyngdin er alltaf á bak við eyrað.

Og Andrea æfir.

„Ég hleyp, ég lyfti, ég stunda jóga og ég æfi sund – þetta eru allt hlutir sem ég gat eiginlega ekki gert fyrir ári síðan, sérstaklega ekki að hlaupa. Ég gat ekkert hlaupið fyrir ári síðan. Nú er ég búin að hlaupa hálfmaraþon.“

Hún tekur þetta með trompi.

„Ég fer í ræktina þrjá til fimm daga í viku. Það er bara eðlilegt magn.“

Hún hlær.

„Ég fer á sundæfingar tvisvar í viku og geri jóga þegar mig langar til þess. Ég fer út að hlaupa kannski einu sinni í viku. Og svo reyni ég að lyfta kannski einu sinni í viku. Það eru engar öfgar í dag.“

Hún segir að sér líði ótrúlega vel andlega.

„Andleg líðan er stöðug vinna. Ég er sátt og er að gera fullt af góðum og skemmtilegum hlutum. Mér líður vel í eigin skinni.“

Hún hlær.

„Það er fullt af skinni.“

Húð.

„Það er fullt af lausu skinni. Ég geri kannski eitthvað við því síðar en ég er ekki með það á heilanum.“

Sjálfstraustið er klárlega komið.

Andrea er í fallegri, skærgulri peysu sem er merkt ADIDAS. Með stórum, hvítum stöfum.

„Ég elska að vera í litum sem gera mig glaða.“

Hún notar föt númer 12. Small.

„Ég var komin upp í 26. XXL.“

Það munar miklu.

„Ég kaupi ekki oft föt. Ég er ekki fatafrík. Þessi peysa er reyndar ný. Mér finnst hún geggjuð. Svo er ég búin að fara svo hratt á milli stærða síðasta árið að ég er ennþá pínu nervös að kaupa mér föt ef ég skyldi léttast meira.“

Andrea er spurð hvort hún vilji léttast meira.

„Ég veit það ekki. Ég er svolítið að reyna að vera meðvituð um hvað ég borða. Vera meðvituð um skammtastærðirnar og leyfa svolítið bara líkamanum að stýra þyngdinni.“

Hún viðurkennir að hún hafi áhyggjur af því að þyngjast.

„Í hvert skipti sem ég bæti á mig 3-400 grömmum þá hef ég áhyggjur af því að ég muni þyngjast aftur. Það er bara svoleiðis. Þetta er eitthvað sem ég held að ég þurfi að vinna í alla ævi eftir svona aðgerð. Ég eyddi ekki 800.000 krónum í það að verða aftur feit. Ég er ekki búin að ganga í gegnum það að fara í aðgerð sem breytir mér að innan til þess að fara aftur í sama farið.“

Fordómar

„Í alvörunni, ætlar þú að borða þetta? „Ætlar þú að borða svona mikið?“ „Finnst þér að þú ættir að klára þetta?“

Andrea er spurð um fordóma.

„Það eru rosalegir fitufordómar í samfélaginu.

Þegar ég var 16 ára fór ég inn í tískuvöruverslun með vinkonum mínum sem voru allar grannar. Ég var um 80 kíló. Afgreiðslukonan mældi mig út og sagði svo að þarna fengist ekkert í minni stærð. Ég var ekki einu sinni búin að spyrja hvort það væri eitthvað til á mig og ég var ekki einu sinni að fara að versla. Þetta hafði ömurleg áhrif á mig og ég hrökklaðist út úr búðinni og beið eftir því að vinkonur mínar kæmu út. Ég hef ekki síðan farið inn í þessa verslun.

Þegar ég var laus og liðug og áður en ég átti börnin var ég einhvern tímann á leiðinni heim af djamminu með rosa sætum stráki. Vinur hans spurði hvort hann ætlaði í alvörunni heim með mér. Hann sagði þetta með svip. Við fórum heim og þetta komment hékk svolítið yfir samskiptum okkar þetta kvöld. Við áttum síðan eina nótt saman og hann talaði aldrei við mig aftur. Ég held að það hefði eitthvað getað orðið úr þessu ef vinur hans hefði ekki verið með þetta komment.

Ég var fyrir nokkrum árum að skemmta mér með þáverandi manninum mínum og vinkonu okkar og vini. Við vorum öll með slatta af aukakílóum og vorum að ganga niður stigann á skemmtistað þegar ungur maður, sem var með félögum sínum, spurði hvort það hafi verið Biggest Loser-fundur uppi. Vinur okkar var fljótur að hugsa að sagði að svo hafi verið og að það væri verið að bíða eftir þeim sem spurði og félögum hans.“

Andrea hlær.

„Mér finnst þetta vera frábært svar. En þetta er svolítið viðhorfið sem maður hefur fengið í samfélaginu. Svo var ég einhvern tímann að fara í sund og þá gekk ég fram hjá strákum sem voru kannski 16 ára og þá sagði einn af þeim: „Hva, var þetta jarðskjálfti?“ Hvað átti ég sem fullorðin manneskja að segja við hann? Ég lét sem ég hafi ekki heyrt þetta.

Fullorðnir eru oftast nær betri í að fela fordómana. En ég hef alveg fengið „look“ þegar fólk er að horfa í körfuna mína í Bónus. Það horfir ofan í körfuna og svo á mig. „Hm, það er augljóst af hverju þú ert of feit.“ Svo er líka málið – er fólk að hugsa það eða er mín eigin skömm yfir að vera of feit að búa til að fólk sé að hugsa þetta? Það er líka oft málið að maður hefur svo oft miklar áhyggjur af því að fólk sé að dæma mann að maður er búinn að ákveða að það séu allir að dæma mann. Fólk sem er í yfirþyngd er sjálfu sér oft verst af því að við erum alltaf að hugsa um að eitthvað gerist eða hafi gerst af því að við séum of feit. Við búum til skoðanir fólks á okkur í hausnum á okkur.

Það sem ég hef lært fremst af öllu er að þessir fordómar sem ég var með gagnvart sjálfri mér voru svo óþarfir. Ég var alveg góð manneskja og ég var dugleg þó ég væri í yfirþyngd en upplifunin mín var alltaf að ég væri aðeins minna virði.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -