Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu býst við því að hinum grimma Rottweiler-hundi, sem beit stúlku í andliltið á skemmtistaðnum Röntgen um helgina, verði lógað. Það staðfestir Guðmundur Páll Jónsson lögregluvarðstjóri.
Málið er á byrjunarstigi hjá lögreglunni og í samtalið við Manníf segir Guðmundur Páll það ekki líta vel út. „Það á enn eftir að ræða við eigandann og hundaeftirlitið en hér er um að ræða stóran hund sem settur er inn í umhverfi með hávaða og ölvuðu fólki. Það skapar hættulegar aðstæður. Mér finnst líklegt að dýrinu verði lógað”, segir Guðmundur Páll.
Stúlka var bitin í andlitið af Rottweiler hundi á skemmtistaðnum Röntgen við Hverfisgötu síðastliðið föstudagskvöld. Eigandi staðarins, Ásgeir Guðmundsson, segir í samtali við Vísi að um sé að ræða leiðinlegt óhapp.
„Við þurfum kannski eitthvað að endurskoða hvort að við eigum almennt að skapa aðstæður til að þetta geti yfir höfuð mögulega komið aftur fyrir. Og þá held ég að það sé kannski bara skynsamlegt að setja eina almenna reglu um að eftir klukkan eitthvað ákveðið, áður en við förum að hækka tónlistina og skapa meiri kvöldstemningu á staðnum, að þá megi hundar ekki koma inn eftir þann tíma,“ segir Ásgeir.
Atvikið gerðist rétt fyrir lokun. „Eigandinn útskýrði fyrir mér persónulega að um sé að ræða ljúfan og góðan, vel upp alinn hund, þrátt fyrir að hann líti kannski út fyrir að vera stór og ógnandi,“ segir Ásgeir. Hann hafi gert eigandanum grein fyrir því að það væri í lagi að vera með hundinn á staðnum svo lengi sem hundurinn væri í ól og eigandinn treysti hundinum.
Samkvæmt Ásgeiri veit hann ekki betur en að þetta hafi farið betur á hafi horfst og líðan stúlkunnar þokkaleg.
„Ég hef ekki ennþá haft samband við eiganda hundsins en það sem ég hins vegar veit og þekki af honum er að þetta er ungur, mjög kurteis og skemmtilegur maður sem er fastagestur hjá okkur og ég veit að hann var í miklu áfalli og tók fulla ábyrgð á þessu,“ segir Ásgeir.