Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Guðmundur Felix vongóður að nota fingurna eftir 3 ár: „Fyrstu vikurnar ólýsanlega sársaukafullar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það virðist vera eitthvert alheimslögmál að spítalamatur eigi að vera vondur, bragðlaus, gufusoðinn og ókryddaður eins og á elliheimili. Og sami matseðill viku eftir viku. Jafnvel í Frakklandi. Frakkarnir mega þó eiga það að það er alltaf góður ostur með öllum mat,“ segir Guðmundur Felix Grétarsson þegar Mannlíf innti hann eftir hvernig bataferlið gangi eftir að hann var heimsins fyrsti maður til að fá á sig ágræddar hendur.

Hefur vakið alheimsathygli

„Mikið er nú gaman að heyra í íslenskum blaðamanni stundum. Það er svo mikið af útlendingum að fylgjast með mér, það er haft samband frá löndum á borð við Egyptalandi, Suður- og Mið-Ameríku, Rússlandi og jafnvel Nepal,“ segir Felix og bætir við að sennilega sé það þörfin fyrir góðar fréttir sem kalli þennan áhuga fram. „Fyrsta var það bara Trump, svo Trump og Covid og núna bara Covid. Hvað maður er búinn að fá leið á þessu!“

Guðmundur Felix er á fullu í enduhæfingu og er bjartsýnn á fullan bata.

Aðspurður um hvernig gangi segir Felix allt ganga bara vel. Hann er í stífri endurhæfingu frá því snemma á morgnana og til kl. 16 á daginn. Fullur vinnudagur. „Já þetta tekur á, og eftir klukkan fjögur hefur maður lítið haft annað að gera en góna á loftið og bíða eftir næsta degi. En sem betur fer er ég farinn að fá að fara heim.“

Heima er best

Í fyrsta skiptið sem Felix fór heim sagðist hann hafa fundið fyrir því hvað aðgerðin hefði tekið á. „Mamma og pabbi búa á hæðinni fyrir ofan mig og ég var vanur að hlaupa upp og niður en í fyrsta skiptið gat ég varla staulast en ég verð betri dag frá degi.

- Auglýsing -

Núna fæ ég að fara heim um helgar og vonandi kemur bráðlega að því að ég mæti á morgnana og fari heim að lokinni endurhæfingu. Bara eins og um venjulegan vinnudag sé að ræða. Þetta er hálftíma akstur og hljóðbók. Ekkert mál,“ segir Felix og það er augljóst að hann hlakkar til.

Felix segir það besta vera að fá að vera heima með fjölskyldunni og hundunum sínum tveimur. „Og maturinn er miklu betri!“

Dásamleg tilfinning

- Auglýsing -

Að sögn Felixar er hann byrjaður að fá tilfinningu í aðra öxlina. „Taugarnar eru eins og tré þar sem greinarnar vaxa út. Það er það sem er að gerast í höndunum á mér. Það er ólýsanlega dásamleg tilfinning að finna að þetta er að ganga upp. Taugarnar vaxa 1 millimetra á dag svo það er áætlað að ég verði komin með tilfinningu niður í fingur eftir tvö ár. Síðan fer þriðja árið í að þjálfa fingurnar sem auðvitað hafa ekkert verið notaðir svo lengi. Ég er afar vongóður um að sú áætlun standist. Þetta er alveg ótrúlegt fólk hér í endurhæfingunni, ég er afar þakklátur að það skyldi setjast á skólabekk og læra þetta allt saman,“ segir Felix hlæjandi.

Felix segist vona til að þetta útlit hverfi smám saman.

Á myndum sem Felix deildi sést að annar handleggurinn er mun þykkari en hinn en ástæðuna segir Felix að verið sé að sameina tvo vöðva, annan sem hann hafði sjálfur og hinn úr gjafanum. Annar hafði blóðflæði en engar taugar en hinn ekkert blóðflæði en aftur á móti taugar. „Ég man aldrei hvort var hvað, en nei nei, ég verð ekki svona lengi vona ég!“

Leit út eins og kókflaska

Aðspurður um hvað hanni hlakki mest til þegar hann fær tilfinningu í fingurnar segir hann það mikilvægast af öllu að vera sjálfum sér nægur og vera þakklátur. „Í 23 ár hef ég saknað litlu hlutanna; koma við flík í búð, fá mér að borða, snerta. Þetta daglega stöff. Svo kom strax þessi frábæra tilfinning að vera heill. Þegar maður er búinn að líta út eins og kókflaska í rúma tvo áratugi er ólýsanlegt að líta út heill, eins og manneskja. Og nota ermar. Í hvert skipti sem ég keypti peysu hafði ég aldrei neitt við ermarnar að gera.“

Felix var áður iðnaðarmaður og er það enn í hjarta sínu. „Ég elska verkfæri út af lífinu og hef safnað þeim í gegnum árin þrátt fyrir að geta ekki notað þau. Ég er kominn með prýðilegan lager og hlakka mikið til að geta notað þau.

Ég lifði í búbblu þessi ár, skynjaði bara heiminn í gegnum sjón og heyrn. Snerting er svo óendanlega mikilvæg í lífinu. Kannski fólk sem hefur verið í einangrun í Covid skilji aðeins hvað ég er að tala um.“

Vill að aðrir njóta gervihandanna

Felix átti gervihendur sem hann segir hafa verið rosalega óþægilegar. „Maður svitnaði þvílíkt þegar það var heitt, þær voru harðar, fyrirferðamiklar og gátu lyktað hræðilega. Ég var orðinn ansi þreyttur á þeim seinni árin“. Þegar forvitnast er hvort Felix langi ekki að henda þeim, hlær hann.  „Þetta er rándýrt dót svo ég held nú ekki. Þótt hver hönd sé sérsmíðuð þá eru ákveðnir partar í gervihandleggjum alltaf eins, til að mynda olnbogarnir. Maður er nú svo heppinn að hafa verið í kerfi sem gat útvegað manni gervihendur frítt en það er fjöldi fólks út um allan heim sem hefur ekki þann lúxus. Svo ég ætla að taka þá í sundur og vona að það sé hægt að nota þetta í einhverju stríðshjáðu þriðja heims landi.“

Enginn nennir vælurum

Guðmundur Felix verður næstu þrjú árin í stífri og erfiðri endurhæfingu 8 tíma á dag. Samt er Felix alltaf vera jákvæður og skemmtilegur, jafnt núna sem áður. Hvernig fer hann að þessu?

„Þetta er auðvitað ekkert grín. En sársaukatímabilið er að mestu leyti búið. Fyrstu vikurnar voru ólýsanlega sársaukafullar, ég var bara með puttann á takkanum að dæla í mig meira morfíni.  En starfsfólkið var frábært og vel hugsað um mig.

Auðvitað á ég daga sem ég er pirraður en ég er að upplagi mjög jafnlyndur og það þarf mikið til að koma mér úr jafnvægi. Ég er á miklu magni af sterkum lyfjum, vöðvarnir hafa rýrnað og ég þarf að vera á sýklalyfjum næstu 3 mánuði sem auðvitað er erfitt.

Fyrstu vikurnar voru gífurlega sársaukafullar hjá Guðmundi.

En það sem er svo mikilvægt er að temja sér samskiptahæfni. Það nennir enginn að tala við fólk sem sífellt er vælandi yfir einhverju og setur sig í fórnarlambshlutverkið. Ég held að við þekkjum öll að minnsta kosti einn svoleiðis einstakling. Svona væl getur verið ávanbindandi. Maður þarf að vanda sig í samskiptum við aðra og rækta þau, ekki taka út gremju og leiðindi yfir hrakföllum og óréttlátu lífi.“

Hef upplifað mikla blessun

Felix virðist alltaf líta á björtu hliðarnar.  Hann segir það hafa verið mikið þroskaferli að fara í gegnum lífið án handleggja. „Ég var bara 25 ára gamall, rétt hætttur að vera krakki og nýkominn með eigin krakka. En ég álít mig heppinn. Það er ótrúlegt að ég hafi lifað þetta af, ekki bara rafmagnið heldur líka fallið. Ég hef upplifað mikla blessun í lífinu og á góða fjölskyldu og gott bakland.“

Í frístundum frá endurhæfingunni kýs Felix að taka því rólega með eiginkonunni og hundunum. „Við förum í göngutúra og bíltúra. Það er svo ótrúlega mikið hægt að gera hérna í Frakklandi. Bæði elskum við strendurnar við Atlantshafið og förum oft til líka til Montpellier. Við kunnum betur við okkur þar en á Ríveríunni, fólk þar er snobbað og allt rándýrt. Svo er ekkert mál að skella sér um Evrópu. Við hjónin höfum farið til Ítalíu, Sviss og Póllands svo fátt eitt sé nefnt.“

Sakna ekki kuldans

Ég fer aldrei neitt norður, var nógu lengi í kuldanum á Íslandi og verð að segja að ég sakna hans ekki. Hér byrjaði að vora í febrúar og hitinn í kringum 20 gráður sem alveg yndislegt. Ég væri þó til í að sjá gosið, finna orkuna. Er örugglega magnað!“ segir Guðmundur Felix kampakátur og spenntur fyrir framtíðinni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -