Pink Iceland er ferðaskrifstofa sem sérhæfir sig í skipulagningu ferða-, viðburða- og brúðkaupa fyrir hinsegin gesti.
En tekið er vel á móti öllum svo lengi sem þeir eru ekki fordómafullir.
Hugmyndin að fyrirtækinu kviknaði fyrir allnokkrum árum hjá Evu Maríu Þórarinsdóttur Lange sem er eigandi þess ásamt Birnu Hrönn Björnsdóttur og Hannesi Páli Pálssyni. „Ég hafði lengi haft þann draum að koma á laggirnar þjónustu fyrir hinsegin ferðamenn. Ástæðan var aðallega sú að hinsegin ferðamenn verða oft fyrir hindrunum á ferðalögum sínu, óþægindum, fordómum og jafnvel ofbeldi. Með Pink Iceland er markmiðið að bjóða upp á þjónustuviðmót þar sem hinsegin gestum landins líður vel og geta ferðast frjálsir.
Ég stofnaði fyrirtækið árið 2011 þegar ég stundaði nám í ferðamálafræði við Háskóla Íslands og tók þátt í frumkvöðlakeppninni Gullegginu. Ég fann strax að mig langaði ekki vera ein á þessu ferðalagi sem var að stofna nýtt fyrirtæki svo að unnusta mín Birna Hrönn hoppaði um borð í lestina. Skömmu síðar bættist vinur okkar Hannes Páll við í eigendahópinn og við fundum strax að við höfðum öll þrjú sömu ástríðu fyrir málefninu og vildum byggja upp fallegt fyrirtæki saman,“ segir Eva María sem er framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
Pink Iceland er að sögn Evu Maríu 21. aldar ferðaskrifstofa sem sérhæfir sig í skipulagningu ferða-, viðburða- og brúðkaupa fyrir hinsegin gesti. Eva er eigandi, ferða- og brúðkaupsskipuleggjandi, ásamt þeim Birnu Hrönn og Hannesi Páli. Birna er að auki markaðsstjóri stafrænnar markaðssetningar og Hannes er einnig hönnuður og markaðsstjóri.
„Þó að áherslur og markaðssetning beinist aðallega að þjónustu fyrir hinsegin gesti tökum við vel á móti öllum góðum gestum, svo lengi sem þeir eru ekki fordómafullir. Það er mikill munur á okkar fyrirtæki og ferðaskrifstofuforminu sem fólk þekkir frá því áður en Internetið og bókunarsíður urðu helstu tæki og tól ferðalanga til að skipuleggja fríin sín.
„Við segjum stundum að það megi líkja okkur við kaupmanninn á horninu, það er kannski aðeins dýrara en alltaf jafnnotalegt þegar manni er heilsað eins og gömlum vini og er þjónustaður í samræmi við það.“
Þessi munur liggur kannski einna helst í því að við þurfum að keppa í verðum við risavaxnar alþjóðlegar bókunarvélar en veita á sama tíma persónulega þjónustu og hanna hágæðaupplifun fyrir gestina okkar. Við segjum stundum að það megi líkja okkur við kaupmanninn á horninu, það er kannski aðeins dýrara en alltaf jafnnotalegt þegar manni er heilsað eins og gömlum og vini og er þjónustaður í samræmi við það. Gestir okkar eru nær allir erlendir enda er þjónusta okkar miðuð að þeirra þörfum.“
Náttúran aðdráttarafl
Brúðkaupsþjónusta Pink Iceland er fjölþætt og starfsfólkið aðstoðar tilvonandi hjón með allt sem viðkemur því að giftast og upplifa Ísland. „Verkefnin eru ótalmörg og mismunandi og það verða til fjölmörg dagsverk við skipulagningu hinna einföldustu brúðkaupa. Við vinnum náið með til dæmis ljósmyndurum, stílistum, athafnastjórum, leiðsögufólki, prestum, landeigendum, veitingafólki, tónlistarfólki og opinberum stofnunum. Þegar brúðkaupsgestir koma til landins þá vilja þeir líka ferðast og því tvinnast brúðkaups- og ferðaskipulagningin gjarnan saman.
Mikill meirihluti okkar gesta er frá Bandaríkjunum. Náttúra landsins er aðal aðdráttaraflið fyrir ferðalögum fólks til Íslands og það sama á við með brúðkaup. Ísland verður því oft fyrir valinu þegar pör eru að leita að fallegum náttúrulegum stöðum til þess að láta gefa sig saman enda fara 90% okkar athafna fram utandyra.
Okkar þjónusta er einstök því hún er sérsniðin að ákveðnum hópi ferðamanna, þ.e. hinsegin ferðamönnum. Við tilheyrum sjálf þessum hópi og þekkjum hann vel. Við höfum svo tileinkað okkur ákveðna stefnu sem er það að vera hreinskilin við okkar gesti, erum með svokallaða „honesty policy“ þar sem við segjum hvernig viðskiptamódelið okkar virkar og það kann fólk að meta. Við höfum stundum talað um að við séum með ágætis „síu“ því að það kemur mjög skýrt fram hvað við stöndum fyrir og þá fáum við oftast ekki til okkar gesti sem eru með fordóma. Gestir okkar ganga iðulega í takt við þá lífssýn sem við, sem störfum hjá fyrirtækinu, höfum.“
Mikilvægt að lesa í aðstæður
Eva segir starfið mjög gefandi og þakklætið sé þar efst á blaði. „Það er ómetanlegt að finna þakklætið hjá fólki þegar allt er yfirstaðið. Sem brúðkaupsskipuleggjandi myndar maður náin tengsl við brúðhjón, vini þeirra og ættingja sem gerir allt ferlið svo gefandi. Í dag eigum við vini út um allan heim. Það er ótrúlega dýrmætt. Skemmtilegast er að upplifa stóra daginn með fólki. Sjá allt smella saman, upplifa gleðina og allar tilfinningarnar hjá gestum. Það er líka gaman að fá að vinna með fólki sem kann að meta þegar maður gefur sig allan í það að búa til einn mikilvægasta dag í lífi þess.
Veðrið getur oft verið mikil áskorun en við reynum þó að líta á það meira sem ævintýri sem kryddar daginn. Það getur verið erfitt að þurfa að breyta dagskrá dagsins vegna veðurs eftir að hafa skipulagt daginn í heilt ár eða lengur. Sem betur fer gerir fólk sér nú yfirleitt grein fyrir því að það er allra veðra von á Íslandi og kippir sér ekki upp við óvæntan snjóstorm eða smávegis rigningu. Það eru einna helst Íslendingarnir sem signa sig þegar þykkir upp og verða meðvirkir með íslenskri veðráttu. Ættingjar brúðhjóna geta líka verið erfiðir á köflum og þá þarf brúðkaupsskipuleggjandi að takast á við þá til þess að létta undir með brúðhjónunum. Það er mikilvægt að lesa vel í aðstæður og vinna úr þeim áskorunum sem koma upp án þess að brúðhjónin finni fyrir nokkru.
Við leggjum mikla áherslu á að fólkið njóti þessa ferðalags sem felst í því að skipuleggja brúðkaup í ókunnugu landi. Þá er gagnkvæmt traust mikilvægt, þ.e. að tilvonandi par treysti okkur fyrir að hjálpa sér að taka réttar ákvarðanir. Fólk á það til að týnast í smáatriðum og þá er það okkar hlutverk að fá það til þess að forgangsraða og einblína á stóru myndina – það sem virkilega skiptir máli. Við hvetjum fólk alltaf til að fylgja hjartanu og henda hefðum út um gluggann. Það þarf ekki að bjóða fulla frændanum eða óviðeigandi frænkunni sem eyðileggja allar veislur. Það má alveg bjóða upp á „burger og bjór“ í veislu. Það má alveg gifta sig á táslunum og strákar mega alveg vera með blómvönd.“
„Það fékk því mikið á alla þegar ein systirin kvað sér hljóðs og bað um að fá að lesa bréf frá móður mannsins, en þau höfðu á þessum tímapunkti ekki talast við í mörg ár.“
Hún segir að kostnaður sé eins mismunandi og brúðkaupin eru mörg. „Bara blómin í stóru brúðkaupi geta kostað jafnmikið og öll þjónustan á bak við lítið brúðkaup. Eins og áður sagði er hreinskilni og gagnsæi okkur mikilvæg og við reynum bara að vinna með það sem tilvonandi brúðhjón hafa úr að spila. Ef við sjáum fram á að brúðhjón hafi ekki efni á okkar þjónustu þá reynum við samt alltaf að gefa þeim góð ráð og beina þeim í réttar áttir. Ef við berum þetta saman við það sem pörin væru að eyða í sínu heimalandi þá er oftast ódýrara fyrir þau að gifta sig á Íslandi þar sem veisla er oft minni í sniðum og færri gestum boðið en í öðrum löndum. Það er þá verið að fjárfesta í öðrum hlutum, minna eytt í til dæmis skreytingar og meira í hluti sem bæta upplifun gesta og pars, til dæmis ævintýralegar ferðir, góðan mat, skemmtileg tónlistaratriði og svo framvegis.“
Allir hágrétu
Starfsemin hefur skilið eftir sig margar góðar minningar og Eva segir að alltaf standi eitthvað upp úr í hverju brúðkaupi. „Eftirminnilegustu sögurnar tengjast gjarnan tilfinningarríkum uppákomum. Okkur er minnistætt brúðkaup sem við skipulögðum fyrir nokkru þar sem foreldrar annars brúðgumans höfðu afneitað syni sínum eftir að hann kom út úr skápnum. Systur þessa manns náðu þó að smygla sér úr landi til að vera við brúðkaup bróður síns, án vitneskju foreldranna eftir því sem við best vissum. Það fékk því mikið á alla þegar ein systirin kvað sér hljóðs og bað um að fá að lesa bréf frá móður
mannsins, en þau höfðu á þessum tímapunkti ekki talast við í mörg ár. Við vissum ekki hverju við ættum von á og settum okkur í stellingar og vorum tilbúin að slökkva á hljóðnemanum. Þess gerðist þó ekki þörf því bréfið var fullt af ást og viðurkenningu móður á syni sínum. Það kom fram að pabbinn vissi hvorki af brúðkaupinu né bréfinu sem var lesið og móðirin, sem var orðin okkuð öldruð, vildi fullvissa strákinn sinn um að hann væri elskaður, þó ekki væri nema af öðru foreldrinu. Allir sem urðu vitni að þessu hágrétu hvort sem það voru gestir, gumar, þjónar eða brúðkaupsskipuleggendur.“
Gott orðspor dýrmætt
Eva María er stolt af því orðspori sem þau hafa skapað sér. „Við erum til dæmis komin með tæplega 300 fimm stjörnu umsagnir á Tripadvisor og þeir sem ferðast með okkur koma iðulega til okkar vegna þess að einhver mælti með okkar ferðum. Það er búið að fjalla fallega um okkur um allan heim og við trúum því að ef maður leggur hjarta og sál í það sem maður gerir og passar að njóta þess á hverjum degi komi það margfalt til baka. Við höfum vaxið hratt á síðustu árum en þó ekkert í líkingu við mikið af fyrirtækjum í kringum okkur og það er einfaldlega vegna þess að við viljum halda rétt á spöðunum, fara ekki fram úr okkur og passa að þjónustan sem við bjóðum upp á sé einstök.
Við erum alltaf að bralla eitthvað. Þessa dagana tökum við til dæmis þátt í HönnunarMars þar sem við bjóðum upp á DesignWalk-gönguferð um miðborgina. Við erum líka að skipuleggja heimsóknir kórahópa til landsins. Svo erum við alltaf að leita nýrra leiða til að tengja saman skapandi greinar, menningu og ferðaþjónustu enda finnst okkur þetta vera náskyldar greinar.“
Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir