Lögreglan í Vestmanneyjum biðlar til almennings um aðstoð við rannsókn á bílþjófnaði snemma í morgun. Þá var Bens sendibifreið stolið og hún klessukeyrð í drasl.
Lögreglan rannsakar nú þjófnaðinn og skemmdarverkin. Til þess leitar hún eftir vitnum að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni:
„Milli kl.05:00 og 06:00 í morgun var hvít sendibifreið af gerðinni M. Bens tekin ófrjálsri hendi þar sem hún stóð í stæði á Skipasandi. Var henni ekið austur Strandveg og rétt austan við gatnamót Bárustígs og Strandvegar var henni ekið á umferðarmerki og síðan var henni ekið áfram áleiðis austur á Nýjahraun. Á Skansvegi, sunnan við FES var bifreiðinni ekið út af og sat hún þar föst þegar lögregla kom á vettvang. Bifreiðin er mikið skemmd. Lögreglan biður þá sem mögulega hafi séð þegar bifreiðin var tekin, eða þegar henni var ekið á Strandveginum í morgun að hafa samband við Lögregluna í Vestmannaeyjum.“