Hver þekkir ekki að vera búinn að eyða himinháum upphæðum í snyrti og förðunarvörur, en standa svo uppi með vörur sem hreinlega henta alls ekki. Vörurnar sitja síðan inni í skáp þar til þær eru ónýtar og lenda í ruslinu. Nákvæmlega þetta er mjög algengt því miður. Fyrir þessu geta verið nokkrar ástæður.
Fagmennska og kunnátta
Það er alls ekki sjálfgefið að fólk viti hvaða húðgerð, húðvandamál, litatónn húðar eða annað slíkt, það er með. Það er því miður ekki heldur sjálfgefið að sá sem afgreiðir þig eða situr fyrir svörum, viti sjálfur eða hafi kunnáttuna til þess að leiðbeina og ráðleggja. Það í sjálfu sér er ekki skrítið, því til þess að vera mjög vel að sér í þessum fræðum þarf viðkomandi að vera með menntun í snyrtifræði og eða förðunarfræði. Auðvitað eru líka til einstaklingar sem eru ómenntaðir í fræðunum og eru mjög vel að sér í þessum efnum og ekki síðri í að aðstoða við valið. Engu að síður getur ekki hver sem er veitt þá þjónustu sem er þörf ef vel á að vera, svo mikið er víst.
Innihaldsefni
Innihaldsefni í vörunum er svo annað sem skiptir miklu máli. Margir bæði kjósa að nota ekki hin og þessi efni og aðrir eru hreinlega með ofnæmi eða óþol fyrir ákveðnum efnum. Í snyrtifræði er eitt af því sem nemendum er kennt einmitt það að lesa aftan á vörur og þekkja hin fjölmörgu erlendu heiti sem geta verið notuð yfir nákvæmlega sömu hlutina. Það eru auðvitað til ómenntaðir aðilar sem eru mjög færir í að lesa á vörur og þekkja mjög vel innihaldslýsingar, það er ekkert að því. Þekkingin verður að vera til staðar í einhverri mynd ef það á að vera hægt að gefa góða þjónustu þegar kemur að snyrti og förðunarvörum sem henta viðskiptavininum. Það er mikill sparnaður að fá þjónustu frá fólki sem kann sitt fag. Viðskiptavinur fær með því móti nákvæmar upplýsingar um það sem þarf að meðhöndla og val á réttum snyrtivörum.
Fáðu vitneskju um þína húðgerð
Ef þú veist ekki hvernig húðgerð þú ert með væri ekki vitlaust að komast að því, það getur sparað þér heilmikinn pening að vita hvað hentar inni húð. Það er hægt að fá húðgreiningu á snyrtistofum til dæmis og í raun á snyrtifræðingur að framkvæma slíkt mat í öllum tilfellum áður en nokkur meðferð á húð er hefst. Það að vita hvaða húðgerð þú ert með er mjög nauðsynlegt fyrir margar sakir. Þín snyrtistofa ætti að vera með á skrá húðgerð þína hafir þú einu sinni farið í húðmeðferð hjá stofunni.
Fáðu vissu fyrir ofnæmi/óþoli
Sé ofnæmi eða óþol til staðar er mjög nauðsynlegt að þekkja þau efni sem valda einkennunum. Best er að fá staðfestingu á því hjá húðsjúkdómalækni. Þegar það liggur ljóst fyrir hvaða efni valda einkennum er mjög nauðsynlegt að kynna sér þessi efni og öll nöfnin sem þau geta borið í innihaldslýsingum á vörum. Þannig getur þú forðast efnið eða efnin og ekki setið uppi með rándýrar vörur sem þú getur síðan ekki notað.
Fáðu prufur
Það ætti að vera sjálfsagt mál að geta fengið prufur af snyrtivörum. Þó er ekki hlaupið að því allstaðar hér á landi, því miður. Veldu verslun sem veitir þessa þjónustu. Snyrtivörur eru dýrar og það er í raun mjög skrítið að ætlast sé til þess að neytendur kaupi dýrar vörur án þess að fá prufur sem hægt er að prófa nokkrum sinnum heima hjá sér áður en ákvörðun er tekin. Flestar, þó alls ekki allar verslanir eru með opnar prufur í versluninni en það er alls ekki það sama auk þess sem það er mjög sóðalegt oft á tíðum svo ekki sé minnst á að hver sem er getur sett fingurna ofan í krukkurnar og handfjatlað vörurnar. Ekki síst á þessum tímum ættu alls ekki að vera prufur af vörum með opnum aðgangi heldur einungis prufur sem fólk getur tekið með sér heim.
Gerðu kröfur
Veldu verslun sem veitir góða þjónustu, er með starfsfólk sem veit hvað það syngur, hefur tíma til þess að þjónusta þig og gefur þér prufur af því sem þig langar að prófa.
Ekki nota of mikið magn og ekki nota fingurna
Það er mjög algengt að verið sé að nota miklu meira magn en í raun þarf. Það þýðir að vörurnar duga styttra sem leiðir til meiri útgjalda. Af góðum vörum á alls ekki að þurfa að nota mikið magn. Sumir hugsa oft, ég set bara nóg þá bara virkar þetta betur, en það er víðs fjarri sannleikanum. Aldrei stinga fingrum beint ofan í vörurnar, jafnvel þótt þú sért eini aðilinn sem er að nota þær. Bakteríur sem við berum gjarnan á höndunum geta grasserað ofan í vörunum. Best er að nota þar til gerða spaða.
Geymdu vörurnar við réttar aðstæður
Það er sem dæmi ekki gott að geyma snyrtivörur, krem og förðunarvörur inni á baðherbergi. Þar verður oft mjög heitt og mikil gufa getur myndast sem eru ekki kjöraðstæður fyrir þessar vörur. Alls ekki geyma vörur í opnum hillum eða við vaskinn, þar ertu komin með að auki við hitann og rakann bakteríur og slíkt sem þrífst gjarnan inni á baðherbergjum. Besti staðurinn fyrir bæði húð og förðunarvörur er þar sem er fremur svalt og dimmt og ekki hitabreytingar. Það skiptir höfuðmáli að geyma þessar vörur á réttan hátt svo virknin haldi sér og breytist ekki. Yfirleitt liggja mikil verðmæti í vörunum og þá þarf að huga að þessu og auðvitað hreinlætinu.
Fylgstu með tilboðum og afsláttum
Tilboð og afslættir er nokkuð sem getur sparað fólki miklar fjárhæðir að því gefnu að þú vitir hvers þú þarfnast en sért ekki að kaupa eitthvað sem hentar svo alls ekki. Það að þekkja þau atriði sem áður hefur verið komið inn á veitir líka meira frelsi til þess að geta pantað á netinu. Þá ætti fólk að geta verið nokkuð öruggt með hvað á að panta og hvað hentar.
Vefverslanir
Veldu þér vefverslun sem gefur allar nauðsynlegar upplýsingar. Ekki bara um eðli og virkni vörunnar heldur ítarlega innihaldslýsingu. Það að verslun veiti ekki þessar lágmarksupplýsingar er alls ekki af hinu góða, það á að vera aðgengi að öllum upplýsingum. Vefverslanir ættu líka að geta sent prufur af vörum sem þig langar að prófa áður en keypt er. Þjónusta vefverslana er mjög misjöfn svo veldu vel og veldu þá vefverslun sem greinilega leggur sig fram. Málið er að hjá vefverslun eru upplýsingarnar sem gefnar eru þjónustan sem viðskiptavinurinn er að fá, í stað þjónustu sem hægt væri að fá í verslun. Séu þessi atriði ekki á kristaltæru er viðskiptavinur sem verslar við þá vefsíðu ekki að fá góða þjónustu. Vörurnar kosta það nákvæmlega sama í vefverslun og í verslun svo það ætti að vera lágmarkskrafa að þessi atriði séu á hreinu.