Laugardagur 21. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

Fjör fyrir alla fjölskylduna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það er hægt að gera margt með skemmtilegt með krökkunum heima.

Samverustundir fjölskyldunnar eru mjög dýrmætar. Oft er talað um gildi útiveru og hvernig má gera skemmtilega hluti með börnum utan veggja heimilisins. En innivera er ekki síður góð og gild, það er hægt að gera margt fleira skemmtilegt en bara að horfa á sjónvarpið. Hér eru nokkrar góðar hugmyndir.

Matreiðsla getur aukið áhuga, sjálfstraust, forvitni og frumkvæði barna.

Allir í eldhúsinu
Góð leið til að verja tíma með börnunum er að elda eða baka eitthvað með þeim. Matreiðsla getur aukið áhuga, sjálfstraust, forvitni og frumkvæði barna. Þau eru flest vön að sjá foreldra sína í eldhúsinu þannig að við það að fá að taka þátt finna þau fyrir trausti frá hinum fullorðnu og gera sér grein fyrir að þau séu að læra eitthvað sem er mikilvægt. Með því að taka þátt fer barnið einnig að velta fyrir sé hvað það borðar, hvað er í matnum sem það borðar og hvaðan hráefnið kemur. Með því að kynnast öllu ferlinu og hráefnum frá grunni getur gert það að verkum að matvendni minnki ef hún er til staðar. Það skiptir miklu máli fyrir allt lífið að fá áhuga á matreiðslu og geta eldað sér næringarríkan mat. Því upplýstara sem barnið verður því minni líkur verða á að það velji eingöngu skyndibita í framtíðinni. Matreiðsla stuðlar einnig að ýmiss konar færni, svo sem stærðfræði, því það þarf að mæla hráefni, telja og stundum leggja saman, og einnig eykst orðaforði barnsins. Það er líka mikil áskorun að takast á við afleiðingarnar ef eitthvað fer úrskeiðis og vinna að lausnum í þeim efnum.

Litagleði
Flestir foreldrar þekkja það að vera beðnir um að sitja og teikna með barninu sem getur reynst flókið ef maður hefur litla sem enga hæfileika á því sviði. Hins vegar geta allir litað og undanfarin ár hafa vinsældir litabóka fyrir fullorðna aukist til muna. Margir trúa því að það sé róandi fyrir hugann að lita og þessi iðja er oft tengd við hugmyndir um gjörhygli, eða mindfulness, og litir hafa lengi verið notaðir í ýmiss konar listmeðferð. Helsti munurinn á litabókum fyrir börn og fullorðna er erfiðleikastigið, litabækur fullorðinna eru með smærri og flóknari myndum. Þannig að nú geta foreldrar og börn setið saman með sína litabókina hvert og notið þess að lita saman.

Fjölskyldan getur setið saman og lesið bók þannig að hver fjölskyldumeðlimur fær sitt tækifæri til að lesa upphátt fyrir hina … Þetta eykur bæði lesskilning og lestrarfærni barna.

Sögustund
Margir, ef ekki flestir, foreldrar lesa fyrir börnin sín þar til þau ná þeim aldri að byrja að lesa sjálf. En það er ekki síður skemmtilegt að lesa með börnunum sínum þegar þau eru farin að geta það sjálf. Til dæmis getur fjölskyldan setið saman og lesið bók þannig að hver fjölskyldumeðlimur fær sitt tækifæri til að lesa upphátt fyrir hina. Síðan má ræða saman um atvik í bókinni og spá í söguþráðinn. Þetta eykur bæði lesskilning og lestrarfærni barna auk þess sem orðaforði þeirra eykst. Einnig getur þetta aukið sjálfstraust barna því þau munu oft þurfa að lesa upphátt fyrir jafningja sína í skólanum sem getur verið ógnvekjandi fyrir marga.

Því ekki grafa upp spilastokk og kenna börnum nokkra góða leiki sem þið spiluðuð í æsku?

Spilerí
Í dag spila börn frekar tölvuleiki en hefðbundin spil. Það er allt gott og blessað því leikirnir æfa oftar en ekki svipaða tækni og færni, svo sem kænsku, úrlausn vandamála og þolinmæði. Það getur þó verið erfiðara fyrir foreldra að taka þátt í því spili. Því ekki grafa upp spilastokk og kenna börnum nokkra góða leiki sem þið spiluðuð í æsku? Þetta gefur tengingu við fortíðina og börn hafa gaman af því að heyra hvernig hlutirnir voru þegar þið voruð krakkar. Borðspil eru einnig skemmtileg þótt þau séu oft tímafrekari en að spila á spil. Hægt er að nota tímann á meðan spilað er til að ræða daginn og veginn, spyrja um skóladaginn eða hvað sem er án þess þó að það sé þvingað eða einhver pressa.

Í barndóm aftur
Það hafa allir gott af því að leika sér aðeins og finna barnið innra með sér. Börn hafa líka þörf fyrir að finna þessa tengingu við foreldra sína, að þeir séu líka börn inn við beinið. Fyrir utan þessa klassísku leiki, svo sem feluleik, er til dæmis skemmtilegt að búa til virki úr púðum, sófum og teppum og síðan er hægt að fara í þykjustuleik inni í virkinu. Annar skemmtilegur leikur er nokkurs konar dótakeila; þá er böngsum, dótaköllum eða öðru dóti raðað upp við endann á löngum gangi og leikmenn skiptast svo á að rúlla bolta og reyna að fella dótið. Önnur útfærsla á þessum leik er að leikmenn stilli sér upp sitt hvorum megin við ganginn með sína dótakalla og þá er markmiðið að vera fyrstur til að fella alla kallana hjá hinum. Önnur góð leið til að fá útrás og hafa það gaman er að halda danspartí, þá er einfaldlega skemmtilegt lag sett á fóninn og svo dansa allir eins og þeir eigi lífið að leysa.

- Auglýsing -

Texti / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / www.pixabay.com

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -