Opnað hefur verið fyrir aðgengi að gosstöðvum í Geldingadölum á ný eftir að lokað var í gær klukkan 17:00 vegna mögulegrar gasmengunar. Þetta segir í tilkynningu Almannavarna í hádeginu.
Veður hefur farið batnandi á svæðinu og hefur Veðurstofa Íslands komið upp veðurstöð á svæðinu til þess að fylgjast með veðrinu þar í rauntíma. Verið er að vinna í því að bæta rauntímamælingar á gasi við hraunjaðra.
Lögreglustjóri Suðurnesja áætlar að með þessum aðgerðum verði mögulegt að halda svæðinu opnu á næstu dögum og vikum. Viðvaranir verða sendar út ef loftgæði versna eða ef veðurspá er óhagstæð.
Ef fólk ætlar sér að ganga upp að eldgosinu er það hvatt til að skoða nýjustu veðurspár og vera vel útbúið. Segir jafnframt í tilkynningunni að fólk dvelji gjarnan lengur við gosstöðvarnar en það ætlar sér þar sem sjónarspilið sé mikið og því gott að vera útbúinn í langa útiveru.
Ráðlagt er að halda sig í hlíðum ofan Geldingadals, þar sem hætta á gasmengun í lægðum sé alltaf fyrir hendi og því ekki mælt með að fara um þær við hraunjaðra.
Auk heldur er fólk vinsamlegast beðið að virða og viðhafa persónulegar sóttvarnir vegna aukningu COVID smita í samfélaginu.