Sunnudagur 22. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Rúrik lítur á sexí sem hrós: „Ef ég fer að sýna stjörnustæla þarf einhver að pikka í öxlina á mér”

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég er enginn dansari í grunninn, var alveg týndur í þessum heimi. Tók reyndar skilduönn í skóla þar sem grunnskrefin voru kennd. En það það var eins og danskan, allt gleymt við útskrift,“ segir Rúrik Gíslason, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, fyrirsæta og nú keppandi í hinum gríðarlega vinsæla sjónvarpsþætti „Let’s dance” í Þýskalandi.

Þátturinn er byggður upp á afar vinsælum, breskum sjónvarpsþætti, þar sem atvinnudansarar eiga að kenna þekktu fólki að dansa sem síðan eiga að keppa vikulega. Rúrik hefur fengið mikið lof fyrir dansfærni sína.

Kynþokkafyllsti knattspyrnumaðurinn

„Þetta er bara afleiðing mikillar vinnu. Að baki 90 sekúndna broti af dansi eru 60 klukkutímar af stanslausum æfingum frá morgni til kvölds. Ég fæ frí á laugardögum og þá er ég yfirleitt í myndatökum,” segir Rúrik, nýkominn af dansæfingu. „Við erum að æfa frekar erfiðan dans sem kannski liggur ekki eins vel fyrir mér og fyrri dansar, en þetta kemur með æfingunni.“

Rúrik stimplaði sig rækilega inn þegar hann spilaði með landsliðinu gegn Argentínu á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu árið 2018. Og ekki eingöngu vegna færni hans með knöttinn heldur flykktist kvenfólk að skjánum og fljótt flaug um internetið að hér væri um að ræða kynþokkafyllsta knattspyrnumann heims. Á tveimur dögum fóru fylgismenn hans á Instagram hans úr 30.000 og í 330.000. Enginn var meira hissa en Rúrik.

- Auglýsing -
Rúrik sló í gegn á vellinum.

Rúrik dró sig í hlé frá knattspyrnu í fyrra, aðeins 32 ára að aldri, en hefur haft meira en nóg að gera.

Rússinn keyrir mig áfram

Hann er búinn að slá í gegn sem knattspyrnumaður og fyrirsæta. Nú er hann að slá í gegn sem dansari. Hvernig kom það til?

- Auglýsing -

„Ég fékk tilboð um að koma í þáttinn í fyrra en þá var ég í kafi í boltanum svo ég afþakkaði. Þegar ég hætti því komst ég að því að tilboðið var enn á borðinu. Og ég ákvað bara að skella mér. Ég bjóst við að þetta yrði erfitt og gaman en þetta er ennþá erfiðara og ennþá meira gaman en ég hefði nokkurn tíma ímyndað mér. Eins og í öllu öðru verður maður að leggja sig allan fram til að gera vel og hafa gaman að hlutunum.“

Rúrik æfir dans frá 8:30 á morgnana og stundum til kl. 20 á kvöldin. Og þá er eins gott að hann sé í því góða formi sem hann er. „Þetta er megamikil vinna og Rússinn minn keyrir mig áfram. Ég læri sífellt meira í hverri viku af henni.” Þar er hann að visa til dansfélaga síns, Renata Lusin. „Hún er ótrúlega fær dansari og okkur kemur vel saman. Hún segir, sem betur fer, mig mjög þægilegan í samvinnu enda hef ég fullan skilning á því að hún er fagmaðurinn og ég læt hana um stjórnina. Okkur kemur afar vel saman og ég er mjög þakklátur að fá tækifæri til að vinna með svona reyndum dansara og kennara.“

Rúrik ásmt dansfélaga sínum, Renata.

Rúrik er ótrúlega jarðbundinn og rólegur yfir allri þeirri athygli sem hann hefur hlotið. Honum finnst fyndið að vera spurður um stjörnustimpilinn. „Ef ég fer að sýna stjörnustæla þarf einhver að pikka í öxlina á mér.”

Gaman að stuða fólk

Að sögn Rúriks höfðu sumir efasemdarraddir um þátttöku hans í danskeppninni. „Kannski varð það frekar til þess að ég tók þátt. „Ég vil ekki festa mig, heldur víkka sjóndeildarhringinn, læra og gera nýja hluti. Kynnast nýju fólki sem er að gera öðruvísi hluti en ég er vanur. Það er einmitt það sem er svo gaman við að taka þátt í danskeppninni, ég að hitta fólk fólk með ólíkan bakgrunn, alls staðar að úr heiminum. Það er ómetanleg reynsla.

Mér leiðist þegar fólk setur sjálft sig og aðra í kassa. Það er dálítið gaman að stuða fólk og gera eitthvað óvenjulegt og nýtt eða kjánalegt, eitthvað sem gæti hugsanlega veitt fyllingu í lífinu. Það er hvatning að vera smá rebel. Skoðanir annarra eiga aldrei að setja bremsu á líf manns.“

Rúrik er að slá í gegn í dansinum.

Rúrik segir það óþarfi fyrir fólk að hafa skoðun á öllu. „Stundum spyr ég sjálfan mig af hverju ég hafi skoðun á einhverju sem kemur mér ekkert við. Það sem skiptir mig máli er að fólkið mitt, fólkið sem skiptir mig verulega máli, sýni stuðning og jákvæðni. Og þau gera það.“

Rúrik hlaut einróma lof fyrir síðasta þátt þar sem hann og Renata dönsu jive. Það má sjá hér

Engin rómantík

Breska útgáfan af þáttunum hefur fengið orð á sig fyrir sambandsslit enda hefur það gerst oftar en einu sinni að kennarar og nemendur hafi tekið saman. Það er mikil nánd að dansa við aðra manneskju 60 klukkutíma á viku. Hvað segir Rúrik um það? Honum finnst það fyndið. „Ég hef heyrt af þessu en ég er ákaflega vel staddur í þeim efnum og Renata líka. Maðurinn hennar er reyndar innan keppninnar og hefur gefið okkur góð ráð allt í gegnum ferlið. Hann gefur heldur ekkert eftir og er góður gagnrýnandi.“

Kærasta Rúriks er brasilíska fyrirsætan Nathalia Soliani. „Hún er yndisleg stelpa, bæði góð og falleg.” Hann segir þau vera orðin því vön að vera í fjarsambandi. „Vinna okkar beggja kallar á mikil ferðalög. Hún getur því miður ekki komið til mín þar sem ég hef ekki fasta búsetu í Þýskalandi. En við erum alltaf í sambandi.“

Rúrik ásamt kærustu sinni, Nathalia.

Fullbókaður í fyrirsætustörf

Á milli dansæfinga er Rúrik fullbókaður í fyrirsætustörf. ,,Ég hef mjög gaman af því. Ég er með samning við nokkur merki en er mjög pikkí á fyrir hvaða merki ég vinn. Ég kýs að vinna með merkjum sem eru flott og trúverðug og ýta undir mitt brand. Til dæmis hefur samstarf mitt með 66 gráður Norður staðið yfir í mörg ár og verið skemmtilegt og spennandi. Ég er afar þakklátur fyrir að vera í þeirri stöðu að fá mikið af fyrirspurnum og tilboðum og geta valið og hafnað.“

Rúrik er eftirsótt fyrirsæta.

Þegar minnst er á Rúrik kemur orðið sexí oft fyrir. Ein leit á Google sannar það. Hvernig er að heyra það sífellt að maður sér sexí? Rúrik hlær að því. „Ég er oft spurður að þessu. Hvort það geri lítið úr mér sem einstakling. Ég lít ekki svo á, ég lít bara á það sem hrós. Það sem gerist líka þegar fólk kynnist mér er að það uppgötvar að ég er frekar tjilllaður og rólegur gæi sem reyni að sigla lygnan sjó. Ísland gerði mig jarðbundinn. Við erum fámenn þjóð þar sem allir stælar eru illa séðir. Ég er stoltur af hvernig aðrar Evrópuþjóðir líta á Íslendinga. Við erum helvíti flott þjóð með flottar hugsanir og gildi.“

Rúrik segir það erfitt að vera stöðugt spurður um sjálfan sig. „Stjórnmálamaður ræðir pólitík, ég er alltaf spurður um sjálfan mig. Hvernig er endalaust hægt að tala um sjálfan sig? Það er auðvelt að klúðra því.“

Nú hefur Rúrik hlotið einróma lof fyrir dansfærni sína. Heldur hann að þau Renata geti unnið keppnina? „Það væri skrítið að spá sjálfum sér sigri. En mér finnst æðislega gaman og vil svo gjarnan vera í þættinum eins lengi og ég get,” segir Rúnar Gíslason, fyrrverandi landsliðsmaður, fyrirsæta og dansari. Og fer að hvíla sig, enda æfing snemma í fyrramálið

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -