Fyrrum fótboltakappinn Rúrik Gíslason er að slá í gegn í þáttunum „Allir geta dansað“ í Þýskalandi. Rúrik segir að ekki hafi allir verið sammála um að hann ætti að taka þátt, sumir hafi haft sínar efasemdir: „Kannski varð það frekar til þess að ég tók þátt. Ég vil ekki festa mig, heldur víkka sjóndeildarhringinn, læra og gera nýja hluti. Kynnast nýju fólki sem er að gera öðruvísi hluti en ég er vanur. Það er einmitt það sem er svo gaman við að taka þátt í danskeppninni, að hitta fólk með ólíkan bakgrunn, alls staðar að úr heiminum. Það er ómetanleg reynsla.“
Rúrik segist leiðast það þegar fólk setur sjálft sig og aðra í kassa: „Það er dálítið gaman að stuða fólk og gera eitthvað óvenjulegt og nýtt eða kjánalegt, eitthvað sem gæti hugsanlega veitt fyllingu í lífinu. Það er hvatning að vera smá rebel. Skoðanir annarra eiga aldrei að setja bremsu á líf manns.“
Hann segir það jafn framt óþarfi fyrir fólk að hafa skoðun á öllu og segist hann stundum spyrja sjálfan sig að því hví hann hafi skoðun á einhverju sem komi honum ekkert við: „Það sem skiptir mig máli er að fólkið mitt, fólkið sem skiptir mig verulega máli, sýni stuðning og jákvæðni. Og þau gera það.“
Rúrik var í helgarviðtali Mannlífs, viðtalið má lesa í heild sinni hér.