Algjör óstjórn er á Grindavíkurvegi og Suðurstrandarvegi þar sem þúsundir bifreiða og fólks á leið á gosstöðvunum mjakast áfram á hraða snigilsins. Grindavíkurbær er stappfullur af bílum og nær röðin alla leið að uppgöngustað við gosstöðvarnar. Talið er að röðin sé allt að 15 kílómetra löng. Þessu er líkt við þjóðvegahátíðina miklu forðum þegar mistök urðu til þess að þúsundir manna komust ekki á Þingvöll og voru föst í bifreiðum sínum.
Dæmi eru um að fólk hafi verið allt að þremur tímum á leiðinni frá Reykjavík til Grindavíkur. Eins og staðan er núna er allt fast en spurst hefur út að loka eigi gosstöðvunum. Blaðamaður Mannlífs sem er fastur í röðinni segir fólk undrast að lögregla láti fólk ekki vita að loka eigi leiðinni og snúa þeim þannig frá. Umferðartappinn er vegna þess að bílastæði í grennd við gosið eru full. Nokkuð er um að fólk hafi farið gangandi frá Grindavík á gosstöðvarnar. það þýðiur yfir 20 kílómetra ganga, fram og til baka.
Met var slegið á gosstöðvunum í gær þegar yfir 5 þúsund manns mættu. Reikna má með að það met hafi verið slegið hressilega í dag.