Tískuhönnuðir taka þátt í kvenréttindabaráttunni með því að fagna fjölbreytileikanum.
Við vorum orðin allt of vön því að sjá einsleitar og sviplausar fyrirsætur ganga niður tískusýningarpallana til að kynna fyrir okkur nýjustu tísku.
Síðustu misseri virðist tískuheimurinn þó vera farinn að ranka við sér og hönnuðir eru farnir að taka þátt í kvenréttindabaráttunni með því að fagna fjölbreytileikanum. Þeir sem sýndu tískuna síðustu mánuði og vikur notuðu meðal annars konu á áttræðisaldri, ofurfyrirsætu í svokallaðri „yfirstærð“og múslímska fyrirsætu með hijab. Þá veigruðu þeir sér ekki við að senda frá sér rammpólitísk og feminísk skilaboð sem eiga erindi til allra.
Sterk skilaboð
Óhætt er að segja að sjaldan eða aldrei hafi tískusýningarpallarnir verið eins stútfullir af kvennakrafti og á síðustu vikum og margir hönnuðir gáfu okkur von um að hægt og rólega séu tímarnir að breytast til hins betra.
Tískuheimurinn virðist smám saman vera að brjóta niður veggi í staðinn fyrir að byggja þá og leyfir einstaklingum frekar að njóta sín óháð kynþætti, kyni, aldri, trúarbrögðum eða kílóafjölda.
Í ljósi þess að konur yfir sextugt eru með stærstu kaupendum hátísku í heiminum verður að þykja skrítið að þær sé sjaldan sýnilegar á tískusýningarpöllunum eða í auglýsingum. Þess vegna var einstaklega ánægjulegt að að sjá eldri konu ganga niður pallinn fyrir tískuhúsið Simone Rocha.
Michael Kors fékk ofurfyrirsætuna í „yfirstærð“, Ashley Graham, til að sýna fötin sín.
Múslímska fyrirsætan Halima Aden, sú fyrsta til að ganga niður tískusýningarpall á tískuviku í New York með hijab bundinn um höfuðið.
Feminísk skilaboð komust vel til skila á tískusýningarpalli Prabal Gurung sem sendi fyrirsætur sínar niður pallinn í rammpólitískum bolum.
Í lokaatriðinu hjá Missoni báru fyrirsæturnar bleikar píkuhúfur sem eru nýtt merki kvenréttindahreyfingarinnar (sbr. aðalmynd).
Litadýrð
Margir stærstu tískuhönnuðirnir fengu innblástur frá götutískunni og sendu fyrirsætur niður pallinn með einstaklega litríkt hár. Við sáum meðal annars gular strípur hjá Versace, skærblátt hár hjá Marc Jacobs, eldrautt hjá Saint Laurent og Barbie-bleikt hjá Dior.
Förðunin undirstrikaði persónulega tjáningu þeirra sem hana báru og litadýrð var víða að finna baksviðs.
Nú er tími til kominn að þora að vera „öðruvísi“ og prófa sig áfram með liti sem við þorum vanalega ekki að snerta. Augnskuggapallettan Color Shot í stílnum Bold frá Smashbox er tilvalin í verkið.
Baksviðs hjá Prada sendi förðunargoðsögnin Pat McGrath þau skilaboð að förðun fyrirsætnanna sé frekar ætluð til persónulegrar tjáningar en til þess að þóknast öðru fólki.
Persónulegar klippingar
Í takt við einstaka persónuleika sem sáust víða á hausttískusýningarpöllunum voru sérstakar klippingar áberandi. Náttúruleg áferð á hári fyrirsætnanna fékk að njóta sín og töffaralegir drengjakollar og bob-klippingar komu sterkar inn.
Lengi lifi byltingin
Fyrirsætur Dior báru leðuralpahúfur en alpahúfan hefur löngum verið tengd byltingu og uppreisn en það má með sanni segja að uppreisnin sé hafin innan tískuheimsins.
Texti / Helga Kristjáns