Sigurður Jónsson, KR-ingurinn glaðlyndi sem iðulega var mættur á völlinn með myndavélina við hönd þurfti að lúta í lægra haldi í baráttu sinni við krabbamein.
Hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans þann 27. mars síðastliðinn.
Menn minnast Sigurðar með fallegum orðum á stuðningsmanna síðu KR-inga á Facebook. Augljóst er að hann gaf mikið af sér til félagsins og var brosandi hverjum sem hann mætti.
„Sigurður Jónsson er látinn KR-ingar muna eftir Sigga, glöðum og brosandi með myndavélina á flestum viðburðum fótboltans. Blessuð sé minning Sigga,“ skrifar Guðjón. Hann heldur áfram og segir að framtíðarsjóðurinn muni útbúa minningarskjal um Sigga og senda aðstandendum með kveðju frá þeim sem vilja minnast hans. Margir KR-ingar hafa fallið frá að undanförnu og skrifar Guðjón: „Það eru hoggin mörg skörð í raðir sannra KR-inga um þessar mundir, Páll Guðmundsson, Aðalsteinn Dalmann og Biggi Harðar, sem nýlega var jarðsettur í kyrrþey. Blessuð sé minning þeirra allra.“
„Ég hitti þennan höfðingja oft í GR þar sem hann starfaði á sumrin sem ræsir. Sannur KR-ingur og gaman að spjalla við hann. Blessuð sé minning hans,“ skrifar Þórir.
Lýsir Þórður Sigurði sem ljúfum dreng og segir mikinn missi vera að. „Hann gaf sér alltaf tíma í vangaveltur um stöðu KR þegar við hittumst í GR umhverfinu,“ skrifar hann.