Sunnudagur 22. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

„Á páskadagsmorgni reis ég upp frá dauðum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Davíð Þór Jónsson, prestur í Laugarneskirkju, talar hér um páskana, prestsstarfið, eineltið, alkóhólismann, grínið, Bleikt og blátt, ástina og það hvernig trúin getur breytt mönnum. Hann talar líka um páskaunga í ýmsum litum.

Miðvikudagskvöld fyrir páska. Klukkan rúmlega níu. Andlit Davíðs Þórs Jónssonar, prests í Laugarneskirkju, birtist á skjánum. Dökkgrár veggur fyrir aftan hann.

„Ég gleymdi að við vorum víst búin að lofa bíókvöldi og ís af því að það væri komið páskafrí en þetta er allt í lagi. Ég fékk að hafa mig afsakaðan og fara afsíðis.“

Eiginkona hans, Þórunn Gréta Sigurðardóttir tónskáld, og börn þeirra, þriggja og fimm ára, horfa á bíómyndina og borða ís án fjölskylduföðurins.

Davíð Þór hafði fyrr um daginn messað. Það er útvarpsmessa sem var svo flutt á Rás 1 á skírdag sem bar upp á 1. apríl og sem hægt er að hlusta á og lesa á síðu kirkjunnar. „Kulnun Júdasar.“ Þar segir meðal annars:

En spurningin er aftur á móti fullgild: Ef Jesús þurfti að deyja á krossi til að geta risið upp í mætti og dýrð til að frelsa okkur … var þá Júdas ekki að vinna gott verk? Var hann ekki handbendi Guðs í framgangi hjálpræðisverksins?

- Auglýsing -

Svarið er nei.

Sagan um Rauðhettu hefði varla verið í frásögur færandi ef enginn úlfur hefði verið í skóginum – en það gerir úlfinn samt ekki að góða gæjanum í sögunni.

Sömuleiðis er áreiðanlegt að í Hogwarts hefði verið daufleg vist fyrir Harry Potter og félaga ef Voldemort hefði hvergi verið á sveimi, en samt er auðvitað fráleitt að ætla að gera úr „honum sem ekki má nefna“ eitthvað annað en rakið illmenni.

- Auglýsing -

Júdas brást.

Júdas sveik Jesú.

Hann var ekki með í ráðum um neitt, hann vissi ekki betur en að hann væri að framselja vin sinn til dauða – fyrir peninga.

Fyrirbærið upprisa
Við tölum um páskana.

„Það er talað um að páskarnir séu stærsta hátíð kristindómsins en þeir hafa náttúrlega vikið fyrir jólunum og það er engum vafa undirorpið að jólin eru náttúrlega stærsta hátíðin núna en páskarnir náttúrlega snúast um upprisuna. Um sigur lífsins á dauðanum. Og það er engin tilviljun að páskarnir eru á þeim árstíma þegar þeir eru alveg eins og jólin. Við höfum alltaf haldið þessar stóru hátíðir miðað við vetrarsólstöður og sumarsólstöður og svo jafnvægur að vori og jafndægur að hausti. Á vetrarsólstöðum fögnum við sigri lífsins á dauðanum – að ljósið kemur í heiminn aftur. Og á vorjafndægrum er byrjað að vora og lífið er byrjað að spretta upp úr jörðinni og það kallast náttúrlega á við upprisu Jesú Krists og hvernig hann reis upp af gröf sinni eins og gróður jarðar rís upp úr moldinni.“

Sr. Davíð Þór Jónsson segir að þegar hann hefur verið að predika á páskum þá leggi hann út frá upprisunni og hvað það er mikilvægt að trúa á upprisu.

„Þá meina ég ekki endilega sem einhvern sögulegan, einangraðan atburð fyrir 2000 árum heldur fyrirbærið upprisu af því að annars er ekkert til neins. Allt væri unnið fyrir gýg – við verðum að trúa því að dauðinn hafi ekki lokaorðið. Dauðinn sé ekki lokasvarið. Og ég vil líka nefna upprisu mannsins til mannlegrar reisnar og sæmandi lífs. Að hann hætti að skríða í duftinu og láti traðka á sér en rísi upp og beri höfuðið hátt eins og guðsbörnum sæmir.“

Terminator-myndir

Davíð Þór er spurður hvaða máli páskarnir skipti fyrir hann persónulega.

„Ég ólst ekki upp við mikla trú eða kirkjurækni. Þegar ég var unglingur fannst mér föstudagurinn langi vera ömurlegasti og leiðinlegasti dagur í heimi. Það mátti ekki nokkurn skapaðan hlut. Fólk átti bara að vera heima og láta sér leiðast þennan dag. Það var varla hægt að hitta vini sína. Það var náttúrlega páskafrí og það mátti ekkert.

Fyrir mér eru páskarnir annars tími með fjölskyldunni; eða voru það þangað til ég vígðist sem prestur og þetta varð annatími hjá mér. Þeir þýddu páskafrí, maður bauð fólki í mat og gat svona aðeins slakað á á þessum tíma sem er nokkurn veginn mitt á milli jólafrís og sumarfrís. Maður fékk eina viku til að aðeins hvíla lúin bein og hlaða batteríin.

Þórólfur útvegaði mér ágætis páskafrí

Þegar ég varð síðan prestur ákvað ég að reyna að hugleiða krossfestinguna og krossdauðann öðruvísi þannig að ég var einu sinni með Terminator-maraþon í Laugarneskirkju þar sem við vorum að skoða hvernig krossfórnarþemað er notað í Terminator-myndunum og í raun og veru Messíasarþemað sem slíkt. Ég sýndi fyrstu Terminator myndina, Judgement Day, og Salvation. Jafnvel heiti myndanna er sótt í trúararfinn. Það supu nú einhverjir hveljur yfir því.“

Núna verður engin messa fyrir utan fyrrnefnda útvarpsmessu: Kulnun Júdasar.

„Þórólfur útvegaði mér ágætis páskafrí og við urðum að hætta við allt sem við vorum að gera. Allt nema útvarpsmessuna. Við erum með kyrrðarkvöld á mánudagskvöldum þar sem við treystum okkur til að virða fjöldatakmarkanir og fjarlægðarmörk en að öðru leyti urðum við að loka sjoppunni og fresta fermingum. Það var reyndar sjálfhætt vegna þess að öll fermingarbörnin í sókninni, 44 að tölu, fóru nýlega í sóttkví. Þannig að Laugarnesið virðist vera í einhverjum brennidepli þessarar fjórðu Covid-bylgju.“

Terminator-myndir. Davíð Þór er spurður hvort hann sé óhefðbundinn prestur.

Davíð Þór Jónsson.
Séra Davíð Þór var drykkjumaður sem hætti á föstudaginn langa.
Mynd Róbert Reynisson

„Ég held að ég sé í raun og veru alls ekkert eins óhefðbundinn og margir halda. Ég hef til dæmis ekki orðið var við að prestar hneykslist mikið eða súpi hveljur yfir mér. Einstaka risaeðlur gera það. En ég er í góðu sambandi við kollega mína og enginn þeirra nefnir við mig að ég sé á villigötum og þegar ég geri eitthvað svona sem mér finnst vera frumlegt og skemmtilegt og er kannski svolítið nýstárlegt þá fæ ég ekki annað en hvatningu og stuðning frá þeim. Svona 95%. Það eru alltaf einhverjir fílupúkar í öllum hópum. Ég held að prestastéttin njóti ekki sannmælis. Ég held að fólk geri sér ranghugmyndir um kollega mína – að þeir séu allir voðalega stífir, uppskrúfaðir og háheilagir og það megi ekki hlæja eða segja dónabrandara nálægt þeim án þess að þeir fornemist. Þetta er alrangt. Þetta er hresst og skemmtilegt fólk og yfirleitt með ágætan húmor.“

Eineltið

Davíð Þór bjó í Reykjavík fyrstu 10 ár ævinnar og var glatt og hamingjusamt barn. Hann flutti með fjölskyldu sinni til Hafnarfjarðar og þá breyttist allt þar sem hópur stráka í skólanum fór að leggja hann í einelti þegar hann var 11 ára.

„Í árganginum sem ég var í voru drengir sem áttu mjög erfitt.“

Davíð Þór segir að hópurinn hafi verið ógnvaldur á skólalóðinni og að hann sjálfur og nokkrir aðrir hafi legið vel við höggi.

„Sumir fóru síðar út í mikla óreglu og jafnvel ofbeldi og einn stytti sér aldur. Svo voru í hópnum strákar sem ég held að séu siðblindir.“

Hann segir að eineltið hafi ágerst jafnt og þétt.

skólataskan mín var fyllt með snjó og snjó troðið inn á mig og ég var laminn

„Þetta byrjaði með orðum, svo var farið að sitja fyrir manni á leiðinni heim úr skólanum, skólataskan mín var fyllt með snjó og snjó troðið inn á mig og ég var laminn. Hann má eiga það drengurinn sem lamdi mig að hann bað mig síðar afsökunar á því.“

Davíð Þór segir að hann hafi tvö til þrjú síðustu árin í grunnskóla eiginlega keypt sig lausan undan eineltinu með því að verða í raun og veru óalandi og óferjandi.

„Ég varð allt í einu svalur í huga þeirra sem voru að leggja mig í einelti af því að ég fór að stelast til að reykja úti á skólalóðinni með þeim, ég fór að brjótast inn eins og þeir og rífa kjaft við fullorðna. Og ég fór að taka þátt með þeim í að leggja hina í einelti sem lágu vel við höggi. Ástæðan fyrir því að ég lagði í einelti var að ég var öruggur á meðan; þá var ekki verið að leggja mig í einelti. Ég taldi sjálfum mér trú um að það væri afrek hjá mér að vera kominn í hóp gerendanna. Ég varð í raun og veru vandræðaunglingur og sem unglingur fékk ég fyrir innbrot tveggja ára skilorðsbundinn dóm. Þá varð ég svolítið hræddur og sneri við blaðinu í raun og veru.“

Grunnskólanum lauk síðan og Davíð Þór fór í Flensborgarskólann í Hafnarfirði og umgekkst ekki meira strákana sem voru í klíkunni. Þá breyttist allt.

„Ógnvaldarnir voru horfnir úr lífi mínu.“

Davíð Þór segist skammast sín fyrir eitt og annað þegar hann líti til baka og segir að sér hafi liðið illa og verið með samviskubit þegar hann var að leggja í einelti. Hann nefnir einn strák sem hann segist hafa hringt í og beðið afsökunar fyrir nokkrum árum.

„Hann tók því ekki vel og ég held að það hafi verið svolítið vanhugsað hjá mér að hringja í hann. Við kvöddumst alveg sáttir en ég hafði á tilfinningunni að þetta símtal hafi verið hringt til þess að láta mér líða betur en ekki honum. Mér leið betur að því leyti að ég var allavega búinn að gera honum grein fyrir því að ég sæi það núna að þetta hefði ekki verið í lagi.“

Davíð Þór segist hafa fyrir nokkrum árum gengið í gegnum býsna ítarlega sjálfsskoðun og gert svolítið upp fortíð sína.

„Eineltið var sannarlega stór hluti af þeirri áfallasögu minni sem alkóhólismi minn spratt af einhverju leyti af. Sú upplifun að vera útskúfaður og eyða stórum hluta unglingsára sinna í það að upplifa sig ekki samþykktan af jafningjum sínum skilur auðvitað eftir eitthvað tóm inni í manni; einhvern djúpan skort sem er mjög auðvelt að reyna að fylla upp í eins og með áfengi, fíkniefnum, kynlífi, fjárhættuspilum eða hverju sem fólk grípur í til þess að hugga sig.“

Davíð Þór lærði mikið af því að vera bæði þolandi og gerandi og segist vera vakandi fyrir svona töktum þegar unglingar koma til hans í fermingarfræðslu.

„Það sem ég lærði líka af þessu er að það sem raunverulega krefst styrkleika og hugrekkis er að þora að vera góður. Það er auðvelt að brynja sig í einhverjum töffaraskap og vera svo mikill gæi að maður getur varla staðið í lappirnar og það sé ekki hægt að eiga heiðarlegar og einlægar samræður við mann án þess að maður svari með skætingi út í hött eða með einhverjum stælum. Það er ekki styrkleiki. Það er þvert á móti rosalega mikið veikleikamerki. Þá er viðkomandi ekki stór og sterkur heldur lítill, hræddur og aumur.“

Alkóhólisminn
Jú, hann fór að drekka meira en góðu hófi gegndi og fylgdi flaskan honum í um aldarfjórðung.

„Ég las einhvers staðar og hef heyrt að menn hafa verið að gera rannsóknir á alkóhólisma og reyna að velta fyrir sér hvað sé þar á bak við; hvað orsakar alkóhólisma og hvort hann sé meðfæddur eða áunninn. Það eru ýmsar skoðanir á þessu og sjálfum þótti mér þetta aldrei vera áhugaverð pæling vegna þess að það breytir engu um meðferð alkóhólisma hvort hann sé áunninn eða meðfæddur. Ég hef miklu meiri áhuga á hvernig maður trítar alkóhólisma heldur en að vita hvernig hann er til kominn. Og við kunnum að tríta hann.

Ég las svo nýlegar kenningar um að alkóhólismi orsakist af trauma í æsku eða bernsku. Allir alkóhólistar eiga það sameiginlegt. Fólk hefur verið að skoða hvort það sé gegnumgangandi alkóhólismi í einhverri ætt og þá sé líklegt að börnin verði alkóhólistar. Það er kannski ekki af genetískum ástæðum heldur er líklegt að barnið hafi orðið fyrir einhverju æskutrauma; einhverri höfnun eða ofbeldi. Höfnun er ekkert annað en andlegt ofbeldi. Og það að verða fyrir einelti er náttúrlega félagslegt ofbeldi og er trauma. Það er höfnun. Það er verið að segja að það gildi um viðkomandi aðrar reglur en aðra í samfélaginu. Að viðkomandi sé ekki fullgildur meðlimur í hópnum. Þannig að þegar ég fór að skoða alkóhólisma minn, horfa aftur í tímann og velta því fyrir mér hvernig ég kom mér upp alkóhólisma þá er í raun og veru eina traumað sem ég get horft á og sagt „já, ég varð fyrir trauma eða traumatískrei reynslu“ eineltið sem ég var lagður í í Víðistaðaskóla. Það er þar með ekki sagt að barn sem er lagt í einelti verði þar með alkóhólisti vegna þess að margir sem verða fyrir trauma í æsku verða ekki alkóhólistar. Þannig að þetta er að einhverju leyti einstaklingsbundið. En ég virðist vera einn af þessum einstaklingum sem þurfti eða var með einhverja vöntun, skort, inni í mér sem varð til að ég þurfti vegna þessarar höfnunar jafnaldra minna að finna svona miður heilsusamlegar aðferðir til að fylla upp í þetta gat inni í mér sem það skildi eftir.“

Hann segist hafa verið hamingjusöm fyllibytta í 20 ár.

„Vandamálið er að ég var fyllibytta í 25 ár. Alkóhólismi minn var svolítið eins og Richters-skalinn og farsóttin; það var veldisvöxtur. Hann versnaði jafnt og þétt og margfaldaðist þannig að leiðin hafði legið hægt niður á við ansi lengi og ég myndi segja að síðasta árið hafi nánast verið lóðrétt hjá mér. Það kom fyrir oftar en góðu hófi gegndi að ég þurfti að rétta mig af á morgnana. Ég var mjög skapstyggur, eirðarlaus og óánægður. Ég var á þeim stað að ég þurfti eiginlega að vera marineraður; ég sagði stundum að ég væri eins og smjörvi: Símjúkur. Ég var ekki túrafyllubyttukarl sem hélt sér edrú á hnefanum í einhverjar vikur og fór svo á fyllirí og brjálaðist. Ég gat haft stjórn á drykkjunni minni og ég gat notið drykkju minnar en ég gat bara ekki gert þetta hvort tveggja samtímis. Annaðhvort var ég að njóta hennar og þá hafði ég enga stjórn á henni eða að ég hafði stjórn á henni og þá var ég í andlegri erfiðisvinnu við að halda aftur af mér og var að gera allt annað en að skemmta mér.

Drykkjan var orðin það mikið vandamál að hún var byrjuð að bitna á sambandi mínu við mína nánustu. Þetta stjórnleysi, þessi þráhyggja, var farið að bitna bæði á afköstum mínum og gæðum vinnu minnar. Síðasta árið var ég orðinn óvinnufær. Ég var í þannig vinnu að ég fékk ekki mánaðarlaun heldur greitt fyrir hvert verk sem ég lauk. Ég held að ég hafi síðasta árið hrapað um 75% í launum. Ég var farinn að skila fjórðungi af því sem ég hafði skilað einu eða tveimur árum áður einfaldlega af því að ég átti erfitt með að einbeita mér. Ég var veikur, ég svaf lengi fram eftir á morgnana og hafði lítið úthald; of litla einbeitingu til að sitja við tölvuna klukkustundum saman og skrifa og þýða. Ég þurfti að rétta mig af og þá gat ég ekki notað hausinn í að skrifa eitthvað skynsamlegt þannig að þetta var orðið mikið vandamál og ég áttaði mig á því undir það síðasta að það var ekki spurning hvort heldur hvenær ég yrði ekki lengur í tölu lifenda.“

Davíð Þór er spurður hvort hann hafi prófað eitthvað annað en áfengi.

„Já. En mig langar ekki til að tala um það. Þú mátt hafa svarið „já“ enda væri leitun að alka af minni kynslóð sem gæti hreinskilnislega svarað þeirri spurningu neitandi. Um suma hluti vil ég ekki tala; fólk sem mér þykir vænt um gæti lesið þetta.“

Hann fór á sitt síðasta fyllirí föstudaginn langa árið 2005. Hann fór á Vog daginn eftir.

„Svo á páskadagsmorgni þá reis ég upp frá dauðum en ég vaknaði þá í fyrsta skipti edrú í mjög langan tíma. Þannig tengi ég páskana við mína eigin persónu og upprisu frá dauðum.“

Tilviljun?

„Ég veit það ekki. Já, ég held nú að þetta sé tilviljun. Tilviljanir geta verið býsna merkingarþrungnar og táknrænar. Ég var á Vogi í 10 daga og svo fór ég beint á Staðarfell. Gettu hvaða dag ég kom með rútunni í bæinn úr meðferðinni á Staðarfelli. Það var 40 dögum eftir páska; á uppstigningardag.“

Davíð Þór er spurður hvað hann hafi lært af því að hafa gengið götu drykkjumannsins.

„Ef maður gerir sama hlutinn aftur og aftur og gerir sömu tilraunina aftur og aftur og er alltaf jafnhissa að fá alltaf sömu niðurstöðu þá er það skilgreiningin á geðveiki. Það er það sem ég hef lært af þessu og náttúrlega líka að það er ljós við endann á göngunum. Fyrsta eina og hálfa árið eftir að ég hætti að drekka var ég að glíma við mikil fráhvörf og oft og tíðum erfiða fíkn.“

Hann nær í tölvuna sína og byrjar að gúggla.

„Látum okkur sjá. Það var 2005 sem ég hætti að drekka; páskadagur var 27. mars árið 2005 þannig að það eru 16 ár síðan. Ég missti af edrúafmælinu mínu um daginn; það var fyrir fjórum dögum. Ég var bara of mikið að hugsa um eitthvað annað. Þetta er kannski eitthvað batamerki. Ég get allavega sagt að ég sé búinn að vera edrú í 16 ár. Ég ætla ekki að ljúga því að ég hafi verið glaður, hamingjusamur og frjáls í 16 ár en ég hef verið laus við fíkn í 14 og hálft ár.“

Hann segist aldrei finna fyrir löngun í áfengi.

„Og það sem meira er – í dag er áfengi non issue í mínu lífi. Ég er ekkert að hugsa um það á daginn að ég sé alkóhólisti og megi ekki drekka. Ef mér er boðið áfengi þá bara hrekk ég ósjálfrátt í kút eins og það sé verið að ota að mér logandi eldi.“

Messuvín. Hvað með að ganga til altaris og bjóða upp á messuvín?

„Ég er alfarið á móti því að áfengi sé haft um hönd í altarisgöngum, enda er það ekki gert í minni kirkju af því að vín getur alveg verið vín þótt það sé ekki brennivín. Málið er að það sé heilagur andi í víninu en ekki vínandi. Mér finnst nánast verið að setja Satan í vínið með því að hafa etanól í því. Það er gert ráð fyrir að þetta sé safi vínviðarins og mér finnst ekki vera í lagi að bjóða upp á heilagt sakramenti vitandi vits að tíunda hvert sóknarbarn gæti verið með ofnæmi fyrir því. Við kaupum óáfengt matreiðsluvín sem er rauðvín en með 0% vínanda. Ég veit að víða er notaður ríbenasafi sem er bara vínberjasafi. Ég var einu sinni austur á landi þar sem ég þurfti að messa og það var ekkert messuvín til í kirkjunni og ekkert óáfengt vín eða matreiðsluvín til í búðum. Það endaði á því að ég fann eitthvað sem hét rúsínusafi; eru ekki rúsínur bara þurrkuð vínber? Þannig að þá hlýtur eitthvað að vera af ávexti vínviðarins í rúsínusafanum. Og altarisgestir dreyptu á rúsínusafa.“

Davíð Þór segir að þegar upp sé staðið þá sé gildi altarisgöngunnar táknrænt.

„Það er merking hennar fyrir okkur sem skiptir máli. Það er ekkert hókus pókus að eiga sér stað.“

Stundum gengur Davíð Þór til altaris í öðrum kirkjum þar sem messuvín er áfengt.

„Þegar mér er réttur kaleikurinn þá finn ég spíraóþverrann upp úr honum. Það gæti eins verið að rétta mér málningarþynni af því að maður verður svo næmur á þessa ólykt. Þetta er eins og kemískur rotnunarkeimur. Það er óskaplega óaðlaðandi að finna þessa lykt út úr fólki og af fólki. Þá legg ég putta á vörina og segi „nei, takk“.“

Grínarinn

Davíð Þór hefur glatt margan landann í hlutverki grínarans en hann og Steinn Ármann voru árum saman Radíusbræður. Á Wikipedia er þetta að finna:

„Radíusbræður var sviðsnafn Davíðs Þórs Jónssonar og Steins Ármanns Magnússonar þegar þeir tróðu saman upp með framsæknu gríni á fyrri hluta tíunda áratugarins. Radíusbræður komu fyrst fram með útvarpsþáttinn Radíus á Aðalstöðinni. Síðar áttu þeir þátt í gerð sjónvarpsþáttanna Limbó í leikstjórn Óskars Jónassonar. Þeir þættir urðu skammlífir en RÚV hætti framleiðslu þeirra eftir tvo þætti. Síðar voru þeir með eigin þætti og stutt atriði í Dagsljósi til 1995. Árið 1995 gerðu þeir þættina Radíus, 12 þátta sketsaröð með þeim tveim.“

Ég held að ég sé í raun og veru alls ekkert eins óhefðbundinn og margir halda. Ég hef til dæmis ekki orðið var við að prestar hneykslist mikið eða súpi hveljur yfir mér. Einstaka risaeðlur gera það. Mynd: Róbert Reynisson

Davíð Þór segir að það að gerast grínari hafi að einhverju leyti verið þörf til þess að sanna sig og vera áberandi.

„Ég var með leiklistarbakteríu sem unglingur; ég ætlaði að verða leikari þegar ég yrði stór. Ég fór þrjú ár í röð í 16 manna hópinn í Leiklistarskóla Íslands án þess að komast inn. Ég átti Íslandsmet í því að verða ekki leikari eða verða næstum því leikari.

Við Steinn Ármann vorum bestu vinir á þessum tíma og höfðum verið það síðan um fermingu og horfðum við mikið á Monty Python sem var allt önnur vídd af gríni heldur en við þekktum. Og svo kynntumst við uppistandi. Það var línan í uppistandi að vera rosalega grófur, fara rosalega langt yfir strikið, klæmast og hæðast að kynhneigð mannsins alveg miskunnarlaust. Það var einhver partur af þessari uppreisn gegn tepruskapnum og bælingunni sem þessir grínarar eins og Eddie Murhpy, Billy Connolly og Andrew Dice Clay gerðu; partur af uppreisninni gegn þessari bælingu og tepruskap sem við vorum aldir upp í. Þetta er efni sem væri púað niður af sviði í dag fyrir að vera allt of gróft. Allt of dónalegt og allt of mikil kvenfyrirlitning. Það er staður og stund fyrir allt grín og þetta þótti eiga erindi þá. Við Steinn vorum ekki að finna neitt upp. Við urðum fyrir beinum áhrifum frá Eddie Murphy, Billie Connolly og Andrew Dice Clay og við vorum kannski bara fyrstu íslensku grínararnir sem vorum á þeirri línu.“

Upphafið voru leikþættir fyrir skólafélaga á kvöldvökum í skíðaferðalögum í 9. bekk og boltinn fór að rúlla.

„Við þýddum Monthy Python sketsa yfir á íslensku og lékum þá á skólaskemmtunum. Eitt leiddi af öðru og Steinn fékk útvarpsþátt og fékk mig með sér til að fíflast. Og það hitti svo mikið í mark að á einu sumri urðum við þjóðþekktir grínarar og allir elskuðu okkur. Það var ævintýralet hvað við slógum í gegn í raun og veru. Hvað þetta var vinsælt. Við renndum bara blint í sjóinn að vera með skemmtun.“

Þeir byrjuðu svo að hafa atvinnu af þessu. Davíð Þór var þá byrjaður í guðfræðinámi við Háskóla Íslands og ákvað að hætta í náminu þar sem þetta var orðið of mikið.

„Ég var orðinn „grand old man“ í mínu fagi, uppistandinu, 27 ára gamall. Þetta var rosalega gaman og við lögðum mikinn metnað í þetta og framleiddum nýtt efni. Við vissum að við myndum ekki geta keyrt á sama prógrammi í Reykjavík mánuð eftir mánuð. Í raun og veru vorum við hugsjónamenn. Okkur fannst við vera miklu meira en einhverjir brandarakarlar. Við vorum baráttumenn fyrir bættu og betra gríni á Íslandi.“

Hann viðurkennir að það hafi stundum verið erfitt að fá hugmyndir að bröndurum og gríni.

„Ég man alveg eftir stundum þar sem við Steinn sátum niðri í kjallara hjá honum, gengum um gólf og börðum hausnum í vegginn til að fá hugmyndir. Það gat verið erfitt að fá hugmyndir. Við vorum rokkstjörnur í gríni og rokkstjörnur skjótast upp á stjörnuhimininn og eru þar í einhvern tíma og svo fer að halla undan fæti. Við fundum það smám saman. Við Steinn erum svo litlir business-karlar. Þetta fór að verða erfiðara og erfiðara og það dróst jafnt og þétt úr aðsókn og við þurftum að hafa meira fyrir þessu. Við vorum ekki eins ferskir. Það var farið að vera meiri vinna að halda þessar skemmtanir og auglýsa þær og það voru færri að koma. Og við ákváðum að hætta að vera með skemmtanir en við mættum ef einhver hringdi í okkur og pantaði okkur og þá mættum við á staðinn. Þannig unnum við í einhver ár.“

Þetta ævintýri stóð yfir í um áratug.

Sóknarpresturinn er spurður um uppáhaldsbrandarann.

„Það er ekki hægt að eiga uppáhaldsbrandara. Ég heyrði brandara í sjónvarpinu í gær sem mér fannst vera fyndinn og hann er það síðasta sem ég hló að. Hjúkrunarfræðingur fann endaþarmshitamæli í brjóstvasanum og sagði: „Æ, nú er penninn minn einhvers staðar í rassgati.“ Mér þótti þetta vera fyndið.“

Hann hlær.

Hvað með húmor í messum?

„Ég er með húmor þegar það á við. Ég er ekkert að eltast við það. Ég reyni að vera ekki leiðinlegur og fyndni er oft gott trix í málflutningi. Fólk hlustar á það sem sagt er ef manni tekst að gera skondið það sem sagt er. Ég reyni það en ég er ekkert að eltast við það.“

Bleikt og blátt

Davíð Þór drakk og drakk og glímdi um tíma við kulnunareinkenni og þannig leið honum þegar hann árið 1997 tók við ritstjórn tímarits þar sem lögð var áhersla á erótík, kynlíf og fræðigreinar því tengdu. Það var Bleikt og blátt.

„Ég var með útvarpsþátt sem ég var búinn að vera með ansi lengi. Ég var farinn að hata vinnuna mína. Ég var orðinn svo leiður á henni og leiður á vinnufélögunum. Ég var orðinn leiður á því að vera alltaf sprellikarl og ég var orðinn leiður á því að mega ekki eiga vondan dag án þess að það væri í beinni útsendingu. Allt í einu bauðst mér þarna þægileg innivinna þar sem ég yrði ekki í sviðsljósinu en fengist samt við eitthvað svolítið krassandi og próvókatíft. Ég tók við blaðinu í hálfu starfi og kom það út sex sinnum á ári. Það stóð til að hætta að gefa það út en það var ákveðið að gefa því séns. Ég ritstýrði blaðinu í fjögur ár og þegar ég hætti var Bleikt og blátt söluhæsta tímaritið á Íslandi og kom út 14 sinnum á ári. Ég var þá kominn í 100% vinnu og með aðstoðarritstjóra í 50% starfi. Ég gekk þess vegna frá Bleiku og bláu mjög stoltur vegna þess að það var alger success-saga frá því ég tók við blaðinu og hætti á því.“

Það að ritstýra Bleiku og bláu var eins og að ritstýra hverju öðru tímariti.

„Margir héldu að ég væri alla daga með nakið fólk að stýra ljósmyndatökum. Það var minnsti þátturinn í vinnunni. Ég var yfirleitt ekki viðstaddur ljósmyndatökur og sóttist ekkert sérstaklega eftir því. Blaðið var 52 síður og af þeim voru 16 síður með ljósmyndum. Það var annað áhugavert efni í blaðinu svo sem áhugaverðar greinar um kynvitund og rannsóknir á kynferðismálum. Ég man að ég skrifaði grein um musterisvændi í Forn-Ísrael og ég man sérstaklega eftir því að við vorum að birta greinar um transfólk og „kynáttunarvanda“ þess; eini vandi þessa fólks er samfélagið. Ekki kynáttunin. Þannig að þetta fólk á ekki við vandamál að stríða heldur er það samfélagið sem á við vandamál að stríða gagnvart þessu fólki.“

Sex tölublöð á ári upp í 14 tölublöð á ári. Hvernig fór Davíð Þór að þessu?

„Það var þetta attitude. Þetta var það að blaðið gerðist málgagn. Það var aktúelt. Það fjallaði um málefni líðandi stundar. Kynlíf var orðið söluvara á þessum tíma og hvert einasta glanstímarit var með kynlíf á forsíðunni svo sem til að vekja athygli á greinum í blöðunum. Ég fór að birta greinar um efni sem þessi blöð birtu ekki. Ég sýndi líka fram á að dónalegasti líkamsparturinn væri andlitið; ég birti myndir þar sem sást framan í fólk sem var ekki gert áður. Þá var myndin allt í einu orðin miklu dónalegri og það er ástæða fyrir því en um leið og það sést framan í fólkið þá er þetta orðið erótískt. Þá eru þetta orðnar manneskjur. Einstaklingar. Fram að því höfðu þetta bara verið kjötskrokkar. Bara anatómía. Þannig að ég gerði Bleikt og blátt að erótísku tímariti.“

Ástin

Davíð Þór á fimm börn á aldrinum 3-37 ára og fimm barnabörn á aldrinum 2-12 ára. Hann eignaðist sitt fyrsta barn, dóttur, þegar hann var 18 ára.

„Ég veit voðalega lítið hvernig það var að eignast barn fyrir 37 árum. Ég var ekkert mikið til staðar. Það var voðalega skrýtið að verða þá faðir. Ég í raun og veru fríkaði svolítið út gagnvart því, sérstaklega af því að móðir hennar kynntist fljótlega mjög góðum manni og eignaðist með honum aðra dóttur sem er mjög nálægt dóttur okkar í aldri. Sjálfsagt er ég bara að ímynda mér þetta en mér leið alltaf svolítið eins og aðskotadýri á heimili þeirra, alls ekki vegna þess að þau hafi látið mér líða þannig heldur einvörðungu vegna míns eigin óöryggis gagnvart hlutverki mínu. Hvað var ég að troða mér upp á þessa hamingjusömu fjölskyldu? Þannig að samband mitt við elstu dóttur mína var eiginlega ekki neitt fyrr en hún varð unglingur og við gátum farið að hafa milliliðalaus samskipti; ekki í gegnum foreldra hennar. Hún fór að eiga frumkvæði að því að bera sig eftir því að eiga í samskiptum við mig. Það sýnir bara hvað hún er stórkostleg manneskja og vel upp alin að hún skyldi yfir höfuð hafa áhuga á því vegna þess að það var ekki af því að ég hafði gert neitt til að eiga það skilið frá henni. Við höfum verið ágætir vinir frá því hún var unglingur.“

Davíð Þór eignaðist síðan tvö börn á árunum árin 1990 og 1991 með fyrri eiginkonu sinni, dreng og stúlku, en þau slitu samvistum þegar yngra barnið var tveggja ára.

Davíð Þór flaug rúmlega þrítugur til Egilsstaða til að skemmta nemendum Menntaskólans á Egilsstöðum. Ung menntaskólastúlka, Þórunn Gréta Sigurðardóttir, fékk það verkefni að sækja hann út á völl, skutla honum síðan á hótel og aka honum síðan út á flugvöll daginn eftir. „Það er 16 ára aldursmunur á milli okkar; ætli hún hafi ekki verið 17-18 ára. Ef einhver hefði sagt mér þá að þessi menntaskólastelpa ætti eftir að verða konan mín og móðir tveggja barna minna þá hefði ég nú sennilega rekið upp stór augu. Jú, jú, það fór ágætlega á með okkur.“

Árin liðu. Mörg ár. Davíð Þór var í sambúð og í íbúð í næsta stigagangi við Kaplaskjólsveg
flutti ungt par. Það var Þórunn Gréta og þáverandi sambýlismaður hennar.

„Leiðir okkar lágu mjög oft saman. Við hittumst og spjölluðum og ég mundi alveg eftir þessari stelpu en það kviknaði enginn eldur á milli okkar, enda bæði í sambúð með öðrum manneskjum.“

Og tíminn leið. Árin liðu. Það slitnaði upp úr sambandi Davíðs Þórs og þáverandi sambýliskonu hans. Hann starfaði á þessum tíma sem yfirþýðandi á talsetningu á barnaefni og það vantaði þýðendur. Þórunn Gréta, sem þá var orðin einhleyp, sótti um einn daginn.

við ákváðum að prófa að láta á það reyna að verða kærustupar.

„Ég lét hana fá prufuþátt til að þýða. Svo fékk ég svona ljómandi fína þýðingu frá henni til baka, þessari smástelpu, rétt rúmlega tvítugri. Ég sá að hún var greinilega bráðvel gefin, vel máli farin og mikill húmoristi vegna þess að það voru alls konar orðaleikir og ég valdi þátt með tilliti til þess að það væru gildrur í honum. Það var mikið rætt um kýr í þessum þætti og það reyndi á þýðandann að kunna að beygja orðið kýr. Þórunn Gréta fór að vinna hjá mér og varð einn af mínum uppáhaldsþýðendum. Svo einhvern veginn hægt og rólega í gegnum það varð til vinskapur. Og svo gerðist það án þess að ég áttaði mig á því þá var mér farið að þykja óstjórnlega vænt um þessa stelpu, ég var farinn að sakna hennar, ég var farinn að hlakka til að hitta hana og ég var farinn að hugsa mikið um hana þegar við vorum ekki saman. Ég sagði einum vini mínum frá þessu og sagði að það væri fráleitt að hún hefði áhuga á mér ef ég færi að reyna við hana af því að við værum svo góðir vinir. Þá sagði hann að ég væri í rauninni að ljúga að henni með því að segja henni ekki hvernig mér liði. Ég stundi því upp úr mér þegar ég hitti hana að ég héldi að ég væri bálskotinn í henni. Þá kom í ljós að hún hafði verið að glíma við svipaðar tilfinningar og hugsanir og við ákváðum að prófa að láta á það reyna að verða kærustupar. Við fórum svo að búa saman nokkrum mánuðum síðar og núna erum við gift og eigum tvö börn sem fæddust 2016 og 2018.“

Davíð Þór er spurður hvað ástin sé í huga hans.

„Ástin er kærleikurinn á öllum sviðum einhvern veginn. Kærleikurinn er það sem gerir lífið þess virði að lifa því. Fólk sem elst upp við skort á kærleika kemur miklu skemmdara út í lífið heldur en fólk sem elst til dæmis upp við næringarskort. Við þurfum kærleika til að verða heilbrigðar manneskjur. Ég hef velt ástinni voðalega lítið fyrir mér. Ástin er eitthvað sem maður finnur að er til staðar þegar það kemur. Ég er ekkert viss um að samband okkar Þórunnar Grétu hafi byrjað í einhverri ofboðslegri ást. Það byrjaði á hrifningu, okkur líkaði vel hvoru við annað, við skemmtum okkur vel saman, við vorum á sömu bylgjulengd og með svipuð viðhorf, lífsviðhorf, og húmor. Okkur leið vel saman og sóttum í að vera saman og ákváðum að byrja saman á föstu af því að við áttum svo vel saman. Ég held að ástin hafi búið sig til sjálf upp úr því. Ég meina – maður þarf að þekkja manneskju ansi vel áður en maður fer að elska hana. Þannig að þegar við vorum farin að þekkja hvort annað nógu vel og vorum ekki bara lengur hrifin af hvort öðru þá er kannski hægt að tala um að það sem væri á milli okkar héti ást. Æ, ég kann ekki að svara þessari spurningu.“

Davíð Þór er spurður hvort hann sé rómantískur.

„Nei, ég er það ekki að eðlisfari. Jú, nú þegar þú segir það þá fór ég reyndar út í búð í síðustu viku og sá rauðar rósir og kippti með einum vendi heim af því að það var svo langt síðan ég hafði gert það. Svo hafði frumsýningunni á óperunni hennar Þórunnar Grétu verið frestað öðru sinni út af Covid svo hún þurfti á smáuppörvun að halda. Þannig að ég á þetta alveg til. Ég segi ekki að það sé reglulegt en það er ekkert gjörsamlega út úr karakter fyrir mig að koma með blómvönd upp úr þurru.“

Faðerni Jesú
Séra Davíð Þór Jónsson, prestur í Laugarneskirkju, er lífsreyndur maður og sú lífsreynsla gagnast honum í starfi.

„Ég finn það hvað persónuleg reynsla mín af alkóhólisma, glíman við hann og reynsla mín af þeim bata sem ég hef náð hjálpar mér mjög mikið en af því að ég er opinskár um þetta þá treysta mér margir sem glíma við það sama. Og það er enginn að herma upp á mig brandara sem fóru yfir strikið á sínum tíma eða eru að nefna Bleikt og blátt. Það þýðir ekkert að ætla að fara 25 eða 30 ár aftur í tímann og heimfæra kúltúr dagsins í dag upp á þá tíma vegna þess að þá var svo margt í gangi sem yrði ekki liðið í dag en sem áttu sér eðlilegar skýringar. Ég held að ungt fólk í dag átti sig ekki á því hvað mín kynslóð var alin upp við mikinn tepruskap og bælingu. Það þurfti bara að gera uppreisn gegn því á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Og eins og alltaf þegar uppreisnir eru gerðar þá er farið aðeins yfir strikið af því að það er einu sinni eðli striksins að maður veit ekki hvar það er fyrr en maður er kominn yfir það.“

Davíð Þór var á sjónum veturinn 1990 þegar hann fékk áhuga á því að læra guðfræði.

„Ég hafði kynnst guðfræðinni í gegnum gamlan skólabróður minn sem hafði verið í guðfræðinámi og ég fór svo í guðfræði haustið 1991. Ég fann ekki þörf hjá mér til að verða prestur fyrr en árið 2012. Ég fór í guðfræði vegna brennandi áhuga á námsefninu og ætlaði mér aldrei að verða prestur. Svo breyttist það þegar ég kynntist prestum og prestsstarfinu. Ég fann köllun þegar ég var ráðinn eftir útskrift austur á land og gekk í verk sem ég mátti sem óvígður maður. Köllunin eiginlega birtist fyrst og fremst í því að þarna var ég í starfi þar sem menntun mín og hæfileikar gætu nýst.“

Davíð Þór er spurður hvernig trúin geti breytt mönnum.

„Það fer eftir mönnunum. Ef um er að ræða ofbeldisfullan mann sem þarf að finnast hann vera miklu betri en aðrir þá er trú mjög góð aðferð til að fá úrás fyrir þær kenndir. Þannig að spurningin er hvernig fólk vill breytast. Að hverju það vill verða. Trúin er mjög góð aðferð til að breyta sér en hver og einn á mikið val um hver sú breyting verður. Ég vildi breyta mér í frjálsa og hamingjusama manneskju með sín siðferðislegu viðmið á hreinu sem væri reiðubúin að þjóna náunganum í kærleik. Ég ætla ekki að fullyrða að mér hafi tekist það. En stundum á ég góða daga þar sem ég hef náð að labba heim úr vinnunni og hugsað með mér að í dag þjónaði ég einhverjum tilgangi sem var svolítið mikið stærri en ég sjálfur. Og það er góð tilfinning. Það er eins og að upplifa sig sem lifandi lim á líkama Krists eins og segir í Biblíunni.“

 

Hann er stundum í hlutverki sálusorgara en margir bera sorgir sínar og líðan á borð við prestinn sinn.

„Það hefur þau áhrif á mig að ég er að vissu leyti miklu þakklátari fyrir mitt líf af því að ég geri mér grein fyrir því að það er langt frá því að vera sjálfgefið að maður sé með heil og óbrotin samskipti við sína nánustu. Og ég geri mér svolítið far um að standa vörð um það. Ég er miklu meðvitaðri um ekki bara að það sé gott og mikilvægt að samskipti okkar séu í lagi og maður sé í sátt við guð og menn heldur geri ég mér líka betur grein fyrir því hvað getur borið út af. Þannig að ég held að ég sé líka varkárari.

„Ég keypti í gær fjögur páskaegg

Svo er það líka að ég held að maður í mínu starfi brenni mjög hratt upp sem ætlar að vinna öll þau verk sem honum eru falin í sínum eigin krafti, af sinni eigin getu og með sínum eigin hæfileikum. Í ákveðnum verkefnum hefur mér fundist æðri máttur hafa borið mig uppi í gegnum þau talandi um hvernig trúin breytir manni.“

Jesús Kristur er sagður hafa verið eingetinn. Sr. Davíð Þór er spurður út í skoðun hans á því.

„Mér finnst vera fáránlegt að hugsa til þess að hann hafi verið eingetinn. Mér finnst það ekki skipta neinu máli. Hann var fátækur og lífið úr honum var murkað á hroðalegan hátt en guð minn almáttugur að hann hafi verið ástandsbarn; það er nú einum of mikið. Hverju breytir það hver líffræðilegur faðir Jesús var? Faðerni Jesús er eins og orsakir alkóhólisma; eitthvað sem skiptir engu máli. Það breytir engu þótt við vissum það. Við vitum allt um Jesús sem við þurfum að vita til þess að gera hann að leiðtoga lífs okkar. Og ef það eyðileggur fyrir einhverjum að hann hafi átt líffræðilegan föður þá er viðkomandi einhvers staðar á mjög vondum stað í sínum viðhorfum til ja, síns eigin holds – ef holdið er svona ógeðslegt. Þá þarf viðkomandi að fara að skoða eigin viðhorf til eigin kynvitundar.“

Davíð Þór segist vona að hann sé tiltölulega víðsýnn og umburðarlyndur maður.

„Ég hef verið á þannig stöðum að ég veit að fólk á þannig stöðum er ekki endilega vont fólk þótt það sé í vondum málum. Og ég er kannski maður sem er svolítið að reyna að leggja sig fram um að gera síðari hluta starfsævinnar að yfirbót yfir fyrri hlutann.“

Hann hlær.

„Ég er 56 ára og ég á 11 ár eftir af starfsævinni. Það er minna eftir af henni en er búið.“

56 ára faðir tveggja ungra barna sem eru farin að sofa en klukkan er orðin rúmlega 23 á miðvikudagskvöldi fyrir páska.

Séra Davíð Þór er spurður út í páskaegg.

„Ég keypti í gær fjögur páskaegg. Eitt á mann. Við fáum öll jafnstór egg. Þau eru númer fjögur, 350 grömm. Eitt er með bleikum unga, eitt með grænum unga, eitt með gulum unga og eitt er með svörtum unga en hann er ofan á páskaeggi úr dökku súkkulaði.“

Þórunn Gréta vill dökkt súkkulaði.

„Ég geri ráð fyrir því að ég fái gula ungann. Ég þykist vita að dóttir mín muni velja þann bleika og mér finnst sennilegt að sonur minn velji þann græna frekar en þann gula.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -