„Allt í einu komu björgunarsveitarmenn með grímur og sögðu okkur að fara ekki lengra. Þeim virtist nokkur brugðið og sögðu gasmælana vera orðna pípandi,” segir Hjalti Jón Pálsson sem var að hjóla upp að eldstvöðvum í morgun ásamt félaga sínum, Rafni Val Alfreðssyni. Þeir félagar áttu nokkur hundruðu metra eftir þegar þeir voru stöðvaðir.
„Við vorum í dalnum og áttum eina brekku eftir upp að gosi. Ég hef ekki hjólað þarna áður en við sáum hvað sprungan var nálægt, hún virtist vera uppi á hryggnum. Við gátum séð hana úr dalnum. Það er mest svekkjandi að missa af gosinu, hefðum við verið tuttugu mínútum fyrr á ferðinni hefðum við náð að sjá það,“ segir Hjalti Jón.
Þeir félagar voru á rafmagnshjólum sem hann segir ekki vera vandamál nú þegar það sé búið að frysta ofan í slóðann. Eiginkonur og börn þeirra félaga fóru gönguleiðina og var sagt að snúa við. „Við sáum öll sletturnar koma upp, þetta virtist nokkuð línulegt frá okkur séð.” Aðspurður segir Hjalti Jón ekki hafa orðið mikið var við gasið. „Við vorum austan megin við svo fundum ekki mikið fyrir þessu, það var þó keimur í loftinu. Eins og af brunnu grasi. En konurnar og börnin fundu meira fyrir þessu.“ Hjalti er hvergi af baki dottinn og segir að hann hyggist ótrauður fara aftur þegar svæðið opnar. „Ekki spurning, það er allir kátir og spenntir.”