Miðvikudagur 15. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

Hluti kirkjunnar er dottinn í hafið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fanney Vigfúsdóttir segir frá skemmtilegum stöðum í Kaupmannahöfn.

Fanney Vigfúsdóttir var í námi í heimilislækninugm í Kaupmannahöfn og þekkir borgina og svæðið í kring vel. Við fengum hana til að segja okkur frá nokkrum stöðum sem hún mælir með að fólk skoði þegar það fer til borgarinnar.

Við Skt. Hans Torv torgið á Nørrebroer er hægt að njóta veitinga og drykkja.

„Það var á allan hátt lærdómsríkt að búa í Kaupmannahöfn. Borgin er falleg með ógrynni af möguleikum til að upplifa eitthvað við allra hæfi. Hægt er að hjóla mest allt sem farið er innanbæjar og svo eru góðar almenningssamgöngur ef maður vill kíkja fyrir utan borgarmörkin. Það er mikið af almenningsgörðum sem er gaman að labba um og skoða eða að hittast í með vinum og grilla og hafa það huggulegt,“ segir Fanney.

Jónshús

Það ætti að vera skylda fyrir Íslendinga sem koma til Kaupmannahafnar að koma í Jónshús. Að labba frá Nørreport, fram hjá Kongens Have, jafnvel fara dálítinn krók og labba í gegnum garðinn, dást að Rosenborg-kastalanum og Statens Museum for Kunst á leiðinni og svo sjá þetta fallega hornhús á Øster Voldgade 12 (á milli Østerport og Nørreport). Í þessu húsi bjó Jón Sigurðsson með konu sinni og barðist fyrir sjálfstæði Íslendinga og seinna keypti íslenskur kaupmaður það og gaf íslenska ríkinu sem á það enn. Þarna er mjög áhugavert og flott safn um Jón Sigurðsson og einnig er þetta félagsheimili með allskonar starfsemi fyrir Íslendinga í Kaupmannahöfn.

Skt. Hans Torv á Nørrebro

Þetta huggulega torg hefur alltaf verið í uppáhaldi. Þar er hægt að setjast niður og njóta veitinga og drykkja eða fá sér ís. Margt áhugavert er hægt að skoða í öllum áttum frá torginu. Hægt er að labba niður að síkjunum og kíkja í second hand-verslanir á leiðinni eða í gegnum Elmegade þar sem eru margar litlar búðir. Á Nörrebrogade er ekta fjölbreytileiki með fólki alls staðar að úr heiminum og í Assistants Kirkegård getur maður séð fólk í sólbaði milli legsteinanna ásamt því að dást að þessum fallega kyrrláta garði í miðri borgarösinni.

- Auglýsing -

Frederiksborg Slot í Hillerød

Það er virkilega þess virði að taka lestina út úr bænum og fara til Hillerød. Þar er hugguleg göngugata og við enda hennar Frederiksborg Slot sem er yndislega fallegur kastali með enn þá fallegri hallargarði. Manni líður eins og maður sé kominn í ævintýri, algjörlega magnað.

Stevns Klint í Højerup

- Auglýsing -

Ég gæti ekki mælt nóg með að taka allavega einn dag í að fara og skoða Stevns sem er svæði á litlum skaga um það bil 40 mínútum suður frá Kaupmannahöfn. Það er auðveldast að vera á bíl, en það eru líka einhverjar almenningssamgöngur og einnig eru hjólastígar um allt. Ef ég hefði bara einn dag myndi ég byrja að keyra til Højerup að Stevns Klint en þar er kirkja sem stendur á bjargbrún. Hluti kirkjunnar er dottinn í hafið en maður getur farið inn í kirkjuna og út á svalir þar sem maður horfir beint niður í grýtta fjöruna. Útsýnið er magnað og hægt er að labba niður brattan langan stiga niður í fjöruna, þetta er algjörlega einn fallegasti staður í Danmörku. Þaðan myndi ég svo kíkja í Holtug Kridtbrud, labba þangað niður og skoða salamöndrutjarnirnar, litlar tjarnir sem eru fullar af litlum salamöndrum og svo eru litlar eðlur líka allt um kring. Á leiðinni myndi ég keyra upp að Vallø Slot, litlum kastala sem er búið að breyta í íbúðir, með fallegum hallargarði og litlum hallarbæ með flottum veitingastað, á þessum leiðum eru falleg engi og skógsvæði sem maður getur alveg gleymt sér við að skoða. Ég verð að mæla með að koma við á einhverjum af þeim mörgu sveitabæjum sem selja ávexti/grænmeti og annað ræktað á búinu, brakandi ferskt og gott.

Aðalmynd: Stevns Klint í Højerup.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -