Sveinn Sigurbjarnarson, bílstjóri og framkvæmdastjóri á Eskifirði, er látinn eftir baráttu við krabbamein. Hann var 75 ára. Í Morgunblaðinu er honum lýst sem ferðafrömuð og ævintýramanni á Eskifirði. Svenn var sagður hálfgerð goðsögn í rútubílaheiminum.
Hann var frumkvöðull í vetrarferðum á snjóbílum milli Eskifjarðar og Norðfjarðar sem hófust árið 1970. Eftir snjóflóðið í Neskaupstað árið 1974 sinnti hann afar mikilvægu hlutverki í björgunarstarfi við að ferja björgunarfólk og aðra yfir Oddsskarðið. Sveinn var um tíma formaður björgunarsveitarinnar Brimrúnar á Eskifirði.
Árið 2010 kom út ævisaga Sveins en henni er lýst svo í kynningartexta: „„Það reddast“ heitir bókin en það hafa löngum verið einkunnarorð Sveins, en hann er mikill ferðafrömuður og ævintýramaður og fer sjaldnast troðnar slóðir – ef þá nokkurn tíma. Hann hefur þvælst um fjöll og firnindi, láglendi og hálendi og hjarnbreiður jöklanna með þúsundir ferðamanna og ævintýrin í þessum ferðum eru mörg og sum býsna skuggaleg. Kappinn lætur sér þó fátt um finnast, enda sagður áræðinn, jafnvel bíræfinn og ennfremur svalur í þess orðs dýpstu merkingu.“
Sveinn var frumkvöðull í ferðaþjónustu á Austurlandi en hann fór með fólk á fjöll og jökla allt árið í kring. Svo voru það árlegar ferðir til Færeyja en þar þekkti Sveinn vel til fólks og staðhátta. Eftirlifandi eiginkona Sveins er Margrét Óskarsdóttir. Þau eignuðust saman fjögur börn en tvö þeirra létust ung.