Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Út fyrir miðborg Dublin

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sjarmerandi og auðveldar dagsferðir á fallega áfangastaði rétt fyrir utan Dublin.

Dublin hefur lengi verið vinsæll áfangastaður íslenskra ferðalanga og margir heimsækja hana oftar en einu sinni. Enda ekki furða þar sem borgin er falleg og býður upp á ýmsa skemmtilega afþreyingu, lifandi tónlist og áhugaverð söfn. Írar eru þekktir fyrir gestrisni sína og vinalega framkomu. Auðvelt er að ferðast um borgina og nýta má almenningssamgöngur til að ferðast til þorpa og bæja sem liggja rétt fyrir utan Dublin og það er vel þess virði að stökkva upp í lest, njóta útsýnisins og sjá meira en bara miðborgina.
Í Dublin eru tvö lestarkerfi, annars vegar léttlestin LUAS sem nýlega hefur verið lengd og má taka víðsvegar um borgina. Hinsvegar er það gamla DART-lestin sem tengir úthverfi og þorp sem finna má við strandlengju borgarinnar. DART-lestin býður upp á fallegt útsýni, er notaleg leið til að ferðast á milli staða og er ekki mjög dýr fararkostur.

HOWTH
Howth (sjá mynd) var eitt sinn lítið sjávarþorp þar sem íbúar byggðu afkomu sína á fiskveiðum og að takmörkuðu leyti á landbúnaði. Í dag er Howth ríkmannlegt úthverfi Dublin-borgar og laðar að sér gesti sem koma þangað í gönguferðir eða til að spóka sig á hafnarsvæðinu. Finna má fallegar gönguleiðir á nesinu og ég mæli sérstaklega með að ganga með fram klettabelti Howth en þar má stundum sjá hugaða unga Íra stinga sér í sjóinn frá klettunum. Howth er þekkt fyrir fisk og franskar (fish and chips) og þar eru Beshoff Bros frægastir en einnig má finna veitingastaði við höfnina þar sem setjast má niður og fá sér drykk og góða sjávarrétti. Vinsælt er að fá sér eitt glas af Guinness og ferskar ostrur.

Norðan við miðborg Dublin er Malahide sem er fallegt gamalt þorp en er nú hluti af borginni sjálfri.

MALAHIDE
Norðan við miðborg Dublin er Malahide sem er fallegt gamalt þorp en er nú hluti af borginni sjálfri. Svæðið á sér langa sögu og vitað er að víkingar áttu aðsetur þar á 8. öld. Líkt og í Howth var mikil hafnarstarfsemi á staðnum og um tíma var framleitt salt í Malahide. Síðar meir varð þorpið vinsælt meðal auðugra Dublinarbúa sem byggðu sér glæsileg hús sem setja mikinn svip á hverfið. Eitt aðalaðdráttarafl Malahide er kastalinn og nánasta umhverfi hans. Hægt er að skoða kastalann með leiðsögumanni gegn gjaldi. Hjá kastalanum er lítill en snotur grasagarður sem gaman er að heimsækja og þar rétt hjá er risastór og flottur leikvöllur sem ætti að slá í gegn hjá þeim sem ferðast með börn. Innan lóðamarka kastalans má finna sælkerabúðina Avoca þar sem kaupa má hressingu, kaffi og vistir fyrir lautarferð í garðinum.

Graystones liggur við enda DART-lestarlínunnar og þaðan má ganga vel þekkta gönguleið yfir í bæinn Bray, eða öfugt.

GRAYSTONES OG BRAY
Sunnan Dublin liggja bæirnir Graystones og Bray. Lestarleiðinni þangað er oft lýst sem einni fallegustu samgönguleið á Írlandi og býður upp á mikilfenglegt útsýni út á sjó og með fram klettabeltum strandlengjunnar. Graystones liggur við enda DART-lestarlínunnar og þaðan má ganga vel þekkta gönguleið yfir í bæinn Bray, eða öfugt. Báðir bæirnir bjóða upp á ýmsa góða veitingastaði þar sem svala má þorsta og hungri eftir gönguferð dagsins.

WOW air flýgur til Dublin allt árið um kring. Verð frá 6.499 kr. aðra leið með sköttum.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -