Freyja Haraldsdóttir, fyrrum varaþingmaður og baráttukona fyrir réttindum fatlaðra fær að taka að sér fósturbarn. Barnaverndarstofa hefur nú metið hana hæfa til þess.
Freyja greindi frá þessu á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi þar sem hún fagnaði áfanganum:
„Þetta tókst. Loksins!!!“
Árið 2014 sótti Freyja um að gerast varanlegt fósturforeldri en beiðninni var þá hafnað af Barnaverndarstofu. Þá lét hún hafa eftir sér að niðurstaðan væri bæði sár og niðurlægjandi enda hefði hún áratuga reynslu af ummönnun barna á leikskóla. Þá ættu hún stóra fjölskyldu sem myndi hjálpa henni.
Á endanum leitaði Freyja á náðir dómstóla en byrjaði á því að tapa málinu fyrir héraðsdómi í júní 2018. Tæpu ári síðar snéri Landsréttur dómnum við og síðar staðfesti Hæstiréttur þann dóm. Niðurstaðan er sú að Freyju var mismunað vegna fötlunar sinnar.