Dagur B. Eggertsson borgarstjóri íhugar að lækka hámarkshraðann í borginni að vetrarlagi. Það yrði gert til að draga úr svifryksmengun og sliti gatna. Lækkun hámarkshraða myndi þá miðast við leyfilegt nagladekkjatímabil.
Dagur veltir þessu fyrir sér í kjölfar rannsóknar á áhrifum hraða á mengun vegna umferðar. Í vikulegu fréttabréfi sínu segir borgarstjórinn:
„Í stuttu máli þá gæti lækkun hraða innan borgarmarkanna skapað allt að 40% samdrátt í magni svifryks ef keyrt yrði á 30 km hraða í stað 50 km. Þá leiddi rannsóknin í ljós að nagladekk slíta vegum 20-30-falt hraðar en ónegld dekk. Þetta eru mikilvægar upplýsingar og eiga að leggja grunn að frekari hraðalækkunum innan borgarinnar eins og aðrar borgir sem við berum okkur saman við eru að gera.“
Samkvæmt þessu virðist borgarstjórinn vera að velta fyrir sér að færa hraðamörkin niður í 30 km hámarkshraða. Sömu tölur má finna inn á vef borgarinnar þar sem segir:
„Því mætti búast við um 40% samdrætti í magni svifryks ef helmingur bílaflotans er á nagladekkjum og hraðinn færður úr 50 í 30 km/ klst.“