Stefán Svan Aðalheiðarson og Dúsa Ólafsdóttir eru bæði menntaðir hönnuðir og hafa unnið í tískubransanum í áraraðir, bæði við eigin hönnun og verslunarrekstur. Þau reka nú saman verslunina Stefánsbúð/p3 á Laugavegi 7.
Stefán hefur unnið í mörgum helstu verslunum landsins við innkaup og verslunarstjórastörf. Dúsa hannar undir nafninu Skaparinn sem er merki fyrir kúnna sem vilja handgerðan lúxus, hönnun sem endist og fyrir fólk sem kann að meta öðruvísi flíkur án þess að síllinn sé æpandi. „Frá árinu 2006 hafa verið gerðar tvær línur árlega þangað til tekin var nýlega smápása til að endurhugsa og skipuleggja upp á nýtt. Núna er skaparinn farinn aftur í gang með smávegis breytingum sem felast aðallega í að auka fjölbreytnina, m.a. í efnisvali til bjóða upp á breiðari verðskala og flíkur sem höfða kannski til stærri hóps. Ný lína mun líta dagsins ljós á HönnunarMars sem fram fer í maí. Stefán rak vefverslunina Stefánsbúð með notaða merkjavöru og aukahluti og Dúsa seldi eigin hönnun í versluninni p3. Árið 2016 ákváðum við að sameina krafta okkar vera með búðirnar í sama rými og ári seinna voru þær komnar í eina sæng,” segja hönnuðirnir og brosa.
Heimsfræg merki frá Danmörku, Frakklandi og Ítalíu
„Árið 2017 byrjuðum við að flytja inn vörur frá danska hönnuðinum Henrik Vibskov og vatt það svo upp á sig og varð að búðinni eins og hún er í dag. Við flytjum inn heimsfræg tískumerki frá Danmörku og Frakklandi og mjög vandaðar sokkabuxur frá Ítalíu svo eitthvað sé nefnt,“ segir Stefán og Dúsa bætir við: „Íslendingar kunna að meta vandaða vöru og okkar kúnnar vilja fatnað sem stenst tímans tönn. Klassísk hönnun fer aldrei úr tísku. Vel hönnuð vara á að endast í mörg ár og helst ganga kynslóða á milli sem á ekki við um fjöldaframleiddan fatnað sem endist ekki lengi. Viðskiptavinir okkar eru á öllum aldri því það er ekkert aldurstakmark fyrir vandaða vöru. Þeir eru líka í öllum stærðum og af öllum kynjum. Eitt það skemmtilegasta við vinnuna hjá okkur er að hitta fólkið sem kemur í búðina og oft myndast kunningsskapur eða vinátta með fólki sem við hittum oft og svo veita viðskiptavinirnir okkur innblástur við innkaup erlendis.“
Farsóttin kallaði á samfélagsmiðla og vefverslun
Stefán segir að þau kappkosti að veita persónulega og góða þjónustu því hver og einn hefur mismunandi þarfir og engir tveir einstaklingar eru eins. „Það er annar hluti sem er skemmtilegur við vinnuna okkar, innkaupin og að fá að sjá aðeins fram í tímann hvað er að koma. Undir venjulegum kringumstæðum ferðumst við fjórum sinnum á ári til Parísar á tískuvikuna og kaupum inn sex mánuði fram í tímann. Þá er gott hafa góða reynslu í því sem maður er að gera.“
Dúsa tekur við og segir síðastliðið ár hafa verið fordæmalaust. „Við höfum auðvitað ekki verið að ferðast við innkaup heldur fara þau fram núna á netinu í gegnum Zoom-fundi og frábært starf okkar hönnuða og birgja. Þetta gerir starfið fjölbreytt og skemmtilegt.“
Þau sáu á síðasta ári einnig fram á áskoranir sem fylgdu COVID-19 og breyttu landslagi í verslun. „Við settum þá aukinn kraft í samfélagsmiðla og settum upp vefverslun til að koma til móts við okkar viðskiptavini. Við njótum þess að vinna saman í þessum rekstri og höfum því alltaf stuðning hvort í öðru því þetta er mjög mikil vinna en á meðan starfið er ástríða þá lætur maður það ekki eftir sér,“ segja þau að lokum.