Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.8 C
Reykjavik

Hjalti stóð allslaus eftir hrun en lét ekki buga sig: „Lét börnin borða fyrst og át svo sjálfur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég var með lán, skuldir og námslán og var að því komin að fara í matarúthlutun hjá góðgerðarsamtökum. Auðvitað var þetta drulluerfitt. Á þessu tímabili lét maður börnin borða fyrst og át svo sjálfur það sem þau leyfðu. Það er ekki síst þess vegna sem ég hef verið duglegur við að gefa verk til góðgerðarmála. Þetta er spurning um karma, maður uppskerir eins og maður sáir,” segir Hjalti Parelius listmálari, sem hefur skapað sér orð bæði fyrir myndlist sína svo og ákveðnar skoðanir, jafn á samfélaginu og listaheiminum.

Allslaus í leiguhúsnæði í Keflavík

Hjalti starfaði á arkitektastofu þegar hrunið brast á. „Það gekk vel hjá okkur. Ég sá um grafík og þrívddarhönnun og við unnum fullt af samkeppnum. Allt var í blóma. Svo kom hrunið, stofan þynntist niður í ekki neitt þegar markaðurinn fór til fjandans og engin verkefni að fá. Allt í einu stóð maður uppi atvinnulaus og allslaus í litlu leiguhúsnæði í Keflavík. Ég vissi ekki hvað ég myndi gera, vissi bara að ég ætlaði ekki að láta þetta buga mig, detta í þunglyndi og vorkenna sjálfum mér.”

Hjalti hafði dundað sér við að mála á námsárum sínum í Danmörku og hafði alltaf áhuga á listsköpun. „Ég var lítið hrifin af þessu abstraktæði sem gekk yfir á þessum árum og var að kvarta yfir þessu við eiginkonu mína þegar við gengum framhjá listagalleríum. Hún sagði mér að hætta að kvarta og gera betur ef ég væri ósáttur. Ég ákvað að taka hana á orðinu og málaði sextán myndir á fjórum mánuðum sem ég sýndi á Listanótt í Reykjanesbæ árið 2009 þar sem að þær seldust flestar. Ég fór að spá í að hugsanlega gæti ég lifað af listinni.” Í kjölfarið fór boltinn að rúlla hjá Hjalta, hann segir fyrstu árin verið erfið en fimm árum síðar var fjölskyldan komin úr litlu leiguíbúðinni í veglegt einbýli á höfuðborgarsvæðinu og Hjalti eftirsóttur listmálari sem hefur haldið fjölda sýninga og selt verk sín hér heima og erlendis.

„Það er engin regla að að myndlistarmenn þurfi að lepja dauðann úr skel. Þetta er erfið vinna og endalaust hark en það má lifa af því. Og góðu lífi ef vel er að staðið. Myndlist er erfiðasta söluvara í heimi, þetta er „high end” lúxusvara sem hefur engan annan tilgang en að hengja tilfinningar upp á vegg.

Jafn velkominn og klamydía

- Auglýsing -

Hjalti segir að það ekki hafa verið kúl að vera listmálari þegar hann var að hefja feril sinn árið 2009. „Flest af því sem var í gangi voru innsetningar, gjörningar og alls konar nútímalist. Ég veit að ég er ekki allra og hef hef stigið á tær með mínar skoðanir, þótt ég sé ekkert endilega að nafngreina þær tær, en mér er alveg sama. List á að vera skemmtileg og ég er í þessu af því það er gaman, ekki til að velta mér upp úr djúpum heimspekilegum vangaveltum. List er ekki bara fyrir gáfumenni með fjölda prófgráða til að skilja hana.“

Hann segist vel skilja samtímalist og hugmyndalist og að margir af hans uppáhalds listamönnum komi úr þeim hópi. „Ég hef aftur á móti farið á sýningar þar sem ég klóra mér í hausnum og skil hvorki upp nér niður. Annaðhvort er ég ekki nógu gáfaður til að skilja þær eða það er einhver að grínast. Maður labbar inn á Listasafn Reykjavíkur og sér einhverja hrúgu af pappakössum. Ég kalla þetta „nýju fötin keisarans list”. Það er list sem engin virðist þora að benda á að sé bara bull á meðan einhver gáfumannaelíta segir hana óskaplega merkilega. Enginn þorir að standa upp og segja hreint út að keisarinn sér berrasaður.

Hjalti Parellisu listmálari.

- Auglýsing -

Það má heldur ekki nefna að list er til helminga sköpun og bisness. Það þarf að kunna að spila leikinn og markaðssetja sig. Sumir telja það yfirgengilega móðgun þegar einhver vogar sér að nefna að list er auðvitað markaðssvara. Ég hef komið inn á bar sem er mikið sóttur af íslenskum listamönnum og fundið vel fyrir því að vera jafn velkominn og klamydía í orgíu.”

Höfum tendensa til öfundar

Hjalti var alinn upp við myndlist og klassíska tónlist og sat í Íslensku óperunni 6 ára að aldri við hlið frú Vigdísar Finnbogadóttur. „Ég er ekki normal, það er ekkert gaman að vera normal. Það er bara flatneskja. Ég hef fundið fyrir öfund þar sem mér hefur gengið vel en tek það ekki inn á mig. Við höfum tendsenda til að vera öfund í garð þeirra sem gengur vel í stað þess að samgleðjast. Ég bara hlæ að því, mér stendur hjartanlega á sama. Ég hef alltaf verið svona, ég vissi heldur ekki að ég hefði orðið fyrir einelti í skóla fyrr en mér var bent á það á fullorðinsárum. Ég get skilið óöryggi, hef fundið fyrir því sjálfur, maður var ekkert að fara í ræktina eins og rækja aðeins 173 á hæð sem ungur maður, en maður má ekki láta óöryggið sitja í bílstjórasætinu og láta aðra meta sig eftir lækum á samfélagsmiðlum. Aftur á móti getur trúin á sjálfan sig gert það að verkum að maður brennur út.“

Hjalti segir að fyrir einu og hálfu ári síðan hafi hann lent í því að brenna út. „Mér leið ekki illa andlega en var þróttlaus og áhugalaus og þurfti að pína mig að trönunum til að klára verk sem höfðu verið pöntuð. Ég vildi ekki mála, ég vildi bara dunda mér í jeppanum mínum eða elda mat. Það hafði auðvitað áhrif sem ég er enn að greiða úr en það er ekkert annað en að rísa upp, tækla málin og halda ótrauður áfram,” segir Hjalti Parelíus, listmálari.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -