Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Helgi, sonur Sesselju, tók eigið líf í Þýskalandi: „Þá ætlaði ég að drepa mig líka“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Helgi Már Kristjánssson tók í hittifyrra sitt eigið líf 31 árs gamall á geðdeild í Leipzig í Þýskalandi. Vegna mannlegra mistaka hér á landi frétti fjölskylda hans ekki af andlátinu fyrr en viku síðar og var móðir hans, Sesselja Anna Ólafsdóttir, þá að fara að heimsækja hann. Hún talar hér um son sinn og sorgina. „Ég gat eiginlega ekkert borðað í ábyggilega mánuð eftir þetta. Ég gat varla kyngt vatni. Það lokaðist allt. Ég fann alla lykt miklu sterkar. Allt bragð var miklu meira. Og litirnir voru allir miklu fallegri. Þetta var hrikalegt áfall. Það er ekki hægt að lýsa því. Ég fór í djúpa holu. Þetta átti ekkert að gerast.“

Sesselja Anna Ólafsdóttir var 21 árs þegar frumburður hennar kom í heiminn 20. febrúar árið 1988. Fæðingin gekk vel og fljótt fyrir sig.

Lítill, fallegur drengur. Með skollitað hár. Blá augu.

Helgi var yndislegt barn á allan hátt. Hann var vinamargur, varð fljótt læs og var afbragðsnemandi. Hann var alltaf góður og það elskuðu hann allir.

„Hann var yndislegur þegar hann fæddist. Það var yndislegt þegar hann kom. Það er sérstakt að eignast sitt fyrsta barn. Það er svo dásamlegt. Hann var rosalega kröftugur þegar hann fæddist. Bara flottur. Yndislegur. Mér fannst allt vera fullkomið við hann.“

Tíminn leið og Sesselja og faðir Helga eignuðust saman tvö önnur börn næsta áratuginn og bjó fjölskyldan í Bolungarvík.

„Lífið í Bolungarvík var yndislegt og okkur leið öllum vel. Helgi var yndislegt barn á allan hátt. Hann var vinamargur, varð fljótt læs og var afbragðsnemandi. Hann var alltaf góður og það elskuðu hann allir. Hann kom með hugmyndir og var frumkvöðull í að gera eitthvað og allir krakkarnir elskuðu að leika við hann. Hann var flottur skíðamaður og æfði sund og fótbolta. Það var ekkert vesen á honum.“

- Auglýsing -

Sesselja hefur lengi haft gaman af því að teikna og hún teiknaði fallegar myndir fyrir frumburðinn.

„Honum þótti vera gaman að láta teikna fyrir sig. Hann sagði einu sinni: „Mamma, þú getur teiknað allt.“ Hann hafði mikinn áhuga á því að teikna sjálfur, leika og syngja. Hann fæddist listamaður í sér. Mikill listamaður.

Jú, tíminn leið. Árin liðu.

- Auglýsing -

„Við þroskuðmst frá hvort öðru, ég og pabbi hans. Við skildum þegar Helgi var 12 ára. Fórum í sitthvora áttina. Ég kynntist síðan núverandi manninum mínum. Hann vildi flytja til Bolungarvíkur en þar var ekkert starf fyrir hann þannig að við fluttum til Reykjavíkur. Í Árbæinn. Helga virtist líða vel og hann varð fljótt vinamargur. Hann fór að læra tónlist; hann spilaði alltaf eftir eyranu en hann gat alveg spilað eftir nótum.“

Helgi var farinn og allt búið. Mér finnst hluti af mér vera farinn. Það er eins og hluti hjartans sé farinn. Mig langaði ekkert til að lifa lengur

Gítar og píanó.

Sesselja og núverandi maður hennar eignuðust síðan tvö börn.

Magaverkir

Sesselja segir að Helga hafi farið að líða illa þegar hann var í 9. bekk.

„Hann fann sig ekki. Hann var alltaf með háar einkunnir en þá fór að þróast unglingavandamál hjá honum. Ekkert alvarlegt samt. Hann sagði þó seinna meir að sér hafi ekki liðið vel í skólanum. Hann átti kærustu á þessum tíma og fullt af vinum. Ég tók ekki eftir því að honum liði illa nema þessu áhugaleysi á náminu. Ég áttaði mig ekki á því. Hann hætti að stunda námið og ég hafði áhyggjur af því og sendi hann haustið eftir til frænku hans og ömmu og kláraði hann grunnskólann á Laugalandi og var hann sáttur við það. Hann tók 10. bekkinn þar og útskrifaðist með góðar einkunnir. Það var erfitt fyrir mig þegar hann flutti þangað vegna þess að við vorum svo miklir vinir. Það var ekkert að þannig séð en ég hafði áhyggjur af því að hann hafði hætt að stunda námið í Árbæjarskóla; kannski tengdist það einhverjum unglingaleiða. Hann kom alltaf til Reykjavíkur um helgar þennan vetur; ég sótti hann.“

Helgi hóf síðan nám við Menntaskólann að Laugarvatni.

„Honum leið þar vel og náði öllum prófum en hann var þar bara í einn vetur. Hann féll á mætingu og skólastjórinn vildi í rauninni ekki leyfa honum að halda áfram. Hann þurfti að hætta í skólanum sem var leiðinlegt af því að honum leið vel.“

Helgi hóf svo nám á myndlistarbraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti og útskrifaðist sem stúdent nokkrum árum síðar. Hann hafði áhuga á að fara í framhaldsnám erlendis og fór að vinna til að safna sér pening. Hann fékk á þessum tíma botnlangabólgukast, fór í aðgerð og segir Sesselja að hann hafi eftir það oft fengið mikla magaverki sem héldu jafnvel fyrir honum vöku en að aldrei hafi komið í ljós af hverju þeir stöfuðu. Hann vann síðan á hestabúgarði í Belgíu í nokkra mánuði og segir Sesselja að það hafi verið farið illa með hann þar og að það hafi í rauninni verið um vinnuþrælkun að ræða.

Hann hefur sennilega gefist upp þegar hann fékk neitun um styrk. Eða vegna verkjanna. Maður veit ekki hvað það var.

Peningaaðstoð

Helgi flutti árið 2012 til Leipzig í Þýskalandi þar sem hann stefndi á að fara í listnám.

„Hann var einhvern tíma að koma sér fyrir og þurfti að taka þýskuáfanga þannig að hann fór ekki strax í háskólanámið og hann kom heim til dæmis um jólin.“

Hann seldi samt örugglega myndir; maður veit svo lítið um börnin sín þó maður haldi sig vita allt.

Helgi flutti með vinkonu sinni til Lettlands árið 2014 þar sem hann fór að vinna í grunnskóla en hann vann sem leiðbeinandi og kenndi krökkum um myndlist og tónlist auk þess sem hann hélt þar myndlistarsýningar.

Helgi vann eftir þetta líka um tíma í grunnskólum á Íslandi og vann líka í sjoppu á kvöldin. Hann fór svo aftur til Leipzig til að reyna aftur að komast inn í listaskólann og komst hann inn í skólann árið 2016.

„Hann var ótrúlega ánægður. Það var eitthvað svo erfitt fyrir hann að halda náminu áfram; hann var alltaf í einhverju námi þarna úti en ég var eiginlega hætt að fylgjast með það mikið með.“

Hann hélt myndlistarsýningar og spilaði á gítar með hljómsveitum sem komu fram á tónleikum hér og þar.

Hann var alltaf hæfur listamaður en fékk sennilega aldrei borgað fyrir neitt.

„Hann var alltaf hæfur listamaður en fékk sennilega aldrei borgað fyrir neitt. Þegar hann hélt eina myndlistarsýninguna hringdi hann í mig rosa glaður og sagði: „Mamma, veistu hvað? Einni myndinni minni var stolið.“ Hann var svo hamingjusamur yfir því að einhver vildi stela mynd eftir hann.

Ég styrkti hann alltaf fjárhagslega og sendi honum peninga alltaf þegar hann þurfti – þegar hann var ekki með vinnu eða fékk ekki borgað fyrir vinnuna. Hann var barnið mitt. Maður vill alltaf styrkja barnið sitt. Hann var oft að bjóða mér í heimsókn en ég var alltaf að styrkja hann og mér fannst vera betra að styrkja hann fjárhagslega heldur en að fara að heimsækja hann. Pabbi hans hjálpaði honum líka.“

Sesselja er spurð hvers vegna hann hafi ekki fengið námslán.

„Mögulega var hann ekki í fullu námi en allavega var hann alltaf á þeim jaðri að fá lán eða styrki. Hann seldi samt örugglega myndir; maður veit svo lítið um börnin sín þó maður haldi sig vita allt. Ég heyrði að það hafi verið settar upp myndir eftir hann í skólanum í Lettlandi þar sem hann vann. Hann seldi líka myndir hér heima en ég veit mjög lítið um þetta allt. Ég vissi alltaf að hann fékk ekkert borgað sem listamaður. Listin veitti honum aðallega hamingju. Hann var mikill listamaður. Þetta var alltaf harka. Hann var að spila og syngja og skapa myndlist. Allt þetta. Það komu aldrei peningar. Því miður eru margir listamenn ekki á launum og fá ekki greitt fyrir að vera listamenn. Það var oft verið að spyrja bæði mig og hann hvort hann ætlaði ekki að fara að vinna þegar hann var í listanámi. Ég reyndi á sínum tíma að leita aðstoðar hér heima upp á hvort hann hefði rétt á styrk af því að hann var í námi. Ég fór til félagsráðgjafa sem spurði mig hvort ég gerði mér grein fyrir því að hann væri örugglega að nota peninginn sem ég sendi honum í fíkniefni. Félagsráðgjafinn sagði að Helgi þyrfti að fara að hugsa um sig sjálfur fjárhagslega sem var vissulega rétt hjá henni. Ég fékk skömmina; að ég væri að fóðra fíkilinn og að ég ætti að hætta að fóðra hann. Sem fagmaður á fólk að hugsa um hvað það segir áður en það segir það. Þá fór ég að hugsa um hvort ég ætti að hætta að styrkja hann fjárhagslega og hvort hann væri að neyta fíkniefna en ég átti erfitt með að trúa því af því að ég sá ekki nein merki þess. Ég spurði vini hans þá en þeir könnuðust ekki við að hann hafi verið í neyslu. Hann drakk mjög lítið; helst ef honum væri boðið rauðvín með mat. Læknir á Íslandi lét hann einu sinni fá verkjalyf vegna magaverkjanna sem Helgi hefði getað notað og selt en þegar hann fór svo til Þýskalands í kjölfarið skildi hann lyfin eftir í skápnum hjá mér og ég lét farga þeim. Hann var ekki fíkill á neinn hátt.

Ég vissi alltaf að hann fékk ekkert borgað sem listamaður. Listin veitti honum aðallega hamingju.

Ég gaf Helga síðan flotta afmælisgjöf þegar hann varð þrítugur og hugsaði með mér að nú væri ég hætt að styrkja hann. Ég sagði á þessum tíma að hann þyrfti að leita sér stuðnings og gera þetta sjálfur. Hann vissi að hann þurfti að leita sér aðstoðar. Ég sagði að ég og pabbi hans gætum ekki alltaf verið að styrkja hann. Ég sagðist myndi samt alltaf hjálpa honum ef hann þyrfti aðstoð en vonaði að hann myndi finna réttu leiðina þar sem ég gæti ekki alltaf stutt hann í listamannslífinu.“

Ljóð eftir Helga:

Tíminn

Þegar ég vaknaði var kominn vetur, og ég nennti ekki á fætur. Þegar ég kom fram var kominn febrúar og ég var ekki búinn að hella upp á kaffi. Blaðið kom ekki fyrr en í apríl, það skreið inn um bréfalúguna og hoppaði ofan í hóp reikninga sem voru löngu komnir yfir eindaga. Þegar ég lagði af stað var komið vor, og ég var allt of seinn. Er ég kom í vinnuna var kominn júní, og ég fékk ekkert sumarfrí í kaffihléinu. Ég settist við skrifborðið og kom engu í verk fyrr en seint í ágúst. Ég lagði af stað heim í byrjun september og var kominn fyrir lok nóvember. Eftir kvöldmatinn settist ég fyrir framan sjónvarpið og rétt misst af dagskrárlokum. Desember var að ljúka og tími til að fara í háttinn. Enn eitt ár á enda og engu komið í verk.

Búinn að vera látinn í viku

Helgi hélt áfram að stunda námið, mála og spila og áfram barðist hann við magaverkina sem héldu stundum fyrir honum vöku.

„Það var ekkert hlustað á hann þegar hann fór til læknis vegna verkja og einu sinni sagði læknir að hann ætti að reyna að fita sig af því hann væri grannur en þannig var hann. Ég sem móðir hugsa að ef hann hefði verið of feitur hefði hann átt að grenna sig. Hann sagði mér einu sinni að hann gæti þetta ekki lengur og ætti erfitt með að sofa fyrir verkjum. Þá fór ég að tala um að kannski væri þetta andlegt af því að verkir tengjast oft andlegri líðan. Þá leitaði hann sér í kjölfarið aðstoðar á geðdeild sjúkrahúss í Leipzig. Ég hafði haustið 2018 fengið þá snilldarhugmynd að öll fjölskyldan myndi verja jólunum saman á Spáni en ég var komin þar með hús til að dvelja í. Ég vildi gefa öllum börnunum mínum flugmiða til Spánar í jólagjöf en þau þáðu það ekki öll. Mig langaði svo að við værum öll saman yfir jólin. Við höfum alltaf verið mjög náin sem fjölskylda og flestir uppteknir við daglegt líf í skóla og vinnu.“

Kerfið okkar er mannlegt. Starfsfólk á sjúkrahúsinu spurði mig hvernig samfélagið væri eiginlega á Íslandi,“ segir hún og var það vegna þess að fjölskyldunni var ekki tilkynnt um andlátið eftir að sjúkrahúsið lét yfirvöld hér heima vita um andlátið.

Sesselja segir að Helgi hafi sagst vera mjög upptekinn og ekki geta komist til Spánar. Andleg líðan hans hafði versnað og sagði hann móður sinni síðar að hann vildi ekki lifa lengur með þessa verki. Hann fór á sjúkrahús í Leipzig í október 2018 til að reyna að leita sér aðstoðar og var lagður inn á geðdeild.

„Ég var oft í sambandi við hann og hélt að hann myndi koma til Spánar um jólin. Ég hugsaði með mér að kannski tengdust verkirnir kvíða. Hann var stundum ekki í símasambandi þegar hann var veikur. Ég taldi að hann yrði orðinn góður um jólin og kæmi til að vera með okkur á Spáni sem hann gerði ekki. Hann var með okkur í netheimum sem er vissulega ekki alveg eins og ég gerði mér ekki grein fyrir því hversu veikur hann var í rauninni.“

Helgi var búinn að vera um tíma á geðdeildinni þegar hann sagði móður sinni í einu símtalinu að sér væri farið að líða betur.

Sesselja og eldri dóttir hennar ákváðu að heimsækja Helga á sjúkrahúsið í Leipzig í mars. Helgi hafði ekki svarað símtölum í nokkra daga áður en þær komu út. Hann vissi að þær væru að koma. Síðasta símtalið var 28. febrúar.

„Við áttum mjög langt símtal og ég man ekkert um hvað en það var mjög gott samtal.“

Sesselja sagði að hún hafi fundið á sér að eitthvað væri að.

„Ég hugsaði með mér að honum hafi kannski versnað en ég er sjúkraliði, fyrir utan að vera einnig þroskaþjálfi, og í störfum mínum sem sjúkraliði veit ég að síminn er stundum tekinn af sjúklingum ef þeim versnar.“

Hún er spurð hvort hún hafi ekki reynt að hringja í sjúkrahúsið og spyrjast fyrir um hann.

„Nei, mér datt það aldrei í hug. Vinir hans fóru reglulega á sjúkrahúsið að heimsækja hann og þess vegna hringdi ég ekki.“

Mér finnst vera svo dapurt að ég hitti hann ekki aftur. Að það sé ekkert meira. Að líf hans sé búið. Ég get ekki trúað því. Ég skapaði hann, gekk með hann í níu mánuði og fæddi hann.

Mæðgurnar flugu til Berlínar 7. mars og morguninn eftir fóru þær á sjúkrahúsið í Leipzig. Þær spurðu um Helga. Það varð fátt um svör. Það talaði enginn almennilega ensku.

„Við þurftum að bíða og skildum ekki af hverju við mættum ekki tala við Helga. Við vorum búnar að sakna hans af því að við vissum að hann væri búinn að vera veikur. Við vorum búnar að bíða lengi, örugglega í tvo tíma, þegar okkur var vísað upp á næstu hæð en þá var búið að finna starfsmann sem talaði ensku almennilega. Það hefur án efa eitthvað ferli verið sett í gang þegar við mættum án þess að vita að Helgi væri látinn og þess vegna höfum við verið látnar bíða svona lengi. Okkur var þá tilkynnt að Helgi hefði tekið líf sitt á deildinni viku áður. Læknar sögðu að Helgi hefði fengið neitun um styrk en starfsmenn sjúkrahússins höfðu reynt að aðstoða hann við að fá styrk. Okkur var sagt að hann hefði orðið mjög leiður yfir því; það hefur mögulega fyllt mælinn. Hann hefur sennilega gefist upp þegar hann fékk neitun um styrk. Eða vegna verkjanna. Maður veit ekki hvað það var.“

Sesselja segir að sjúkrahúsið hafi tilkynnt íslenskum yfirvöldum um andlátið fljótlega eftir að Helgi lést en að lögreglumaður á Íslandi sem tók við tölvupóstinum hafi gleymt að láta þau vita þannig að fjölskyldan fékk ekki fréttirnar. Þess má þó geta að lögreglan hafði samband vegna andlátsins um viku síðar – sama dag og eftir að Sesselja og dóttir hennar voru á sjúkrahúsinu til að reyna að hitta Helga og höfðu talað þar við starfsmenn. Þegar til Íslands kom fóru Sesselja og dóttir hennar á lögreglustöðina þar sem þær voru beðnar afsökunar og segir hún að ferlinu vegna svona tilkynninga hafi verið breytt í kjölfarið.

Hún er spurð hvort utanríkisráðuneytið eigi ekki að sjá um svona tilkynningar.

„Jú, það var mikið um að vera í Berlín og auðvitað eiga svona hlutir aldrei að gerast. Ég átti líka örugglega að fá aðstoð frá þeim sem ég fékk ekki. Kerfið okkar er mannlegt. Starfsfólk á sjúkrahúsinu spurði mig hvernig samfélagið væri eiginlega á Íslandi,“ segir hún og var það vegna þess að fjölskyldunni var ekki tilkynnt um andlátið eftir að sjúkrahúsið lét yfirvöld hér heima vita um andlátið.

Mig langaði ekki til að lifa lengur

Helgi látinn. Spurningarnar voru margar.

„Ég spurði lækni meðal annars hvort Helgi hefði verið að taka eiturlyf en hann sagði svo ekki vera og var hissa að ég skyldi spyrja að þessu.“

Sesselja og dóttir hennar fóru síðan út af sjúkrahúsinu.

„Ég man að ég labbaði út af sjúkrahúsinu og ég vissi ekkert hvað ég ætti að gera. Ég settist á bekk fyrir utan og sá þá fallegasta regnboga sem ég hef nokkurn tímann séð fyrir framan mig. Helgi elskaði allt og alla og talaði aldrei illa um neinn og var góður við menn og málleysingja. Þetta var táknrænt.“

Sesselja fór í líkhús og sá son sinn látinn.

Hún segir að hún og dóttir sín hafi þurft að sjá um allt sjálfar eftir að Helgi lést en faðir hans og bróðir flugu svo fljótlega til Þýskalands til að hjálpa þeim. Þau hittu vini Helga og var haldin minningarathöfn þar sem fólk var að mæta allan daginn og var rýmið skreytt með listaverkum eftir hann. „Hann var rosalega vinamargur úti og elskaður og var að gera rosalega flotta hluti í Leipzig.“

Sesselja og dóttir hennar flugu svo til Íslands nokkrum dögum síðar og faðir Helga og bróðir komu síðar. Það þótti vera best að brenna líkið og komu þeir feðgar með öskuna í duftkeri til Íslands.

Ég teiknaði mikið þegar mér leið mjög illa. Þetta var svo vont. Mín útrás var að teikna.

Svo var það útförin.

Sesselja man eftir hvítum blómum þennan dag.

Hvað með sálma og lög? Hún nefnir nokkur. Heyr mína bæn. „Helgi var Ellýjar-maður.“ Hótel jörð. Ó, hve létt er þitt skóhljóð. Somewhere over the Rainbow var spilað þegar kirkjugestir gengu út úr kirkjunni.

„Regnbogi mun alltaf tengja mig við Helga.“

Og í erfisdrykkjunni gátu gestir virt fyrir sér listaverk hans á veggjum.

 

Heyr mína bæn mildasti blær

Berðu kveðju mína’ yfir höf

Syngdu honum saknaðarljóð

Vanga hans blítt vermir þú sól

Vörum mjúkum kysstu hans brá

Ástarorð hvísla mér frá

 

Syngið þið fuglar, ykkar fegursta ljóða lag

Flytjið honum, í indælum óði, ástarljóð mitt

 

Heyr mína bæn bára við strönd

Blítt þú vaggar honum við barm

Þar til svefninn sígur á brá

Draumheimi í, dveljum við þá

Daga langa, saman tvö ein

Heyr mínar bænir og þrá

 

Syngið þið fuglar, ykkar fegursta ljóða lag

Flytjið honum, í indælum óði, ástarljóð mitt

 

Heyr mína bæn bára við strönd

Blítt þú vaggar honum við barm

Þar til svefninn sígur á brá

Draumheimi í, dveljum við þá

Daga langa, saman tvö ein

Heyr mínar bænir og þrár

 

(Ólafur Gaukur)

 

Áfallastreituröskun

Þessi dagur. Þessi dagur þegar Sesselja frétti að sonur hennar væri látinn. Búinn að vera látinn í viku.

„Mig langaði ekki til að lifa lengur. Helgi var frumburðurinn minn. Maður er ekkert að fara að missa barnið sitt. Það er ekki í boði að barnið manns sé að fara að deyja á undan manni. Hann var kennarinn minn. Þó ég hafi verið mamma hans þá kenndi hann mér til dæmis að skilja listina. Þetta var rosalega erfitt. Þetta var ótrúlega erfitt. Það stoppaði allt. Klukkan stoppaði. Hún var ekki að ganga áfram. Ég vildi ýta á pásu. Ég vildi stoppa tímann. Ég vildi að það kæmi ekki annar afmælisdagur. Ég gat eiginlega ekkert borðað í ábyggilega mánuð eftir þetta. Ég gat varla kyngt vatni. Það lokaðist allt. Ég fann alla lykt miklu sterkar. Allt bragð var miklu meira. Og litirnir voru allir miklu fallegri. Þetta var hrikalegt áfall. Það er ekki hægt að lýsa því. Ég fór í djúpa holu. Þetta átti ekkert að gerast.

Það var hula yfir mér.

Ég fékk áfallastreituröskun. Ég fékk martraðir og var að díla við þær lengi vel á eftir. Mér fannst einver ætla að drepa okkur. Dauðinn var að koma að drepa mig líka. Hann var búinn að drepa Helga minn. Það var ekkert líf fram undan. Ég gat ekki talað við Helga; hann var alltaf svo skemmtilegur. Hann var alltaf að skapa og gera svo skemmtilega hluti. Það var búið. Ég svaf lítið í um ár á eftir. Og þar sem ég borðaði eiginlega ekki neitt þá grenntist ég mikið.“

Þá ætlaði ég að drepa mig líka og það var þá sem ég áttaði mig á að ég þyrfti að leita mér hjálpar.

Sesselja grætur.

„Ég gat ekkert borðað,“ segir hún með ekka. „Helgi var farinn og allt búið. Mér finnst hluti af mér vera farinn. Það er eins og hluti hjartans sé farinn. Mig langaði ekkert til að lifa lengur.“

Tárin renna.

„Þá ætlaði ég að drepa mig líka og það var þá sem ég áttaði mig á að ég þyrfti að leita mér hjálpar. Það sem bjargaði mér var að eitt barnið mitt kom að mér en ég veit ekki hvað það sá. Ég tók hníf en veit ekki hvað ég hefði gert ef það hefði ekki komið. Mér leið svo illa af því að ég saknaði Helga svo ofsalega. Það var eitthvað dáið inni í mér. Einhvern veginn. Fólk fer í svo djúpa holu að það er ekkert sárara í lífinu. Eitt af börnunum mínum sagði seinna við mig að ég gerði mér grein fyrir því hversu mörgum ætti eftir að líða illa ef ég ætlaði ekki að halda áfram. Það reif mig upp. Ég var í djúpu lauginni að drukkna. Ég vildi að Helgi hefði líka skilið þetta.“’

Það elskuðu hann svo margir.

Það að missa barn er dýpsta sorg sem fólk getur upplifað. Maður fer ekki dýpra.

Hún berst við grátinn.

Hún fór til heimilislæknis síns og sagði honum frá líðan sinni og segir hún að hún hafi hitt lækninn reglulega næstu mánuði og að hann hafi hjálpað sér.

„Læknirinn hlustaði á mig og gaf mér þann stuðning sem ég þurfti.“

Hún talaði auk þess við foreldra sem höfðu misst barn.

„Það er svo erfitt að skilja þessa sorg. Þessir foreldrar studdu mig.“

Hún fór að lesa bækur um sjálfsvíg og ýmsar sjálfshjálparbækur.

„Ég er búin að lesa mikið um hvernig ég get hjálpað mér sem móðir til þess að verða sterkari. Ég áttaði mig á sorgarferlinu. Ég teiknaði mikið þegar mér leið mjög illa. Þetta var svo vont. Mín útrás var að teikna.“

Sesselja var í fullu starfi sem sjúkraliði. Læknirinn ráðlægði henni að taka frí í vinnunni sem hún gerði.

„Ég missti eiginlega minnið á þessum tíma.“

Og hún missti trúna á guð.

„Ég hef alltaf verið trúuð og beðið bæna. Í reiðifasanum mínum, sorgarfasanum mínum, var ég lengi mjög reið við guð og ég ætlaði ekki að biðja aftur bæna. Hann gat tekið son minn; hann gerði mér þann grikk. Þar henti ég minni reiði. Ég er hins vegar búin að sætta mig við guð og er farin að biðja aftur. Og í bænum mínum þakka ég guði fyrir að geta verið reið út í hann vegna þess að ég gat beint reiði minni þangað.“

Verður að lifa með þessu

Sesselja er eins og áður sagði bæði sjúkraliði og þroskaþjálfi og þekkir fræðin því vel. Hún nýtir sér þekkingu sína til að vinna í sorginni auk þess sem hún notar það sem læknir hennar ráðleggur henni.

„Ég held að þroskaþjálfanámið hafi hjálpað mér svolítið við að takast á við sorgina. Ég þekki auk þess sorgarferlið úr starfi mínu sem sjúkraliði. Það að missa barn er dýpsta sorg sem fólk getur upplifað. Maður fer ekki dýpra. Ég nota núvitund mikið; að vera ekki að kroppa í sárið. Ættingi minn fékk á sínum tíma aðstoð hjá SÁÁ og á ég mynd viðkomandi af Æðruleysisbæninni sem hefur líka hjálpað mér. Maður þarf að tækla sjálfsvígsskömm; sem á ekkert að vera skömm. Það að sonur minn hafi tekið eigið líf er ekki eitthvað sem ég á að skammast mín fyrir. Þetta er sjúkdómur. Maður veit ekki hver er að díla við þennan sjúkdóm.“

Svo er það hræðslan; ég er svo hrædd um að missa annað barn. Ég gæti það ekki. Maður þarf að styrkja sig hvað þá hræðslu varðar.

Hún á við þunglyndi. Sjúkdóminn sem Helgi var með en sem hann sýndi ekki; hann virtist vera glaður og hress.

„Svo er það hræðslan; ég er svo hrædd um að missa annað barn. Ég gæti það ekki. Maður þarf að styrkja sig hvað þá hræðslu varðar. Ég verð líka að passa að hugsa ekki á neikvæðan hátt. Sjá frekar hið góða og vera ekki að kroppa í sárið. Vera ekki að grafa í leiðindunum. Þessi æðruleysisbæn hjálpaði mér mikið í því. Svo er þetta ekkert mér að kenna; ég átta mig alveg á því. Það er frábær prestur sem gaf mér góða punkta – kannski hélt ég Helga lengur lifandi af því að ég studdi hann fjárhagslega í listinni. Ég gaf honum kannski færi á að vera listamaður svona lengi. Peningar skiptu máli. Hann þurfti stuðning.“

Ég gat eiginlega ekkert borðað í ábyggilega mánuð eftir þetta. Ég gat varla kyngt vatni. Það lokaðist allt. Ég fann alla lykt miklu sterkar. Allt bragð var miklu meira. Og litirnir voru allir miklu fallegri. Þetta var hrikalegt áfall. Það er ekki hægt að lýsa því. Ég fór í djúpa holu. Þetta átti ekkert að gerast.

Hún segist vera orðin sterkari.

„Staðan í sorgarferlinu núna er að ég geri mér grein fyrir að ég get ekki breytt þessu. Ég þarf að hugsa um börnin mín sem eru náttúrlega frábær.“ Svo á hún tvö barnabörn. „Ég sakna Helga samt endalaust. Ég þarf að lifa með sorginni og ég þarf að lifa með þessu eins og hann sé ennþá mitt barn. Hann er það og verður það. Ég er ennþá með hann í hjartanu og ég má alveg tala um hann eins og ég tala um hin börnin.“

Hreyfing er góð fyrir líkama og sál og það veit Sesselja.

„Ég kenndi líkamsrækt í mörg ár og ég hleyp mikið og lyfti. Mér finnst vera gott að vera úti í náttúrunni. Ég fæ styrk úr náttúrunni.“

Það var eitthvað dáið inni í mér. Einhvern veginn. Fólk fer í svo djúpa holu að það er ekkert sárara í lífinu.

Hún nefnir núvitund.

„Maður verður að vera hér og nú. Það hjálpar mér. Það má hugsa um góðu hlutina í fortíðinni en það á kannski ekki að hugsa um erfiðu hlutina. Ef ég ætla að hugsa um fortíðina þá á ég ekki að hugsa um þunglyndið heldur um hið jákvæða. Og sjálfsstjórnin verður að vera til staðar. Þegar ég hugsa um framtíðina þá verð ég að hugsa um hana á annan hátt en ég gerði. Einhvern veginn verð ég að lifa með þessu. Ég ætla að lifa með þessu. Ég geri það. Mun gera það. Og mér finnst ég vera sterkari. Ég hef alltaf trúað að það sé líf eftir dauðann. Ég tala við Helga. Ég man eftir röddinni hans. Ég syng stundum innra með mér lög sem hann elskaði. Og þá finnst mér hann vera í kringum mig. Mér finnst vera svo dapurt að ég hitti hann ekki aftur. Að það sé ekkert meira. Að líf hans sé búið. Ég get ekki trúað því. Ég skapaði hann, gekk með hann í níu mánuði og fæddi hann.“

Ég þarf að lifa með sorginni og ég þarf að lifa með þessu eins og hann sé ennþá mitt barn. Hann er það og verður það. Ég er ennþá með hann í hjartanu og ég má alveg tala um hann eins og ég tala um hin börnin.

Sesselja segist oft hugsa til þess að Helgi megi ekki gleymast.

Minning hans lifir.

 

Somewhere over the rainbow way up high

There’s a land that I heard of once in a lullaby

Somewhere over the rainbow skies are blue

And the dreams that you dare to dream really do come true

 

Someday I wish upon a star

And wake up where the clouds are far behind me

Where troubles smelled like lemon drops

Way above the chimney tops

That’s where you’ll find me

 

Somewhere over the rainbow blue birds fly

Birds fly over the rainbow

Why then, oh why can’t I

Somewhere over the rainbow blue birds fly

Birds fly over the rainbow

Why then, oh why can’t I

 

If happy little blue birds fly beyong the rainbow

Why, oh why can’t I

 

(Harold Arlen / E. Y. Harburg)

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -