Mikilvægt er að vinna gegn stressinu sem fylgir þessum árstíma.
Það jafnast ekkert á við það að skella sér í spa og láta dekra aðeins við sig en því miður leyfir fjárhagur flestra ekki slíkan munað – sérstaklega ekki fyrir jólin. Hér eru nokkrar hugmyndir hvernig má dekra við sig heima og láta stressið sem fylgir þessum árstíma líða úr sér.
Kertaljós og huggulegur ilmur
Til að skapa huggulega birtu og smávegis spa-stemmningu á baðherberginu er gott kveikja á kertum og ekki er verra ef þau eru með huggulegum ilm.
Einnig er sniðugt að setja ilmolíur í baðið sjálft til að auka vellíðan og slökun. Best er að bæta nokkrum dropum af olíu út í þegar baðið er hálffullt, þannig dreifist hún best. Einnig má blanda epsom-salti í baðið til hámarka slökunina. Saltið er ríkt af magnesíum sem eykur blóðflæði til húðar og hjálpar til við að losa um bjúg og bólgur.
Þeir sem eru latir við að bera krem á líkamann en vilja samt halda honum mjúkum ættu að prófa að setja olíu í baðið, til dæmis möndlu- eða kókosolíu. Olían gerir það að verkum að húðin verður silkimjúk eftir baðið án nokkurrar fyrirhafnar.
Áhrifarík leið til að hressa upp á húðina
Nýttu tímann á meðan þú liggur í baði og settu á þig andlitsmaska. Andlitsmaskar eru fljótleg og áhrifarík leið til að hressa upp á húðina. Til að hámarka áhrifin er sniðugt að nota nota tvo maska hvorn á eftir öðrum, fyrst hreinsimaska og svo rakamaska. Berðu hreinsandi leirmaska á andlitið áður en þú stígur ofan í baðið, láttu hann liggja á húðinni í hálftíma og skolaðu svo af rétt áður en þú stígur upp úr baðinu. Þegar þú ert búin að þerra húðina geturðu svo borið rakamaska á sem inniheldur ýmis rakagefandi og róandi efni sem hjálpa við að styrkja húðina, gera áferð hennar fallegri og auka ljóma hennar. Raskamaska þarf yfirleitt ekki að skola af heldur er nóg að fjarlægja leifar hans með tissjúi.
Djúpnærandi olía í hárið
Þegar þú ert í slakandi baði með salti og olíum er óþarfi að pæla í því að þvo á sér hárið. Þess vegna er tilvalið að bera djúpnærandi olíu í hárið fyrir baðið. Auðvelt er að nota plöntuolíur, til dæmis ólífuolíu, sem djúpnæringu fyrir hár. Skiptu hárinu gróflega niður og nuddaðu olíu í hvern lokk fyrir sig, sérstaklega í endana. Þegar þú ert búin að bera olíu á allt hárið er gott að vefja plastfilmu eða -poka og vefja síðan handklæði um höfuðið. Þegar þú kemur úr baðinu geturðu skolað það mesta af olíunni úr hárinu án þess þó að nota sjampó.
Húðin skrúbbuð hátt og lágt
Við sinnum flest húðumhirðu andlitsins á hverjum degi en okkur hættir til að gleyma að hugsa um húðina á restinni af líkamanum. Áður en þú stígur upp úr baðinu er tilvalið að skrúbba húðina vel. Nú eru fáanlegir ýmsir gæðaskrúbbar sem eru framleiddir úr náttúrulegum íslenskum hráefnum sem eiga að stinna húðina og auka heilbrigði hennar. Einnig er hægt að nota góðan húðbursta með náttúrulegum hárum eða einfaldlega skrúbbhanska sem fást í öllum apótekum. Eftir að húðin hefur verið skrúbbuð er mikilvægt að bera gott krem á húðina svo hún þorni ekki upp. Eftir svona góða meðferð ættirðu að sjá mikinn mun á húðinni; hún er stinnari, sléttari og með heilbrigðan ljóma.
Gott að grípa í sparihandklæðin
Hafðu sparihandklæðin tilbúin þegar þú kemur upp úr baðinu því það er ekki hátíðlegt að þurrka sér með hörðu, slitnu handklæði. Sniðugt ráð er að leyfa handklæðunum að hitna aðeins á ofninum á meðan þú liggur í baði og gera slíkt hið sama við baðsloppinn. Þá verður lítið sem ekkert hitatap þegar þú stígur upp úr baðinu. Best er að dekra svona við sig á kvöldin og geta svo farið beint upp í rúm að sofa því það tryggir að þú náir að endurhlaða batteríin almennilega. Ef þú hefur ekki tök á því reyndu samt að leggjast inn í rúm í örlitla stund, um það bil tuttugu mínútur, og lygna aðeins aftur augunum.
Texti / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / www.pexels.com