„Þetta er svolítið eins og vinalegasta fangelsi í heiminum. Allir fangaverðirnir eru með afbrigðum almennilegir,“ segir Ágúst Borgþór Sverrisson, rithöfundur og fréttastjóri DV, sem situr í sóttkví í sóttvarnarhótelinu á Rauðárárstíg eftir að hafa smitast af Covid-19. „Þetta er mjög furðulegt allt saman. Ég hef oft komið áður á Rauðarárstíginn, en ég aldrei verið vistaður þar áður.“
Hrikalega venjulegt smit
Ágúst Borgþór segir allt benda til þess að hann hafi smitast á Íslenska barnum þann 9. apríl. Hann veikist síðan þann 13. þessa mánaðar en þá var hann staddur í sumarbústað ásamt eiginkonu sinni. „Þetta kom mér ofsalega á óvart. Þetta er svona dæmi sem maður heldur bara að komi fyrir aðra. Ég var búinn að vera í sumarfríi, hafði að mestu leyti haldið mig heima við og hélt einhvern vegin ekki að ég myndi smitast á svona hrikalega venjulegan hátt. Ég hélt að ég þyrfti að eiga pólskan vin, sem ferðaðist mikið, eða heimsækja einhverja skrýtna staði. Átti ekki von á að fá hópsmit á Íslenska barnum“.
Ágúst Borgþór ber sóttkvínni nokkuð vel söguna. „Það versta var að fá símtalið og ég gat fyrst ekki hugsað þá hugsun til enda að vera lokaður inni í þessu herbergi í tvær vikur. En maður verður að líta á björtu hliðarnar og núna líður mér vel. Reyndar hefur mér alltaf fundist gott að vera einn, sem hjálpar til, en samband við aðra er lykilatriði í þessari stöðu. Fólk hefur verið duglegt að setja sig í samband við mig og mér hafa verið sendar körfur með alls konar góðgæti. En það fylgir þessu minnkuð matarlyst og þar sem ég hef alltaf verið helst til þungur þarf það ekki að vera slæmt. Reyndar er maturinn hér þokkalegur, í dag var steiktur fiskur og svo er voðalega mikið um allskyns eggjahrærur.“
Eins og útlensk flensa
Ágúst segir Covid fylgja þreyta og orkuleysi en hann sé allur að koma til. „Þetta framkvæmdaleysi fylgir veirunni, og í dag er fyrsti dagurinn sem mér finnst ég hafa einhverja orku. Covid er eins og flensa, en með framandi og allt að því útlenskum blæ. Ég finn til að mynda eitthvað skrítið járnbragð í hálsinum þegar að ég hósta. En ég finn líka hvernig líkaminn er að sigrast á þessu, minn gamli skrokkur. Ég er búinn að vera að lesa andstyggilega leiðinlega franska glæpasögu sem er óþolandi, Brúðarkjóllinn heitir hún. Ég er bölvaður með það að þurfa að klára allar skáldsögur, en núna get ég farið að einbeita mér að skáldsögunni sem ég er sjálfur að skrifa. En það er erfitt að skrifa skáldsögu og ennþá erfiðara þegar maður er með Covid”.
Situr við reyfaraskrif
Ágúst Borgþór er að skrifa hreinræktaðan íslenskan reyfara.
„Þetta er spennusaga um konu sem hverfur árið 1969. Dóttir hennar, sem var barn að aldri við hvarfið, fer síðan að rannsaka það fjörutíu árum seinna. Ég styðst við umhverfi sem ég þekki, Seltjarnarnes æsku minnar, auk þess sem við sögu koma glæpaforingi og spilltur lögreglumaður. Ég er búin að vera að vinna að þessari bók í mörg ár en það er alltaf það sama. Um leið og maður fer að vinna sekkur allt í fréttunum.” Ágúst veltir vöngum.
„Skildi þetta vera fyrsta skáldsagan í heiminum skrifuð af Covid sjúklingi? Það er athugandi.”
Hann gerir ráð fyrir að dvelja á sóttvarnarhótelinu til mánaðarmóta en hann á akkúrat helgarvakt á DV 1.maí þar sem hann er fréttastjóri. Aðspurður um hvort hann stefni á ritstjórastólinn eftir brotthvarf Tobbu Marinós segir hann það ekki vera í sínum höndum, það sé eiganda blaðsins að velja ritstjóra.
„Ég var mjög ánægður með Tobbu sem ritstjóra. Við vorum reyndar með fordóma hvort fyrir öðru í byrjun og játuðum það hikstalaust“.
Sem ungur maður starfaði Ágúst Borgþór við „Rauða torgið”, símaþjónustu sem dansaði á mörkum laga og reglna með því að bjóða upp á frökk samtöl gegn rausnalegu mínútugjaldi. Hann vissi þó að það stæði ekki lengi því Internetið myndi taka yfir, jafnt þann bransa svo og fréttamiðlana.
„Ég er hissa á hvernig fólk tjáir sig um endalok DV sem prentmiðils. Það eru engin ný tíðindi að fólk lesi fréttir á vefnum. Þegar það kveikir á fréttatíma kvöldsins er það fyrir löngu búið að lesa fréttina þótt RÚV fari dýpra og Kastljós kannski enn dýpra. Mér finnst Mogginn til dæmis vera ansi gott blað en lesturinn á prentinu er innan við 20 prósent. Þjóðviljinn, Tíminn, Pressan og þessi blöð dóu drottni sínum en DV lifði einhvern vegin þótt það hefði hæglega getað drepist líka. Núna munum halda áfram og móta DV sem vefmiðil án prentaðrar útgáfu og því fylgja eðlilega ákveðnar breytingar. Það er ágætt að klára þetta vesen núna og fara inn í gott sumar hjá DV,” segir Ágúst Borgþór úr vinalegasta fangelsi heimsins við Rauðarárstíg.