Mikilvægt er að hugsa vel um húðina á veturna.
Hjá mörgum framkalla kaldir vetrardagar meira en rósrauðan roða í kinnar, þeir gera húðina líka mjög þurra, ekki síst í andliti, á höndum og fótum. Hjá sumum verður þetta mun meira en tilfinningin ein, þessi þurrktilfinning, þurrkurinn getur orðið til þess að húðin flagnar, springur og stuðlað að exemi. Hér eru nokkur góð ráð til að undirbúa húðina fyrir veturinn.
Leitaðu ráða hjá sérfræðingi
Skelltu þér í næstu lyfjaverslun eða snyrtivörubúð og fáðu álit hjá sérfræðingi í kremum. Hann getur sagt þér hvaða tegund af húð þú ert með, greint vandamálin sem eru kannski í gangi þessa stundina og ráðlagt þér hvaða vörur er best að nota. Það þýðir samt ekki að þú þurfir að kaupa allt það dýrasta sem verslunin hefur upp á að bjóða því vörurnar sem henta þér gætu verið þessar allra ódýrustu. Það sem mestu máli skiptir er hvernig húðin bregst við vörunum og hvernig þér líður með að bera þær á þig – ekki hversu mikið þú borgaðir fyrir þær.
Gefðu húðinni meiri raka
Þú átt kannski rakakrem sem hentar þér fullkomlega á vorin og sumrin. En á haustin og á vetrum þarf oft að breyta um vörur í takt við veðrabreytingarnar. Veldu rakakrem sem eru með olíu sem undirstöðu frekar en vatn en olían myndar verndandi hjúp á húðina og heldur eftir meiri raka en kremin sem byggja á vatni. Vandaðu samt valið því sum olíukennt krem henta ekki fyrir andlit; veldu til dæmis krem með avókadóolíu, mineral-olíu, primrose-olíu eða almond-olíu. Sjávarolíur og „butter“ er meira bara fyrir líkama. Þess má geta að mörg krem sem merkt eru sem næturkrem eru olíukennd.
Sólarvörn er ekki bara til notkunar á sumrin. Vetrarsólin í bland við glampann af snjónum getur líka haft slæm áhrif á húðina. Ekki hika við að bera sólarvörn á andlit og hendur … áður en þú ferð út í vetrarsólina.
Notaðu sólarvörn
Sólarvörn er ekki bara til notkunar á sumrin. Vetrarsólin í bland við glampann af snjónum getur líka haft slæm áhrif á húðina. Ekki hika við að bera sólarvörn á andlit og hendur, ef þær eru berar, áður en þú ferð út í vetrarsólina. Gott er að vera búinn að bera hana á sig um þrjátíu mínútum áður en farið er út og bera svo á sig reglulega ef maður er lengi úti.
Passaðu upp á hendurnar
Húðin á höndunum er þynnri en á flestum öðrum líkamshlutum og að auki með færri olíukirtla. Þess vegna er erfiðara að halda réttu rakastigi á höndunum, ekki síst í köldu og þurru veðri sem getur framkallað kláða og sprungur. Vertu því sem mest með hanska og vettlinga þegar þú ferð út, ekki síst úr ull.
Forðastu blauta sokka og hanska
Ef þú blotnar í fæturna eða hendurnar blotna þá skaltu reyna að skipta um sokka eða hanska eins fljótt og mögulegt er, annars getur þú fengið kláða, sprungur, sár og jafnvel exem.
Vertu þér úti um rakatæki
Ofnar og það sem notað er til upphitunar eykur oft þurrt loft á heimilum og vinnustöðum. Rakatæki dreifa raka út í andrúmsloftið og hjálpa til við að koma í veg fyrir að húðin þurrkist upp. Vertu því með rakatæki á nokkrum stöðum á heimili þínu og í vinnunni.
Gefðu fótunum extra mikið af raka
Fótakremin með mintulyktinni eru indæl yfir sumarmánuðina en á veturna þarftu eitthvað miklu áhrifaríkara. Reyndu að finna lotion sem inniheldur jarðolíuhlaup eða glyserín. Svo er gott að nota andlits- og líkamsskrúbb reglulega til að losna við dauðar húðfrumur en með því hefur rakakremið líka greiðari aðgang að húðinni.
Drekktu nóg af vatni
Þú hefur líklega heyrt þetta margoft en góð vísa er aldrei of oft kveðin. Vatnsdrykkja er mjög góð fyrir heilsuna almennt og húðin nýtur sannarlega góðs af þótt vatnsdrykkjan ein og sér sé ekki nóg til að koma í veg fyrir mesta húðþurrkinn.
Hvíldu kornamaskann
Ef húðin í andlitinu er mjög þurr þá skaltu forðast að nota grófa kornamaska, leirmaska eða andlitsvatn með alkóhóli því þetta þurrkar húðina.
Í staðinn getur þú notað hreinsimjólk eða mildan froðuhreinsi, andlitsvatn án alkóhóls eða maska með djúpnæringu.
Forðast skal mjög heitt bað
Þótt unaðslegt sé að skella sér í heitt bað, sturtu eða heitan pott á köldum vetrardögum þá getur það haft þau áhrif að húðin missi raka. Þið eruð betur sett í volgu vatni og passa þarf að dvelja ekki of lengi. Volgt bað með haframjöli eða bökunarsóda getur linað kláða á þurri húð.
Ef þessi atriði virka ekki þá skaltu ekki hika við að fara til húðsjúkdómafræðings.
Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir