Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Þórunn hafði tugi milljóna af öldruðum: „Ég þurfti að greiða skuldir og borga fyrir viðhald“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í októbermánuði árið 2001 var Þórunn Sig­ur­veig Aðal­steins­dótt­ir, átta barna móðir, amma og langamma á sjötugsaldri, dæmd í tveggja ára fang­elsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir fjársvik. Þórunn hafði á átta ára tímabili, frá árinu 1992, blekkt sjö aldraða karlmenn til að afhenda sér ríflega 56 milljónir króna, oftast gegn loforði um endurgreiðslu. Ljóst var að Þórunn var á engum tímapunkti borgunarmaður fyrir fénu. Karlmennirnir reyndust ekki hafa vitað hvor af öðrum.

Sólarlandaferðir og falskar tennur

Þórunn hafði áður komist í kast við lögin og verið dæmd í skilorðsbundið fangelsi fyrir hlutdeild í skjalafalsi árið 1987. Hún fékk aftur dóm fjórum árum seinna og þá fyrir fjársvik. Það mál var að langmestu leyti svipað því sem síðar varð. Þórunn var dæmd fyrir að nýta sér bágindi og einstæðingsskap sjötugs manns til að hafa af honum fé og skrifa upp á fjárhagsskuldbindingar. Féð nýtti hún í meðal annars í sólarlandsferð, falskar tennur og menntun sonar síns.

Svikin sem Þórunn var dæmd fyrir 2001 virðast hafa verið vel undirbúin. Hún hafði samband við Bændasamtök Íslands og óskaði eftir upplýsingum um roskna einstæða bændur undir því yfirskini að hafa hug á að ráða sig sem ráðskonu. Hún hafði síðan samband við þá í gegnum síma og virðist hafa höfðað til einmakaleika þeirra og félagslegrar einangrunar. Þórunn sagði mönnunum dapurlegar sögur af sér og sínum sem urðu til þess að vekja samúð hjá mönnunum sem vildu hjálpa fátæku konunni sem hafði þurft að þola svo mikið. Hún sagði frá veikindum barna sinna, dýrum aðgerðum á erlendum sjúkrahúsum og jafnvel uppdiktuðum útfararkostnaði sömu barna.

Tapað fé

Samtals varð Þórunn sér úti um 56 milljónir króna með þessum hætti. Langstærstur hluti var í formi reiðufés. Fórnarlömbin voru treg til að bera vitni og sagðist DV í fréttaskýringu 2001 hafa öruggar heimildir fyrir því að fórnarlömb Þórunnar hefðu verið mun fleiri en ákært var fyrir. Svo virðist sem skömm hafi orðið til þess að menn kærðu sig ekki um að viðurkenna að hafa orðið fyrir barðinu á svikamyllu Þórunnar auk þess sem vonlítið þótti að sækja hið glataða fé.

- Auglýsing -

Fórnarlömb sín fann Þórunn allstaðar á landinu og tók DV saman nokkur þeirra á sínum tíma:

  • Sjötíu og fjögurra gamall einbúi á Vopnafirði lét Þórunni í té 14,9 milljónir króna á átta árum, þar af sex milljónir 1999.
  • Sextíu og tveggja ára gamall bóndi í Borgarbyggð lánaði Þórunni 150 þúsund krónur árið 2000.
  • Sjötíu og sjö ára gamall bóndi í Austur- Húnavatnssýslu lét Þórunni hafa 8,3 milljónir króna á fjórum árum, þar af 3,4 milljónir árið 1999.
  • Áttatíu og þriggja ára gamall einbúi á Húsavík lét Þórunni í té 1,1 milljón í tveimur greiðslum árin 1996 og 1998.
  • Sextíu og sjö ára gamall einbúi á Skagaströnd lét af hendi 3,2 milljónir til Þórunnar á átta árum, þar af 1,2 milljónir á árinu 2000.
  • Sjötutíu og þriggja ára gamall einstæðingur í Vesturbæ Reykjavíkur lét Þórunni í té 23,6 milljónir á fjögurra ára tímabilinu 1996 til 2000. Hann ljáði henni svo og börnum hennar einnig veð í fasteign sinni til tryggingar lánum.

Þórunn var einnig ákærð fyrir að hafa haft eina og hálfa milljón króna af sjötíu og sex ára gömlum Reykvíking og að hafa ásamt syni sínum fengið tæplega níræðan Seltyrning til að veðsetja íbúarherbergi sitt til tryggingar skuldabréfaláni upp á 1,250 þúsund krónur.

Höfðu einhverjir haft á orði að Þórunn hefði merkilega mikið fé handa á milli þegar til þess væri litið að mánaðartekjur hennar voru 77 þúsund krónur á þessum tíma.

- Auglýsing -

„Þurfti að greiða skuldir“

Mörg fórnarlambanna hitti Þórunn aldrei og fór samskiptin alfarið fram í gegnum síma. Hún ku þó hafa heimsótt fórnarlambið á Húsavík og fór reyndar margoft til Vesturbæingsins sem hún hafði hvað mest af. Eitt af þeim vitnum sem fram komu sögðu að þar hefði verið um að ræða ævisparnað einstaklega aðsjáls einbúa sem hefði nurlað hverri krónu saman. Aldrei fengust skýringar á með hvaða fagurgala Þórunn hafði af manninum féð né af hverju hann féll síðar frá bótakröfu.

Þórunn lagði sig í líma við að forðast fjölmiðla og fór fram á að réttarhöldin væru lokuð en ekki var orðið við því. Sonur Þórunnar, sem einnig var kærður í málinu, réðst síðar ásamt systur sinni að ljósmyndara DV sem hugðist ná mynd af Þórunni í húsnæði Hérðasdóms.

Kærunni á hendi syni Þórunnar var síðar vísað frá dómi.

Aðspurð um ástæður fjársvikanna sagði Þórunn fyrir dómi: „Ég þurfti að greiða skuldir og borga fyrir viðhald á húsnæði“.

Þórunn lést hálfníræð árið 2019.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -