Fjórir frægustu kvenleikstjórar samtímans.
Kvikmyndabransinn er algjört karlaveldi; karlar reka framleiðslufyrirtækin, vinna flest verðlaun, fá betur borgað fyrir leik sinn í kvikmyndum og svona mætti lengi telja. Það hallar sérstaklega á kvenkynsleikstjóra. Ein skýringin á þessu er að konur eru ekki meðvitaðar um fulltrúa sína innan þessarar stéttar og átta sig því ekki á að þetta sé mögulegur starfsferill fyrir þær. Við viljum því fjalla um fjóra frægustu kvenleikstjórana í bransanum um þessar mundir.
Kathryn Bigelow
Einn frægasti kvenleikstjóri samtímans er Kathryn Bigelow (á myndinn hér að ofan). Hún var lengi gift öðrum frægum leikstjóra, James Cameron, sem leikstýrði meðal annars Titanic. Kathryn er þekkt fyrir fremur karllægar kvikmyndir svo sem Zero Dark Thirty og Point Break og var fyrsta konan til að vinna Óskarsverðlaun fyrir leikstjórn kvikmyndarinnar The Hurt Locker árið 2008.
„Ef það er einhver mótstaða gegn því að konur séu að gera kvikmyndir þá kýs ég að leiða hana alveg hjá mér af tveimur ástæðum: Ég get ekki breytt kyni mínu og ég þverneita að hætta að gera kvikmyndir.“
________________________________________________________________
Sofia Coppola
Það má með sanni segja að leikstjórn sé Sofiu Coppola í blóð borin en hún er dóttir leikstjórans fræga Francis Ford Coppola sem á meðal annars heiðurinn að myndunum um Guðföðurinn. Hún vann Óskarsverðlaun árið 2004 fyrir handritið að Lost In Translation og hún var einnig tilnefnd fyrir leikstjórn sömu myndar. Sofia fékk einnig þann mikla heiður að fá Gullpálmann fyrir leikstjórn á kvikmyndahátíðinni í Cannes en hún er aðeins önnur konan til að hljóta þau verðlaun og fyrsta bandaríska konan.
„Meðalmennska og miðjumoð er það versta sem ég get hugsað mér. Það er miklu áhugaverðara að fá sterk og afgerandi viðbrögð og að það sé blanda af fólki sem ýmist fílar myndina eða fílar hana ekki. Þannig verða til samræður.“
________________________________________________________________
Jane Campion
Fyrir um það bil tveimur áratugum var Jane Campion aðalkonan í leikstjórabransanum. Hún byrjaði að reyna fyrir sér í heimalandi sínu, Ástralíu, og sló svo í gegn með myndinni The Piano sem fjallaði um mállausan píanóleikara. Hún var aðeins tilnefnd til Óskarsverðlauna en vann hins vegar Gullpálmann fyrst kvenna fyrir þá mynd.
„Ég myndi svo gjarnan vilja sjá fleiri kvenleikstjóra því þær standa fyrir helming mannkyns sem fæddi allan heiminn. Ef þær eru ekki að skrifa og leikstýra þá munum við hin ekki fá að heyra alla söguna.“
________________________________________________________________
Catherine Hardwicke
Þó að hún sé eflaust þekktust fyrir að hafa leikstýrt fyrstu, og bestu, Twilight-myndinni þá er Catherine Hardwicke mest metin fyrir leikstjórnarlega frumraun sína, Thirteen, sem er hrá og átakanleg þroskasaga. Hún hefur mikinn áhuga á að segja sögur kvenna og ein af nýrri myndum hennar er fallega vináttumyndina Miss You Already.
„Ég hef setið fundi þar sem voru bókstaflega tólf reiðir karlar í fundarherbergi og ég. Þegar hver einasti þeirra skaut niður hugmynd mína stóð ég samt bara fastar á mínu.“
Texti / Hildur Friðriksdóttir