„Ég er búinn að vera mjög hugsi yfir umræðunni undanfarna daga og stíg þess vegna fram til að gera mín reikningsskil,“ segir Björn Ingi Hrafnsson í samtali við Mannlíf. Hann segir að það væri ekki heiðarlegt að þegja bara og vona að þetta gangi yfir.
Eins og alþjóð veit hefur mikil umræða skapast í samfélaginu undanfarna daga um samskipti kynjanna og áreiti sem konur hafa orðið fyrir af hálfu karlmanna. Hefur þetta verið kallað önnur #metoo bylting og fór hún af stað eftir að Mannlíf opnaði umræðuna í tengslum við meint brot Sölva Tryggvasonar fjölmiðlamanns.
Fjölmargar konur hafa undanfarið sagt frá ofbeldi eða áreiti sem þær hafa orðið fyrir í samfélaginu á undanförnum árum. Meðal þeirra sagna eru sögur um að Björn Ingi hafi misnotað valdastöðu sína sem ritstjóri og útgefandi gagnvart kvenkyns starfsmönnum og áreitt þær með óviðeigandi hætti í einhverjum tilvikum.
Björn Ingi segir þessa umræðu mikilvæga og hann vilji leggja sitt af mörkum með því að stíga fram og ræða sinn þátt í slíkum aðstæðum og áfengisvandamál sem hann hafi glímt við um nokkurra ára skeið og náð loks bata fyrir tveimur árum. Hann segir að það sé í anda AA-fræðanna að gera reikningsskil undanbragðalaust, en fara ekki í felur eða bjóða upp á ódýrar afsakanir eða afneitun, þótt það sé vitaskuld freistandi og liggi að mörgu leyti í mannlegu eðli.
„Það er sagt að sannleikurinn geri menn frjálsa, svo það er best að vera bara maður sjálfur. Og viðurkenna þegar maður er ekki í lagi og taka sig á. Ég náði sem betur fer að sigrast á þessum sjúkdómi og þakka fyrir það á hverjum degi að vera ekki lengur á þessum vonda stað. Að segja og gera hluti sem maður sér eftir; muna ekki eftir öllu sem gerðist kvöldið áður eða verða sér til skammar með framkomu. Koma af fjöllum þegar maður heyrir eitthvað sem maður sagði kvöldið áður, alveg út úr heiminum. Allir alkóhólistar þekkja þessa glötuðu tilfinningu og ég náði með Guðs hjálp og góðra manna að komast á annan og betri stað. Að halda sér þar er mikil vinna sem á sér stað á hverjum degi, en þannig getur maður verið heilbrigður og til staðar fyrir fólkið sitt og sjálfan sig. Ég tek bara einn dag í einu og þakka fyrir að sofna allsgáður og án þess að vakna með kvíðahnút í maganum. Ég hvet alla sem eiga við þetta vandamál að stríða að leita sér hjálpar, því ekki er drykkjan aðeins slæm fyrir mann sjálfan og allt fólkið manns, heldur hefur þetta víðar áhrif og það sem umræðan undanfarið hefur sýnt, er að karlmönnum ber að koma betur fram við konur . Ég var því miður kominn í þá stöðu að vera fulli leiðinlegi gaurinn og þar vildi ég ekki vera. Ég vil aldrei fara aftur í það hlutverk. Ég viðurkenndi vanmátt minn og leitaði mér aðstoðar og fékk hana hjá SÁÁ og félögum mínum í AA-samtökunum,“ bætir Björn Ingi við.
Hann segir að vandamál daglegs lífs séu flókin og oft erfið. Fólk sé undir miklu álagi í einkalífi og starfi og verkefnin virðist óyfirstíganleg. Þá sé þekkt leið að deyfa tilfinningar sínar með áfengi eða öðrum hugbreytandi efnum; flýja raunveruleikann og kenna öllum öðrum um það sem miður fer. Hann hafi engin undantekning verið á því, en honum hafi orðið ljóst í bataferlinu að það sé rangt að allt hafi verið öðrum að kenna. Fyrsta skrefið sé að byrja á sjálfum sér, játa eigin bresti og viðurkenna að maður hafi verið á rangri braut. Með því að einbeita sér að sjálfum sér og takast á við eigin bresti eftir andlegum leiðum hafi hann hætt að leita að ódýrum afsökunum eða kenna öðrum um.
„Það er svo skrítið, að stundum er sagt að flestum finnist erfiðara að breyta sjálfum sér en öllum heiminum og það er mikið til í því. En ég vildi breyta mér; ég vildi ekki vera fulli leiðinlegi gaurinn á barnum eða í partýinu og vinn í því daglega, með því að hreyfa mig, með því að íhuga og fara með bænir, þar á meðal Æðruleysisbænina, þar sem lögð er áhersla á að æðruleysi sé óttaleysi. Guð er beðinn um að gefa manni æðruleysi til að sætta sig við það sem maður fær ekki breytt, kjark til að breyta því sem maður getur breytt og vit til að greina þar á milli.“
Björn Ingi segist skammast sín fyrir margt sem hann hafi sagt og gert undir áhrifum og vill biðja alla þá afsökunar sem hann hafi sýnt óviðeigandi hegðun undir áhrifum eða sem virkur alkóhólisti. Maður sé ekki bara alkóhólisti fullur, heldur alltaf. Öll hegðun sé því marki brennd. Hann vilji líka biðja fjölskyldu sína afsökunar og hann segist vinna í því að fyrirgefa sér og þakka fyrir batann á hverjum degi, í stað þess að rífa sig niður og vera fastur á vondum stað. Hann segir að áfengisvandamálið hafi sundrað allt of mörgum fjölskyldum hér á landi og um allan heim.
„Við getum ekki breytt öðrum, jafnvel þótt við óskuðum þess, en maður breytist bara ef maður er tilbúinn til þess sjálfur. Maður fattar ekki bara allt í einu einn daginn að maður sé alkóhólisti. Maður er búinn að vita það lengi og reyna að hætta. Taka viku- eða mánaðarhlé hér og þar, stjórna drykkjunni. Það er vonlaust ef maður er alki. Maður ræður engu við þær aðstæður. Það er fíknin sem ræður. Við getum ekki heldur breytt fortíðinni eða framtíðinni og núið er það eina sem við höfum. Ég hef sýnt konum óviðeigandi hegðun blindfullur og vitlaus og það er ömurlegt. Ég vil segja það hér, en ekki víkjast undan því. Og ég bið þær einlæglega afsökunar. Það var erfitt og sársaukafullt að viðurkenna það, en jafnframt algjörlega nauðsynlegt. Ég hvet aðra karlmenn, því þeir eru margir, sem hafa svipaða sögu að segja að stíga fram og taka ábyrgð og biðjast afsökunar. Vinna í eigin brestum og vandamálum. Og einnig konur sem þannig koma fram við karlmenn. Hvort heldur sem er. Við viljum ekki vera þarna og það er hægt að takast á við vandamál sín og verða betri maður. Það er enginn ósigur fólginn í því að viðurkenna að maður sé ófullkominn og gallaður. Við erum það öll. En það er slæmt að horfast ekki í augu við það og halda sínu striki áfram, enda þótt maður viti að það sé ekki í lagi og valdi sárindum,“ segir hann ennfremur.
Björn Ingi á Viljanum, eins og hann er gjarnan kallaður, segir að það sé frelsi að tjá sig með þessum hætti þótt það sé erfitt. Hann segist verða að viðurkenna eigin misgjörðir, annars sé hann ekki alkóhólisti í bata. Hann sé fjögurra barna faðir, leggi áherslu á fjölskylduna og þess vegna verði hann að taka ábyrgð. Og það verði aðrir að gera líka, eigi þessi umræða nú að skila árangri. „En ég get bara byrjað á mér. Ég ræð ekki því hvað aðrir gera. Ég gerði mistök og ég sé eftir þeim. Ég vil leggja mig allan fram um að vera betri útgáfa af sjálfum mér í framtíðinni. Þetta er barátta, einn dag í einu,“ segir hann.