Föstudagur 22. nóvember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Brúðkaupsferð Spánarhjóna breyttist í martröð: „Grínlaust, við förum aldrei aftur til Íslands“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Spænsk hjón sem hugðust fagna 25 ára brúðkaupsafmæli hér á landi segja ferðalagið hafa breyst í martröð þegar þau voru stöðvuð við landamæraeftirlit í Leifsstöð og meinað að koma inn í landið vegna nýrrar sóttvarnarreglugerðar sem tók gildi þann 7.maí síðastliðinn. Hjónin höfðu gert ráð fyrir að dvelja í þrjár vikur hér á landi en voru þess í stað flutt í lögreglufylgd á sóttvarnarhótel og gert að yfirgefa landið sólarhring síðar.

Í samtali við spænska fréttamiðilinn La Razon rekja hjónin Conchi og Jordi raunir sínar en það var langþráður draumur beggja að fagna brúðkaupsafmælinu á Íslandi.

Segja aðra farþega hafa farið í gegn

Þau segjast hafa farið eftir fyrirmælum íslenskra sóttvarnaryfirvalda í einu og öllu við undirbúning ferðarinnar. Þau fóru í skimun, höfðu tekið á leigu íbúð sem uppfyllt skilyrði varðandi sóttkví og voru búin að fá strikamerki í símann til að sýna á landamærunum.

Þegar hjónin lentu í Keflavík þann 8.maí. síðastliðinn tók við COVID-19 sýnataka (PCR-próf). Conchi segir þau hafa verið full eftirvæntingar að lokinni sýnatökunni en á næstu eftirlitsstöð kárnaði gamanið þegar lögreglumenn ávörpuðu þau og tjáðu þeim að þau mættu ekki koma inn í landið, samkvæmt nýrri reglugerð taki gildi á landamærum Íslands daginn áður, þann 7. maí s.l.

Með umræddri reglugerðarbreytingu hefur skilgreining hááhættusvæða áhrif á hverjir þurfa að sæta sóttkví í sóttvarnahúsi eða ekki við komuna til Íslands. Farþegar sem koma frá landi eða svæði þar sem nýgengi smita er 700 eða meira þurfa skilyrðislaust að fara í sóttkví í sóttvarnahúsi.

- Auglýsing -

Conchi segir það furðulegt að þau hjónin hafi verið einu farþegarnir úr þessi tiltekna flugi sem voru stöðvuð. „Við vorum stoppuð en á sama tíma horfðum við á restina af farþegunum fara í gegnum flugvöllinn án nokkurra vandkvæða og halda síðan upp í rútu sem flutti þá niður í miðborgina.“

Hún segir þau hjónin hafa gert ráð fyrir að eyða fyrstu fimm dögunum á Íslandi í sóttkví, eins lög gera ráð fyrir, og þau hafi verið fyllilega undirbúin fyrir það. „Við ætluðum að sinna fjarvinnu og framlengja dvölina um leið.“ Þá undrast Jordi að þeim hafi verið leyft að ferðast til Íslands þrátt fyrir þessar nýju reglur. „Okkur var ekkert sagt áður en við stigum upp í flugvélina, eða dagana á undan.“

Upplifðu sig eins og „glæpamenn“

- Auglýsing -

Hjónin lýsa því hvernig þau voru þvínæst flutt í lögreglufylgd á sóttvarnarhótel.

„Við vorum þegar búin að leigja íbúð, en það var ekkert hlustað á það,“ segir Conchi. Hún segir lögreglumenn hafa fylgt þeim alla leið að hótelherberginu, þvínæst lagt hald á öll ferðagögn og ekki afhent þau aftur fyrr en sólarhring síðar, með því skilyrði að þau hjónin færu heim til Spánar daginn eftir. Í millitíðinni hafi tveir lögreglumenn vaktað herbergið og segjast hjónin hafa upplifað sig eins og glæpamenn. Þau hafi þó ekki þorað annað en að hlýða.

Hjónin segjast hafa haft samband við spænska konsúlinn í von um að bjarga Íslandsferðinni. Hann hafi verið boðinn og búinn til að hjálpa en mætt lítilli samúð hjá íslenskum yfirvöldum. „Hann reyndi, en það var ekki hlustað á hann,“ segir Conchi.

Hjónin segja draumaferðina hafa breyst í martröð og vakið hjá sér andúð á Íslandi. „Grínlaust, við förum aldrei aftur til Íslands.“

 

Texti: Auður Ösp Guðmundsdóttir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -