„Þegar ég var í kringum þrettán ára aldurinn fór ég að taka eftir því að ég var farin stórauka það að vera í kvenmannsfötum og mála mig. Mér fannst það bara mjög þægilegt og var svo sem ekkert að pæla í hvort ég væri trans eða ekki,“ segir Þórhildur Sara Sveinbjörnsdóttir sem bíður eftir að hefja hormónaferli á næstu dögum eða vikum.
„Ég fór síðan að hugsa meira út þetta og í september í fyrra kom ljósaperumómentið og ég vissi nákvæmlega hvað ég vildi og þyrfti að gera. Það var mikill léttir“.
Fékk ekki stuðning foreldra
Þórhildur Sara segir vini sína hafa sýnt sér mikinn stuðning og vera jákvæða fyrir umbreytingarferlinu sem nú er að fara af stað. Fjölskyldan var aftur á móti lengur að átta sig og stendur það ferli yfir enn.
„Frænka mín, sem má kannski kalla mjög frædda, skildi þetta reyndar mjög vel en mamma var ekki alveg að taka þessu fyrst verð ég að segja. Síðar fór ég með mömmu og pabba á fundi með transteyminu og þá fengu þau aðeins meiri og betri útskýringar á hvernig þetta virkar allt saman“.
„Það gerist síðan síðasta laugardag, einmitt á þrítugsafmælinu mínu, að foreldrar mínir sögðust vera reiðubúin að fara milliveginn“.
Aðspurð um hvað millivegurinn feli í sér segir Þórhildur að í sínu tilfelli felist það í nafngiftinni.
„Ég mætti máluð í kjól og hælum og það var ekkert vandamál en þau eru ekki reiðubúin að kalla mig mig mínu rétta nafni heldur vilja þau nota eitthvað áfram það nafn sem mér var gefið sem dreng í æsku. Þau eru einfaldlega ekki reiðubúin að skipta því út strax, þangað til verða kannski notuð gælunöfn og annað slíkt. Nafngjöf foreldra til barns er mjög persónuleg“.
Þórhildur er áberandi róleg og yfirveguð en getur þó ekki leynt spenningi sínum yfir að hefja hormónameðferð. Hún segir að fljótlega eftir að hún hefjist muni verða breytingar á líkama hennar.
„Ég hef heyrt að fitujöfnunin í líkamanum breytist, ég fæ sennilega stærri mjaðmir og stærri brjóst. Húðin verður mýkri og betri og röddin mun eitthvað aðeins mýkjast meira upp”.
Þórhildur hefur þegar hafið undirbúning að breyttri tóntegund með aðstoð talmeinafræðings.
„Sjálf er ég dimmrödduð en í tímunum er mér kennt að fara á tón sem mér finnst þægilegur og vinna mig síðan hægt og rólega upp á næsta stig sem mér finnst þægilegt”.
Langur biðlisti
Þórhildur gerir ráð fyrir tveimur til þremur árum á hormónum áður en hægt er að skoða í að fara í aðgerð og fara hugsanlega á biðlistann sem henni skilst að sé afar langur og því ómögulegt að segja hvenær að henni kemur.
„En ég ætla alla leið! Alveg hundrað prósent! Ég er ógeðslega spennt fyrir þessu. Ég er farin að versla meira í kvennmannsdeildum verslana, get leyft mér að finna minn eigin stíl og vera loksins ég eins og ég á að vera.“
Þórhildur heldur úti YouTube rás þar sem hún kennur förðun undir nafninu Sapphire Makeup. Hún er sjálfmenntuð en hefur farðað ættingja og vini fyrir viðburði. Hún neitar ekki að sé finnist gaman að fara alla leið í meiköppi.
„Ég auðvitað var og er dragdrotting og þar liggja styrkleikar mínir en ég get alveg tónað mig og málað fyrir afmæli og brúðkaup“.
Þórhildur ólst upp í líkama drengs en kveðst ávallt hafa verið kvenleg í allri framgöngu. Vegna þessa varð hún fyrir heiftarlegu einelti frá þriðja bekk og út alla grunnskólagönguna. Hún var bæði beitt andlegu ofbeldi svo og líkamlegu. Þórhildur er yfirveguð og vill lítið úr því gera en kallar eftir breytingum.
„Enn þann dag eru fordómar og störur. Ég fór til dæmis dressuð út síðast í gær og það var bæði starað og hvíslað þar sem ég gekk um. Þetta er af því að fræðslan er ekki nógu mikil, hún þarf að vera margfalt meiri“.
Orð geta sært
Persónulega myndi ég vilja sjá sérstakan hinsegin áfanga í skólum til að stórauka þekkingu á hvað má segja og hvað er aftur á móti meiðandi að segja. Það skiptir svo miklu máli hvernig hlutirnir eru sagðir. Orð geta sært. Aðspurð um hvernig hún hafi tekið á einelti og störum á lífsleiðinni segist Þórhildur einfaldlega alltaf reynt að vera jákvæð.
„Það er eins og RuPaul [Innskot blaðamanns: Heimsþekkt bandarísk dragdrottning] hefur alltaf sagt, þú getur ekki sýnt ást ef þú elskar ekki sjálfa þig.“
Umræðan um sundstaðina kemur upp spjallinu.
„Það er að verða meira um að það sé aðstaða fyrir fólk, sérklefar og svoleiðis, en má vera mun meira. Ég bý í Vesturbæ Reykjavíkur og fór tvisvar í Vesturbæjarlaugina áður en sérklefarnir opnuðu og þurfti því að fara í karlaklefann. Þar leið mér ekki vel og alls ekki eins og ég væri partur af heildinni. Það mega fleiri sundstaðir taka núverandi aðstöðu í Vesturbæjarlauginni til fyrirmyndar,“ segir Þórhildur Sara að lokum og ætlar að halda jákvæð inn í sumarið, á þeirri vegferð sem henni var lögð, og hún hefur nú ákveðið af feta alla leið.