Fyrsta ástin er flókið fyrirbæri sem engu að síður er svo freistandi að fanga á hvíta tjaldinu.
Hér eru nokkrar ljúfsárar og yndislegar myndir um fyrstu ástina.
Algjörar andstæður
Í Spectacular Now (sbr. mynd hér að ofan) er sagt frá Sutter Keely sem lifir í núinu og er ekkert mikið fyrir það að gera plön fyrir framtíðina. Hann er á síðasta ári í framhaldsskóla, heillandi og vinamargur, miðdepill athyglinnar í veislum, elskar að vinna í fatabúðinni og svo framvegis – en hann er líka efnilegur alkóhólisti og vískíflaskan er aldrei langt undan. Eftir að kærastan segir honum upp fer hann á fyllerí og vaknar í ókunnugum garði þar sem Aimee Finecky stendur yfir honum. Hún er öðruvísi en þær stelpur sem hann á að venjast, sannkölluð „góð stelpa“ sem leggur sig fram í skóla, á sér drauma um framtíðina og hefur aldrei átt kærasta. Þrátt fyrir að vera svona ólík ná þau merkilega vel saman og hafa áhrif hvort á annað, bæði góð og slæm.
Skeleggur strákur
Skondna kvikmyndin Submarine segir frá hinum 15 ára gamla Oliver Tate en hann á sér tvö meginmarkmið: að missa sveindóminn fyrir næsta afmælisdag og rústa sambandi móður sinnar við elskhuga sinn. Oliver er bráðþroska ungur strákur og rembist við að auka vinsældir sínar í skólanum. Einn góðan veðurdag verður hin dökkhærða fegurðardís, Jordana, skotin í honum og hann ákveður að hann ætli að verða besti kærasti í heimi til að tryggja að hún haldi áfram að vera hrifin af honum. Á sama tíma er hjónaband foreldra hans í molum og ekki bætir úr skák þegar fyrrum kærasti móður hans flytur inn í húsið við hliðina. Oliver leggur á ráðin um það hvernig hann geti látið foreldra sína vera áfram saman. Lúmskt skemmtileg bresk kvikmynd þar sem hinn ungi leikari Craig Roberts ber af.
Sorgleg en falleg
Það er ekki hægt að fjalla um fyrstu ástina og þroskasögur án þess að tala um My Girl. Þar kynnumst við Vödu Sultenfuss sem er heltekin af dauðanum. Móðir hennar er látin og faðir hennar rekur útfararstofu. Hún heldur að hún sé ástfangin af enskukennaranum sínum og skráir sig meira að segja í ljóðanámskeið til að ganga í augun á honum. Besti vinur hennar, Thomas J., er algjör ofnæmispési. Hann er yfir sig ástfanginn af Vödu og tilbúinn til að gera hvað sem er fyrir hana. Vada reiðist þegar faðir hennar ræður förðunarfræðing á útfararstofuna og hrífst af henni. Hún gerir allt hvað hún getur til að skemma fyrir þeim. Eins og flestir vita er endir myndarinnar mjög sorglegur og það er nauðsynlegt að vera með tissjúkassa við höndina þegar maður horfir á þessa.
Flókin ást
Það er nógu erfitt og flókið að verða skotinn í fyrsta skiptið þó manneskjan sem maður er skotinn í sé ekki vampýra í þokkabót. Í sænsku myndinni Låt den rätte komma in kynnumst við Oskari, 12 ára gömlum strák í Stokkhólmi sem er lagður í einelti í skólanum og foreldrar hans láta hann alveg afskiptan. Líf hans breytist þegar hann kynnist Eli sem er heldur betur sérstök stúlka. Hún þolir illa sólskinið, fúlsar við flestum mat og svo þarf að bjóða henni sérstaklega inn í herbergi. Hann fellur engu að síður fyrir henni og hún gefur honum styrk til að standa með sjálfum sér. En þegar hann uppgötvar að hún þarf að drekka mannablóð til að lifa neyðist hann til að hugsa sinn gang upp á nýtt.
Sannkallað ævintýri
Á eyjunni New Penzance búa aðeins örfáar hræður auk þess sem þar eru reknar sumarbúðir. Myndin Moonrise Kingdom fjallar um samband 12 ára stráks, Sam, og stelpu, Suzy, sem hafa verið pennavinir í eitt ár. Þau verða ástfangin í gegnum bréfaskriftirnar og gera með sér leynilegt samkomulag um að flýja saman út í óbyggðirnar. Suzy býr á eyjunni með fjölskyldu sinni en Sam kemur árlega í Ivanhoe-sumarbúðirnar. Á meðan yfirvöld og hinar ýmsu stofnanir leita þeirra sækir skuggalegur stormur í sig veðrið þannig að á endanum er hið sallarólega samfélag litlu eyjunnar komið á annan endann.
Texti / Hildur Friðriksdóttir