Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

MYNDBÖND – Sprengjur springa nærri Kristínu sem er föst í stríði með ungar dætur sínar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég hélt að það yrði rólegur dagur í dag og að ástandið væri að lægja, en svo virðist ekki vera. Við erum búin að hlaupa fjórum sinnum í loftvarnarbyrgið á síðastliðnum klukkutíma. Ég veit ekki hvort þú sérð þetta en við erum að horfa á þessar sprengjur springa hérna núna. Þetta er beint fyrir ofan hausinn á mér,“ segir Kristína Ösp Steinke í viðtali við Mannlíf í morgun. Kristína sendi upptökur sem hún tók af átökunum á meðan að samtalið átti sér stað.

Flúðu ISIS

Kristína, eða Ina eins og hún er kölluð, hefur búið í norðurhluta Mósambík undanfarin þrettán ár ásamt ísraelskum eiginmanni sínum, Naor Zinger og þrem­ur dætr­um sem eru þriggja, fjögurra og sex ár. Þar reka þau fyrirtæki sem borar eftir vatni.

Bestu vinir telpnanna er nágrannar þeirra, flóttafólk undan ISIS tengdum uppreinsarmönnum.

Stríð hefur geisað á svæðinu frá 2017 en ástandið gjörbreyttist þegar hryðjuverkasamtökin ISIS blönduðu sér inn í stríðið með stórauknu ofbeldi og vopnavæðingu. Nýverið tóku uppreisnarmenn með aðstoð ISIS yfir borgina Palma sem er næsta borg við Pemba þar sem Ína býr ásamt fjölskyldu sinni. Sáu þau ekki annan kost í stöðunni en að flýja. Þau ákváðu að fara til heimalands Naor, Ísrael, en það gekk brösuglega að fá leyfi fyrir Ínu og börnin að fá leyfi þar sem þau eru íslenskir ríkisborgarar. Það tókst þó á endanum og komst fjölskyldan til foreldra Naor suður af Tel Aviv. Þau kusu að fara til Ísrael frekar en Íslands til að fjölskyldan gæti staðið saman og hugað að næstu skrefum til að koma starfsfólkinu sínu í Mósambík, sem Ína kallar hina fjölskylduna sína, til hjálpar.

Fólk er traumatiserað

Eftir nokkra friðsæla daga í Ísrael hélt eiginmaður Ínu aftur til Mósambík til að ganga frá húsnæði þeirra og fyrirtæki og koma starfsfólkinu í skjól í suðurhluta landsins. Þann sama dag hófust árásirnar og friðsældin breyttist í martröð. Ína segir að mest sé um að ræða sprengju frá Ísraelsher ætlaðar til að stoppa eldflaugar frá Palestínu.

- Auglýsing -

„Við erum á öruggu svæði, þannig séð þar sem Ísrael er bara einhverjir tveir ferkílómetrar á stærð en þetta er alltaf fyrir ofan höfuðið á manni. Viðvörunarkerfið í okkar hverfi fór þó ekki af stað í morgun, núna er verið að skjóta á nágrannahverfin.”

Það heyrist skýrt í látunum að baki Ínu á meðan hún talar til friðsæla Íslands. Öðru hverju hrekkur Ína við og biður blaðamann að hinkra, eitthvað sé að gerast.

„Það er ekkert til sem heitir eðlilegt líf þessa dagana og fólk er traumatiserað. Við sjáum palestínskar mæður gráta börnin sín í sjónvarpinu á meðan að sprengjurnar falla. Þar eru óhugnanlegustu og ógeðslegustu hlutir í heimi að gerast og það er ekki bara ég sem veit það, það vita það allir hér í kringum mig. Þetta er mjög sorglegt, mjög ömurlegt og ástand sem verður að stöðva. Þetta er ekki manneskjum boðlegt.”

- Auglýsing -
Öruggasti staðurinn til að sofa á þessa dagana er gangurinn.

Ína segir aðstæður hræðilegar fyrir báða aðila. „Þetta er ekki fótboltaleikur, ekki spurning um tvö lið þar sem annað spilar til sigurs. Andlitin á bak við þetta stríð eru falin, vopnasalar og einhverjir pólitíkusar sem sitja hvar? Í Palestínu? Ég held ekki! Þar er líka móðir með þrjú börn eins og ég og er að vona og hugsa nákvæmlega sama hlutinn, að börnin hennar séu í hættu. Það er hræðilegt að fólk þurfi að hugsa þannig. Mér er alveg sama hvert þjóðernið eða trúarbrögðin eru, við erum fyrst og fremst manneskjur.“

Daglegt líf horfið

Allt kapp er lagt á að reyna að fela ástandið fyrir börnunum eins og sést í myndskeiðinu þar sem Ína hleypur inn í loftvarnarskýlið. „Þegar það eru læti í kringum okkar reynum við að fela það fyrir börnunum með að setja á háa tónlist til að yfirgnæfa lætin í sprengjunum og láta þau hoppa um svo þau finni ekki titringin í jörðinni. En elsta stelpan mín er alveg búin að fatta það, þegar við hækkum í tónlistinni spyr hún hvar sé verið að sprengja núna. Hún er 6 ára. Þetta er ekki skemmtilegt samtal að þurfa að eiga við sex ára barn.“

Í dag er lítið eftir af því sem kalla má daglegt líf. „Við höfum til dæmis ekki farið á róló lengi. Í gær hafði verið rólegt í nokkra daga svo ég fór út að kaupa Cherioos og mjólk en þá var maður að labba á milli skýla og gæt þess að hafa alltaf eitthvað í augsýn til að hlaupa til. Í okkar hverfi höfum við 90 sek. frá því viðvörunarkerfið fer í gang og þar til eitthvað fellur. Sunnar í landinu er það 20. sek og þar ert þú alltaf inni í skýli.“

Hún segir engum líða vel, allir séu með kvíðahnút og allt snúist um árásirnar. „Þegar við keyrðum til dæmis úr afmælisveislunni minni, þar sem fyrstu árásirnar voru, beltaði ég ekki börnin því við þurfum að geta komist úr bílnum á núlleinni og falið okkur einhvers staðar.  Það er ekki eðilegt líf að vera sífellt að leita sér skjóls og get aldrei látið börnin úr augsýn.“

„Á sama tíma er þetta öruggleg ekkert á miðað við það sem er að gerast í Palestínu. Það er svo hræðilegt, hræðilegt alveg“

Ína leggur nú allt kapp á að komast úr landinu og er á bið í nokkur flug eftir helgi, bæði til manns síns Mósambík svo og annarra staða sem hún veit ekki einu sinni hverjir eru. Það gengur aftur á móti brögulegt þar sem flugvöllurinn er staðsettur í Lud, á svæði sem ástandi er sem verst og umhverfið er í ljósum logum. „Við viljum bara komast burt.”

Sorglegt og ömurlegt ástand

Ína hljómar róleg en segist ekki vera það. „Þetta er tilfinning sem maður hefur frá Mósambík, þar var maður alltaf með kvíðahnút í maganum því maður vissi aldrei hvað myndi gerast næst. Þar var herinn alltaf að æfa sig fyrir hliðina á þar sem við búum þannig að þegar sprengingarnar byrjuðu vissi maður aldrei hvort það væri herinn eða hvort ISIS var mætt á svæðið. Þetta er sama tilfinningin hér.“

Aðspurð hvort hún  telji sig öruggari í Mósambík en Ísrael segir hún svo vera. „Maðurinn minn er núna syðst í landinu að leita að húsnæði svo við getum sent eftir öllum norðan frá. Það eru 2500 kílómetrar á milli, sem er á við fjarlægðina milli Þýskalands og Portúgal, svo við erum nokkuð örugg þar. Nú er bara að vona að flugvöllurinn opni.“

„Það er ekki til nein hugsun önnur en vonin að þetta hætti, að þetta sé síðasta sprengjan. Enginn hugsar um neitt annað. Þetta er sorglegt og ömurlegt ástand,” segir Kristína Ösp Steinke í miðju sprengjuregninu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -