Íslenskt samfélag hefur heldur betur verið hreystivöllur og fjörefni er kemur að jafnréttismálum enda stórar stikur á leið okkar sem hefur gert Ísland að þeirri jafnréttisparadís sem alþjóða samfélagið telur okkur vera. Jú, við erum best og skást í heimi að mörgu leyti en fjölmargt hefur gengið ferlega hægt er kemur að jöfnum tækifærum kynjanna til að nýta sér jafnréttið. Það má segja að forgjöfin sé misjöfn og konur þurfa að sanna sig oft á dag til að komast í það sem telst flott, gott og virðingarvert eins og til að mynda í atvinnulífinu. Því er mjög mikilvægt að varpa ljósi á konur sem hafa verið öðrum hvatning og fyrirmynd en vera mjög meðvituð um að konur eiga ekki að þurfa að vera framúrskarandi til að skipta máli.
Konur heiðraðar
Veittar eru viðurkenningar til þriggja kvenna á árlegri FKA Viðurkenningarhátíð, til kvenna sem hafa verið konum í atvinnulífinu hvatning og fyrirmynd. Ferlið er þannig að FKA kallar eftir tilnefningum frá félagskonum, atvinnulífinu og almenningi sem skipuð dómnefnd metur og velur hver hlýtur FKA Viðurkenninguna, FKA Þakkarviðurkenninguna og FKA Hvatningarviðurkenninguna. Fjölmargar tilnefningar berast og það er í höndum dómnefndar að velja eina konu í hverjum flokki. Mikið rétt, það sagði enginn að þetta ætti að vera auðvelt að velja. Allt eru þetta leiðtogar á ólíkum sviðum, hversdagshetjur og þar fram eftir götunum. Þekktar og minna þekktar konur af landinu öllu sem vakið hafa athugli sem miklar fyrirmyndir í sínu nærsamfélagi og/eða á alþjóðavísu – ekki bara meðal kvenna og stúlkna.
Af hverju prýða þessar konur forsíðuna á þessu tímariti?
Ef þú ert að spá í konunum sem prýða forsíðuna á þessu FKA tímariti þá er það mikið gleðiefni að segja frá því að allt eru þetta konur sem voru í efstu sætum í flokkunum þremur á FKA Viðurkenningarhátíðinni þetta árið. Ástæðan fyrir því að þær eru þarna er sú að einhver varði tíma sínum, sinni dýrmætu auðlind í að senda inn tilnefningu. Svo einfalt er það og við hvetjum þig til að vera hreyfiafl og hafa áhrif þegar FKA opnar á tilnefningar næst.
Að lesa í neyð annarra
Svona viðurkenningar snúast um að varpa ljósi á það sem vel er gert og markmiðið er að gleðja og auka vellíðan. Skrifa konur inn í söguna og koma þeim á blað með formæðrum okkar sem ruddu brautir. Lífið er allskonar, það er í köflum og mikilvægt að átta sig á að fólk sem nær árangri á gjarnan sögu um mistök og hefur ekki endilega verið að vaða áfram í velsæld og velgengni allt lífið. Með réttu hugarfari getur mótlætið hert okkur en stundum er komið nóg og mikilvægt er að lesa í neyð annarra og passa sig á að vera ekki sama. Sama hvernig heimurinn vendist og snýst þá er mjög mikilvægt að standa með mannréttindum, gangast við öllum tilfinningum sínum en reyna að lifa í grósku og átta sig á því að það er tækifæri til að skapa sig og endurskapa og við getum öll verið fyrirmyndir.