Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-3.3 C
Reykjavik

Líkið í snjóskaflinum á Klofningsheiði

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Heiðin sem var alfaraleið og samgönguæðin á milli Flateyrar og Suðureyrar heitir Klofningsheiði. Þegar menn áttu erindi á milli þorpa áður en nútímasamgöngur hófust var þessi leið gjarnan farin. Aðeins eru um 12 kílómetra á milli þorpanna tveggja um heiðina.

Gönguhópur í Klofningsskál þar sem sviplegir atburður urðu.
Mynd Þorbjörg Markúsdóttir.

Lagt er upp frá Flateyri og göngumaðurinn fylgir gömlum, grónum vegi sem skásker hlíð Eyrarfjalls í norðuvestur upp frá þorpinu. Stefnan  er sett á Klofningsdal sem ber nafn sitt af klettinum Klofningi, sem gengur í sjó fram. Fallegt náttúrufyrirbæri með gjá sem klýfur klettinn.

Þegar komið er í um 300 metra hæð eftir vegslóðanum opnast Klofningsskálin með allri sinni grjóthörðu formfegurð. Til að komast upp á heiðina með sem léttustu móti þarf að ganga inn í botn  skálarinnar. Í norðurkrikanum er slóði upp fjallið. Þessi leið var farin að öllu jöfnu milli Flateyrar og Suðureyrar. En sagan geymir fleira en fegurðina eina. Þarna urðu seint á nítjándu öld örlagaatburðir sem skóku íslenskt samfélag, árum saman. Flateyringurinn Salómon Jónsson lét lífið með voveiflegum hætti skömmu fyrir jólin 1891. Grunsemdir komu upp um að Salomón hefði látið lífið eftir átök við Sigurð „Skurð“ Jóhannsson. Úr varð Skúlamálið eða Skurðsmálið sem enn þann dag í dag er umdeilt og hlaðið óvissu.

Fimm manns á heiði

Upphaf málsins var það að þrír Súgfirðingar áttu leið til Flateyrar. Þegar þeir héldu til baka þann 21 sesember fylgdu Flateyringarnir Sigurður Jóhannsson og Salómon Jónsson þeim. Mennirnir fimm staupuðu sig á leiðinni upp á Klofningsheiði sem skilur að Sauðanesfjall og Eyrarfjall. Ákveðið hafði verið að Flateyringarnir sneru við þegar komið væri upp á háheiðina sem er vörðuð frá Klofningsskál, yfir í Jökulbotna í um 650 metra hæð, og niður í Sunddal sem sameinast síðar Staðardal í Súgandafirði. Vitni lýstu því að Sigurður hafi verið drukkinn og lent í ryskingum við Salómon áður en leiðir skildu á háheiðinni. Salómon sneri fyrstur við og hélt áleiðis til baka, til móts við örlög sín. Sigurður kom svo einn til Flateyrar og sagði þá félaga hafa orðið viðskila. Þar sem gengið er fyrir botn Klofningsskálar reikar hugurinn til þessara löngu liðnu tíma. Staldrað er við á staðnum þar sem lík Salómons fannst. Leiðsögumaðurinn, Guðmundur Björgvinsson, lýsir staðháttum og telur að Salómon hafi farið öfugum megin við vörðu á brúninni og einfaldlega hrapað til bana. Hann trúir ekki þeirri kenningu að Sigurður hafi myrt hann.

Séð ofan í Önundarfjörð af Klofningsheiði á fallegum sumardegi.
Mynd: Ransí

Framganga sýslumanns

Á leiðinni upp úr skálinni verður fólki hugsað til þessara viðburða sem urðu fyrir 120 árum. Meint manndráp varð þó ekki eitt og sér til þess að málið fékk stóran sess í sögunni. Það var öllu heldur eftirleikurinn og framganga Skúla Thoroddsen sýslumanns. Strax eftir að Salómon fannst látinn í snjóskafli þann 22. desember kom upp kvittur um að Sigurður hefði banað honum. Yfirvöld gerðu þó ekkert með málið framan af. Líkinu var komið fyrir í útihúsi og engin raunveruleg rannsókn fór fram í fyrstu. Það var ekki fyrr en rúmri viku síðar, á gamlársdag, að læknir í þorpinu skoðaði líkið sem þá var orðið músétið. Í janúar kom svo Skúli Thoroddsen sýslumaður til Flateyrar og Sigurður var handtekinn og hnepptur í varðhald upp á vatn og brauð. Sigurður neitaði alla tíð staðfastlega að hafa orðið Salómoni að bana. Honum var því á endanum sleppt en hann sat uppi með mannorðsmissi. Meðal annars óskuðu Flateyringar eftir því að hann fengi ekki að búa í þorpinu. Handtaka hans og meðferð varð til þess að Skúli var settur af og rannsókn fór fram á meintu harðræði hans. Enn í dag er deilt um málið.

- Auglýsing -
Greinarhöfundur við vörðu á Klofningsheiði að vetrarlagi.

Ástarsorg á heiðinni

Ferðafélag Íslands hefur staðið fyrir göngum um þessar slóðir, frá Flateyri til Suðureyrar, sömu leið og örlagaatburðirnir urðu fyrir jólin 1891. Þá hefur sagan af Skúla sýslumanni og Sigurði Skurði verið rifjuð upp. Bækur hafa verið skrifaðar um viðburðina og sýnist sitt hverjum um það hvað gerðist og hvernig. Þar má nefna Dómarann og böðul hans, eftir Ásgeir Jakobsson og leikritið Uppreisnina á Ísafirði eftir Ragnar Aranalds.

Stæðilegar vörður marka leiðina frá Klofningsdal og yfir í Sunddal. Göngumaðurinn hugsar til baka í sumarblíðunni þegar hallar ofan í dalinn. Þarna geysa gjarnan hörð vetrarveður og fólk í háska ef það ferðast þegar veður eru válynd. Á síðari tímum hefur fátt fréttnæmt komið upp á þessum slóðum, enda ekur fólk nú á jafnsléttu og um jarðgöng á milli þorpa í stað þess að brjótast um heiðar og fjöll.

Óttast um unglinga

Tvisvar á síðustu 60 árum hefur verið lagt upp til leitar á Klofningsheiði. Í öðru tilvikinu hafði einstaklingur í ástarsorg lagt á fjallið að vetri til. Hann náði að leita skjóls í björgunarskýli sem var á háheiðinni og fannst þar. Seinna var það hópur unglinga sem lagði á fjallið síðdegis og hélt alla leið út á Sauðanes án þess að gera grein fyrir áformum sínum eða átta sig á því hve langan tíma tekur að ganga up fjallið og út á nesið. Það var komið myrkur og Flateyringar teknir að óttast um drengina. Björgunarsveit var kölluð út en þorpsbúum til léttis, skiluðu drengirnirnir sér um það bil sem björgunarmenn voru að leggja á fjallið. Á þessum slóðum hafa snjóflóð kostað mörg mannslíf. Snjóflóðið sem féll úr Eyrarfjalli á Flateyri 26. október 1995 kostaði 20 mannslíf.  10 karlar, sex konur og fjögur börn fórust í þeim hörmungum sem snertu alla þjóðina djúpt.

- Auglýsing -

Þann 27. október 1934 féll snjóflóð úr fjallinu ofan við Kálfeyri, skammt utan við Klofning. Þrír menn sem höfðu farið að leita kinda lentu í flóðinu og fórust allir. Lík tveggja þeirra fundust fljótlega en sá þriðji hálfum mánuði síðar. Mennirnir komu allir þrír af sama heimilinu. Slysið var mikið áfall fyrir Flateyringa.

Bær og Staður

Gangan niður Sunddal er fremur strembin. Gönguleiðin er grýtt og auðvelt að misstíga sig í skriðunum. Við blasir undurfagurt heiðarvarvatn með svönum. Kindur eru á stangli um dalinn. Falleg mynd blasir við, dálítið eins og póstkort. Þegar komið er fyrir Vatnsdalshornið blasa við bæirnir tveir í Vatnsdal. Guðmundur leiðsögumaður bendir á bæinn í norðri. „Þessi bær heitir Staður,“ segir hann og bendir svo á hinn bæinn. „Og þessi staður heitir Bær,“ segir hann og skellihlær. Þarna eru sem sagt Staður og Bær. Við göngum um hlaðið á Bæ og niður á veg. Svo göngum við sem leið liggur eftir veginum um Staðardal og fyrir fjallið Spilli. Haldið er framhjá Brjótnum, hafnarkanti sem stórskip, sem komast ekki inn í höfnina, geta lagst við. Fyrr en varir erum við komnir í þorpið og að sundlauginni þar sem ferðafólkið hvílir lúin bein eftir 12 kílómetra göngu á milli þorpa þar sem ægifögur náttúra og saga af hrikalegum atburði römmuðu inn dag sem lifa mun í minningunni.

Í heita pottinum á Suðureyri leitar hugurinn til þeirra tíma þegar Skúli sýslumaður þjarmaði að Sigurði og landið bókstaflega logaði í pólitískum deilum vegna málsins. Þetta var Geirfinnsmál síns tíma. Ennþá er allt á huldu með andlát Salómons og sama ráðgátan og fyrir 120 árum. Þeir sem ganga þessa leið ættu að kynna sér söguna áður. Víst er að enginn er svikinn af göngu um þessar örlagaslóðir.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -