Alls hafa ríflega fjögur þúsund manns gengið á topp hæsta fjalls heims Everest og er saga fjallsins mörkuð bæði sigrum og áföllum enda hafa um 200 manns látist við tilraunina við toppinn.
Fjallgöngumennirnir Heimir Fannar Hallgrímsson og Sigurður Bjarni Sveinsson náðu þeim merka áfanga að ná á toppinn á miðnætti í nótt en fjallið er 8.848 metrar. Nánar má sjá hér
Þar með eru þeir Heimir Fannar og Sigurður Bjarni tíundi og ellefti Íslendingurinn sem náð hefur toppnum. Þeir félagar ganga til stuðnings Umhyggju – félags langveikra barna.
Toppnum náð 1997
Fyrstir Íslendinga til að komast á top Everest voru þrír félagar í Landsbjörgu, Björn Ólafsson, Einar Stefánsson og Hallgrímur Magnússon sem komust á tind fjallsins að morgni 21. maí 1997 og brutu þar með blað í íslenskri fjallamennsku.
Fimm ár liðu þangað til Haraldur Örn Ólafsson komst á tindinn þann 16. maí 2002 og var það lokahluti leiðangurs hans sem fólst í því að komast á Norður- og Suður heimskautin og hæstu tinda í öllum heimsálfum. Haraldur var þriðji maðurinn í heiminum sem hafði náð að ganga á sjö hæstu tinda heims og báða pólana. Enginn hafði hins vegar unnið þetta afrek á skemmri tíma en hann. Haraldur Örn nýtti meðal annars hálftímann sem hann var á toppi Everest til að hringja og heilsa upp á Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra.
Norður og suður, afi og fyrsta konan
Eini Íslendingurinn sem hefur komist á topp Everest oftar en en einu sinni er Leifur Örn Svavarsson sem fyrst náði toppnum þann 23. maí 2013 og aftur sléttum sex árum upp á dag árið 2019. Leifur tók fyrri ferðina upp fjallið að norðanverðu . Allir aðrir Íslendingar hafa farið að sunnanverðu. Sú leið er mun vinsælli og þekking á staðháttum betri.
Ingólfur Geir Gissurarson fór á toppinn 21. maí 2013, og er hann elstur Íslendinga til að komast á Everest, fimmtugur að aldri, og jafnframt eini afinn sem skartar þeim titli hér á landi.
Afrekskonan Vilborg Arna Gissurardóttir reyndi fyrst íslenskra kvenna tvívegis að komast á tind fjallsins, árin 2014 og 2015 en varð aftur að snúa vegna mannskæðra snjóflóða þar sem Vilborg þurfti að sjá á eftir vinum og kunningjum. Vilborg Arna sagði síðar að hörmungarnar hefðu tekið mjög á hana, svo mjög að á tímabili treysti hún sér varla á Esjuna. Árið 2017 lagði hún þó af stað í þriðja skiptið og varð þar með fyrsta íslenska konan til að ná tindinum 21. maí það sama ár.
Bjarni Ármannsson og Lýður Guðmundsson náðu síðan á toppinn 23. maí 2019.
Saga sigra og áfalla
Everest er hæsta fjall jarðar. Landamæri Tíbet og Nepals liggja um hrygg fjallsins. Yfir fjögur þúsund manns hafa klifið fjallið frá því að Ný-Sjálendingurinn Edmund Hillary ásamt leiðsögumanni sínum, Tenzing Norgay, náðu tindi fjallsins fyrstir manna þann 23. maí 1953. Var þar um að ræða níundu tilraun bresks leiðangurs til að ná á toppinn.
Tölfræðin um Everest er áhugaverð. Meðal þeirra sem klifrað hafa á toppinn er blindur maður og annar fótalaus. Sá yngsti var þrettán ára og sá elsti áttræður. Par gekk í hjónaband á toppnum og hraðametið á Nepali sem fór upp úr grunnbúðum á átta tímum og tíu mínútum. Árið 1999 dvaldi Sjerpi á toppnum í 21 klukkustund án súrefnis og örtröð var á toppnum 19. maí þegar alls 234 einstaklingar náðu þangað sama dag.
Mannfjöldanum hefur fylgt mikið rusl sem safnast hefur saman á leiðum fjallsins auk þess sem líkamsleifar töluverðs fjöldi þeirra sem látist hafa á fjallinu hafa ekki fundist. Ríkisstjórn Nepal hefur hert leyfi til uppgöngu á fjallið og gert átak í því að hreinsa það. Árið 2018 var til að mynda flogið með 100 tonn af af súrefniskútum, dósum og klifurbúnaði af fjallinu.
Ekki eru þó allir á því að Hillary og Norgay hafi verið fyrstir á topp Everest og telja margir að Bretarnir George Mallory og Andrew Irvine hafi verið fyrri til, 24 árum á undan en lík Mallory fannst árið 1999 í 8.530 metra hæð. Er einna helst litið til þess að snjógleraugu Mallory hafi veriði í vasa hans sem bendir til þess að hann hafið verið á göngu að nóttu til og fallið. Hafi þeir félagar náð tindinum seinni part dags hafi þeir þurft að ganga niður um kvöldið og ekki haft þörf fyrir gleraugun.
Þetta verður þó aldrei sannreynt.