Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.4 C
Reykjavik

Sigurður á spariskónum að eldgosinu – MYNDIR – Gífurlegar breytingar í Geldingadölum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta er mikið sjónarspil,“ sagði Sigurður Bogi Sævarsson, einn næmasti blaðamaður landsins, sem lagði leið sína í Geldingadali til að sjá nýjustu útgáfu af hraunbreiðunni og eldgosinu. Sigurður Bogi var á spariskónum þegar Mannlíf ræddi við hann og Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðing og göngufélaga hans, í seinustu brekkunni upp á gossvæðið.

Sigurður Bogi Sævarsson blaðamaður og Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á bakaleiðinni.

Þeir félagar voru á bakaleið í hvössum vindi og var blaðamaðurinn orðinn frekar sárfættur eftir gönguna upp að gígunum og til baka aftur. „Hann hélt að þetta væri malbikað,“ sagði Einar og hló við. Sigurður Bogi brosti góðlátlega og taldi að hann hefði séð það svartara í gegnum tíðina. Reyndar hefur verið unnið stórvirki í vegalagningu á gossvæðið. Brattabrekka með smitkaðlinum hefur verið aflögð og vegur með þægilegum halla sker hlíðina. En það er samt hentugra að vera vel skóaður.

Tíðindafólk Mannlífs var að koma í koma í fjórða sinn á gossvæðið. Þegar upp á brúnina er komið blasir við gjörbreytt landslag frá því nokkrum vikum fyrr. Þar sem háir hraukar, hálfan dalinn fylla, flýgur um hugann stælt og staðfært. Glóandi hraunbreiðan er komin að Stóra Hrúti. Þá er hrauntaumur tekinn að renna niður í Nátthaga sem boðar ekkert gott. Þar með styttist í Suðurstrandarveg með tilheyrandi hömlum.

Það hitnar undir Stóra Hrúti. Hraunið er komið að honum og tekið að renna ofan í Nátthaga.
Mynd: Reynir Traustason

Fólk streymir sem fyrr upp að gosinu. Gömlu útsýnisstaðirnir eru komnir undir hraun. Ferðafélag Íslands hefur um árabil haldið úti ferðum á þetta svæði. Þá var gjarnan gengið um Langahrygg á Stóra Hrút og þaðan á Fagradalsfjall. Þar fer enginn um í dag nema fuglinn fljúgandi. Þar sem áður var grasi vaxin gönguleið er nú rauðglóandi hraun.

Útsýnisstaðurinn við Gamla gíg.
Mynd: Reynir Traustason

Nú liggur leiðin upp á fjallstopp. Það er sólskin og rok. Kona dettur og slasast. Björgunarfólk er eldsnöggt á vettvang. Henni er komið í sjúkrabíl og af svæðinu. Fólk með börn fikrar sig eftir fjallshryggnum og berst við að halda jafnvægi í verstu hviðunum. Skyndilega blasir Gamli gígur við. Hann er orðinn risavaxinn frá því sem áður var þegar hann dældi vinalega frá sér hrauntaumi og var kallaður ræfilslegur. Páskagígur er aftur á móti höktandi og hálflíflaus í austri. Fólk situr í skjóli í brekku í norðanverðu fjallinu, borðar nestið sitt, og horfir á þetta undur. Skyndilega gýs úr gígnum. Glóandi hraunið þeytist tugi metra til himins með tilheyrandi drunum. Svo dettur allt í dúnalogn.

- Auglýsing -

„Það líða 10 mínútur á milli,“ segir kona við okkur. Það kemur á daginn. Við sjáum hvar glóandi hrauntjörn myndast smám saman. Svo hvæsir sá gamli og hóstar eldi og eimyrju til himins. Það er ótrúlegt að upplifa þessa ógnarkrafta. Manni dettur ósjálfrátt í hug Geysir og Strokkur. En þarna þarf enga sápu til að láta hlutina gerast.

Það er stöðugur straumur af fólki á gosstöðvarnar þessa kvöldstund. Sumir eru að fara en aðrir að koma. Á bakaleiðinni spyr komufólk okkur, annað veifið, tíðinda af gosinu. „Er þetta ekki magnað?“ spyr einn. „Jú, svo sannarlega: Stórsýning á 10 mínútna fresti,“ er svarið.

Við göngum sem leið liggur niður á jafnsléttu. Vegurinn meðfram Borgarfjalli er sléttur og góður yfirferðar. Þetta er allt annað en var í árdaga gossins þegar leiðin lá um hrjóstruga slóða og háskelag brekka með smitandi kaðli var hluti leiðarinnar. Ferðalok. Að baki er níu kílómetra ganga, hlaðin ævintýrum.

- Auglýsing -

Nútíminn er mættur með öllum sínum kostum og ókostum. Á túninu sem breytt hafði verið í bílastæði kostar þúsund kall að leggja. Einkavæðing gossins er hafin. Gróðahyggjan tekur völdin. Kannski verður sett upp gjaldhlið við Borgarfjall svo landeigendur geti grætt á hamförunum og svipt förumenn frelsinu til að fara um eigið land.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -