Þann 26. maí síðastliðinn náðu þeir félagarnir Heimir Fannar Hallgrímsson og Sigurður Bjarni Sveinsson toppi Everest og það kórónuveirusmitaðir.
Segja þeir að að þeim hafi læðst sá grunur að þeir væru smitaðir.
„Í efstu búðum Everest, það er í búðum þrjú og fjögur fórum við báðir að finna fyrir hósta einkennum sem okkur fannst skrítið í ljósi þess að við höfðum báðir aðlagast afar vel á undirbúningstímanum og þar sem við vorum komnir með auka súrefni í búðum þrjú.“
Sama dag og þeir fóru af stað á fjallið fóru þeir í Covid-19 sýnatöku sem reyndist neikvæð hjá þeim báðum og fóru þeir því af stað.
Heimir og Sigurður segja að veðrið á Everest hafi verið með versta móti þetta árið, þeir hafi til að mynda þurft að dvelja fjórar nætur í búðum tvö, þar sem menn reyna yfirleitt að stoppa ekki lengur en eina til tvær nætur.
Þessi bið tók mikið á þá líkamlega og töldu þeir líkur á að þessi langi tími í svo mikilli hæð væri að koma í bakið á þeim.
„Þegar við komum í búðir fjögur á South Cole (7900 metra hæð) tók við okkur mikið veðravíti. 70-80% af tjöldunum voru ónýt og þurfti að bregðast hratt við að tjalda upp á nýtt. Að koma upp nýjum tjaldbúðum tók um þrjár klukkustundir og var orðið ljóst að hvíldin yrði engin og veður var ekki að lægja líkt og spár gerðu ráð fyrir. Í stað þess að reyna við tindinn 23. maí sl. ákváðum við að bíða til 24. maí sl. í ljósi þess að við áttum auka súrefni sem dyggði í 24 klukkustundir,“ segja þeir félagar.
Þegar þeir lögðu af stað niður voru einkennin farin að ágerast og voru þeir þá farnir að finna fyrir aukinni þreytu, hósta og óþægindum.
Í búðum tvö voru þeir báðir orðnir afar slappir og vissu þeir að þeir þyrftu að komast sem fyrst niður þar sem veður var auk heldur slæmt og því enga þyrlubjörgun hægt að fá.
Var Sigurður orðinn mjög slæmur í lungum þegar þeir hófu göngu úr búðum tvö og þurfti hann að fá súrefni.
„Þetta var erfiður dagur í gegnum Khumbu Icefall en eins og fyrri daginn tók Siggi þennan dag á hnefanum og komumst við allir heilir niður í grunnbúðir 26. maí sl.“
Þann dag fóru þeir í aðra Covid-19 sýnatöku og þá kom í ljós að báðir voru þeir smitaðir.
Sigurður og Heimir eru nú fastir í grunnbúðum Everest í einangrun. Segja þeir þó líðan sína vera betri. „Höfum það ágætt hérna og erum enn að móttaka það að hafa komist á hæsta tind heims þrátt fyrir allt mótlætið sem við höfum þurft að kljást við eins og veðurfar, meiðsl og veikindi,“ segja þeir.
Á Everest klifu þeir í söfnunarátaki sem kallast Með Umhyggju á Everest og er til styrktar Umhyggju, félags langveikra barna.
Söfnun stendur yfir til 11. júní og hægt er að fara inn á Facebook síðuna „Með Umhyggju á Everest eða á Instagram síðuna „Umhyggja“ og styrkja málefnið.