Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að láta móta og innleiða samræmt verklag fyrir heilbrigðisstofnanir vegna þjónustu við þolendur heimilisofbeldis og hefur Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur verið ráðin til verksins.
Þetta kemur fram á vef heilbrigðisráðuneytisins en skýrsla Finnborgar Salome Steinþórsdóttur, nýdoktor í kynjafræði, Heilsa og heilbrigðisþjónusta: kynja- og jafnréttissjónarmið verður höfð til hliðsjónar við mótun samræms verklags. Skýrsluna vann Finnborg fyrir heilbrigðisráðuneytið og fela niðurstöður skýrslunnar í sér mat á því hvernig heilbrigðiskerfið mæti ólíkum þörfum kynjanna ásamt tillögum að úrbótum.
Barnshafandi þolendur 16% líklegri til að missa fóstur
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að barnshafandi konur sem verða fyrir ofbeldi í nánum samböndum eru 16% líklegri en aðrar til að missa fóstur og 41% líklegri til að eiga barn fyrir tímann. Vart kemur nokkrum á óvart að ofbeldi í nánum samböndum geti haft alvarleg áhrif á andlega heilsu þolenda.
Í skýrslunni kemur þá einnig fram að heimilisofbeldi hafi áhrif á heilsu og líðan barna sem alast upp við slíkar aðstæður en þau börn séu í aukinni hættu á að þróa með sér raskanir auk þess að búa við skertari lífsgæði en önnur börn.
Drífa mótar og innleiðir samræmt verklag fyrir heilbrigðisstofnanir
Drífa vinnur nú að doktorsverkefni við læknadeild Háskóla Íslands þar sem hún leitast við að meta umfang, eðli og kostnað samfélagsins af völdum heimilisofbeldis. Drífa er jafnframt verkefnastjóri hjá Kvennaathvarfinu og sérfræðingur hjá Hagstofu Íslands þar sem hún vinnur m.a. að umfangsmikilli rannsókn á kynbundnu ofbeldi á Íslandi.
Verkefni Drífu, sem segir hér að ofan, verður að móta og innleiða samræmt verklag fyrir heilbrigðisstofnanir vegna þjónustu við þolendur heimilisofbeldis og muni samráð við heilbrigðisstofnanir, barnaverndaryfirvöld og lögreglu haft að leiðarljósi við stefnumótun og skilgreiningu verklags.
Leggja þarf mat á árangur verkferla og úrræða við móttöku þolenda
„Ákvörðun heilbrigðisráðherra um að ráðast í gerð samræmds verklags hjá heilbrigðisstofnunum vegna þjónustu við þolendur heimilisofbeldis er í samræmi við ábendingar til úrbóta í skýrslu Finnborgar [Salóme Steinþórsdóttur, nýdoktors í kynjafræði]. Þar segir m.a. að leggja þurfi mat á árangur verkferla og úrræða við móttöku þolenda ofbeldis í nánum samböndum, skoða hvernig miðlun upplýsinga er háttað milli þjónustukerfa og mismunandi úrræða, auk þess sem byggja þurfi á þekkingu um valdaójafnvægi kynjanna og öðrum þáttum sem hafa áhrif á félagslega stöðu fólks og aðstæður,“ segir jafnframt á vef ráðuneytisins.