„Viðbrögðin hafa verið gífurlega sterk og koma úr ólíkum áttum; bæði þeir sem hafa bein og óbein tengsl við réttargæsludeild Klepps hafa annað hvort skrifað eða hringt. Nú eru tveir dagar liðnir frá viðtalinu og þó enn sé of snemmt að segja til um framhaldið, er ég er alvarlega að íhuga að ræða við lögmann.“
Sigmundur Árnason, bróðir og nánasti aðstandandi ósakhæfs vistmanns á réttargeðdeild Klepps ræddi þær alvarlegu refsingar sem viðgangast á geðspítalanum í viðtali við Eggert Skúlason nú á föstudag. Hann segir viðbrögðin hafa verið ótrúleg og er þakklátur þeim sem hafa auðsýnt þeim bræðrum stuðning.
Opinberir starfsmenn og einstaklingar lýst yfir stuðningi
Viðtalið hratt af stað sterkri undiröldu viðbragða fólks sem þekkir vel til starfshátta á réttargeðdeildar Klepps og segir Sigmundur að jafnt opinberir starfsmenn sem og einstaklingar hafi bæði með beinum og óbeinum hætti lýst yfir stuðningi sínum.
„Tilgangurinn með viðtalinu var að sjá hvort ég gæti knúið fram breytingar með því að stíga opinberlega fram. Enn er of snemmt að segja til um framtíðarhorfur og endanlegan árangur en ég held í vonina.“
Sigmundur greindi meðal annars frá bróður hans hafi verið neitað um sína eigin tölvu í refsingarskyni. Tölvuleikir, teikniáhöld, bækur og gítar, allt hafi verið fjarlægt, sjónvarp og þær nauðsynjar sem bróðir hans þarf á að halda var tekið i refsingarskyni, ásamt því sem heimsóknir voru bannaðar og sérstök álma reist umhverfis klefann.
„Þannig að hann hitti aldrei nokkurn mann þennan tíma.“
Á enn eftir að heyra rödd bróður síns og bíður fregna af viðbrögðum
Aðspurður segir Sigmundur þá bræður fá símatíma í dag, sunnudag, en hann á enn eftir að heyra hvaða afleiðingar umfjöllunin hafi innan veggja spítalans.
„Ég hlakka til að heyra í honum og þá vona ég að þeir [innsk. blm. yfirstjórn réttargeðdeildar á Kleppi] hafi ekki beitt bróður minn frekari refsingum. Flest starfsfólkið er frábært og allt af vilja gert.“
En það er stjórnin sem stýrir með ótta, andlegu ofbeldi og viðbjóði og þetta hræðir sjúklingana upp úr skónum.
Sigmundur er þó ákveðinn í að berjast fyrir bættum hag bróður síns og segir meðal annars nú í viðtali við MANNLÍF að mestu skipti að mannúðlegri meðhöndlun verði beitt og að meðalhófs verði gætt í allri nálgun og meðferð.
„Mestu skiptir er að þessari tilraunastarfsemi verði hætt á honum. Að hann nái og viðhaldi bata í fyrsta sinn í tuttugu ár og að geðlæknateymið hrófli ekki meira við lyfjagjöf mannsins. Þetta er bara djöfulsins tilraunastarfsemi og ekkert annað. Geðkerfið hefur næg úrræði til að vinna með og bróðir minn þarf að undirgangast raunhæfa og jafna lyfjameðferð sem hafi áhrif til framtíðar.“
Stóð upp frá hádegismatnum og framdi sjálfsmorð um síðustu jól
Nokkuð hefur verið fjallað um beinskeytta gagnrýni Geðhjálpar, sem sendi Landlækni svarta skýrslu um starfshætti á réttargeðdeildinni á Kleppi og bindur Sigmundur vonir við að meðferðarstarfið á réttargeðdeild muni tekið til gagngerrar endurskoðunar á næstu mánuðum og misserum.
„Um síðustu jól gekk til að mynda vistmaður á sjálfsmorðsvakt, sem ætti að vera undir sólarhringseftirliti á lokaðri réttargeðdeild.“
„Maðurinn stóð bara upp frá hádegismatnum, gekk inn í herbergi sitt og svipti sig lífi. Þetta gerði vistmaður sem átti að heita á öflugri sjálfsmorðsvakt.“
„Maður spyr sig hvernig þetta á eiginlega að vera mögulegt? Auðvitað óttast ég um líf bróður míns. Hann er vistaður þarna líka.“
Og Sigmundur segir atvikið varpa ákveðnu ljósi á sárri þörf gagngerrar endurskoðunar og uppstokkunar sem geðheilbrigðiskerfið og sér í lagi réttargeðdeild á Kleppi þurfi nú á að halda.
„Hvaða afleiðingar hafði sjálfsvíg vistamanns nú um jólin í för með sér? Var atvikið eitthvað rannsakað eða mokað undir teppi réttargeðdeildar? Hver er ábyrgur fyrir andlátinu? Það er sem mig minni að ég hafi rekið augun í eina neðanmálsgrein í íslenskum miðlum um það bil viku eftir andlátið.“
„Þetta var svona – já, einmitt. Enn einn geðsjúklingurinn dauður.“
Viðtal MBL við Sigmund Árnason sem birtist nú föstudag má sjá HÉR