„Ég er hræðilegur hrakfallabálkur og dett á hausinn á hverju ári. Eitt árið sleit ég liðbönd á báðum fótum sem var skelfilega vandræðalegt enda þurfti ég aðstoð með flest fyrstu vikurnar. Þetta er sennilega út af því að ég er alltaf að flýta mér, sífellt á hlaupum. Ef ég dett á hausinn í kosningabaráttunni plástra ég það bara og held áfram. Maður lætur ekki hlutina stoppa sig ef maður kemst hjá því,” segir Guðrún Hafsteinsdóttir sem hlaut kosningu sem oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.
Fyrsta atvinnuumsóknin
Guðrún er borinn og barnfæddur Hvergerðingur og þekkja hana margir sem Kjörískonuna enda hefur hún starfað nær allan sinn sinn starfsferil hjá fjölskyldufyrirtækinu Kjörís ehf. í Hveragerði.
„Ég er fædd árið 1970 og þetta er í fyrsta skipti sem ég sæki um starf þar sem ég hef alltaf starfað hjá Kjörís. Og þá sæki ég um vinnu hjá þjóðinni, hvorki meira né minna. Ég veit ekki hvort maður á að viðurkenna þetta en ég hef aldrei stigið fæti inn í Alþingishúsið. Ég hef komið inn á skrifstofur einstakra þingmanna sem eru hist og her um miðbæinn en aldrei sjálft húsið“.
Guðrún hefur alla tíð verið virk í félagsmálum setið í fjölda nefnda, stofnaði sunddeild Íþróttafélagsins Hamars og setið í fjölda stjórna. Hún var meðal annars formaður Samtaka iðnaðarins árið 2014 og var þar formaður til 2020.
Elskar fallega frágenginn þvott
Guðrún er ein fjögurra systkina, dóttir hjónanna Laufeyjar Valdimarsdóttur og Hafsteins Kristinssonar. Hún segist hafa átt yndislega æsku í Hveragerði og búa öll systkinin þar enn í dag. Hún er í sambúð með Hans Kristjáni Einarssyni Hagerup, gullsmið og eiga þau samtals sex börn svo það er líf og fjör á heimilinu.
„Ég hef virkilega gaman af að vera húsmóðir, stússast í eldhúsinu, taka á móti gestum og hafa fjör og gaman í húsinu. Mér finnst fátt skemmtilegra en að taka slátur, baka brauð og gera sultur. Og strauja“.
Strauja?
Guðrún hlær. „Ég veit! Ég ræð ekki við það en ég elska bara fallega frágenginn þvott. Mér finnst til dæmis fátt betra en að strauja yfir sjónvarpinu“.
Ísinn myndi bráðna í nefnd
Hún elskar líka að hitta fólk.
„Ég er mannfræðingur og brennandi áhuga á fólki og öllu sem að því snýr. Þess vegna fannst mér svo gaman í prófkjörsbaráttunni, þá gat ég verið að hitta fólk alla daga frá morgni til kvölds“.
Hún segist aldrei hafa gengið með þingmanninn í maganum í gegnum tíðina.
„Ég horfði lengi vel á Alþingi með hálfgerðum hryllingi. Sem aðila úr atvinnulífinu hefur mér fundist öll ákvarðanataka ganga óskaplega hægt. Ef ég kýs til dæmis að koma með nýjan ís á markað er hann kominn í verslanir á innan við mánuði. Á Alþingi myndi hann bráðna í nefnd enda þingið fullt af fólki sem hefur setið sem fastast svo áratugum skiptir og vill hreinlega ekki hætta“.
Guðrún segist tilbúin núna. „Ég veit að það er mikil vinna og ábyrgð að sitja á þingi en börnin eru orðin stór og mér finnst ég sjaldan eða aldrei hafa verið jafn orkumikil”. Aðspurð hvort hún hafi ráðherrann í maganum svarar Guðrún að svo sé ekki endilega en að enginn leggi í það að fara í stjórnmál nema hafa löngun til breytinga. „Og allir vita að mestu áhrifin koma úr ráðherrasæti.”
Er aldrei í efsta stigi
Guðrún segir rífandi stemningu hafa verið í baráttunni sem hafi farið drengilega fram. „Auðvitað var komin smá harka og stuð í þetta í bláendann en það var frekar innan stuðningsmannahópanna en okkar frambjóðenda. Þetta er flottur og mjög frambærilegur listi”.
Hún segir gott gengi ekki hafa komið sér á óvart, hún hafi í langan tíma verið hvött til að fara í framboð. „Ég setti bara markið hátt, lagði allt undir og stefndi á fyrsta sætið. Það reyndist borga sig“.
Hún brennur fyrir mörgu, meðal annars samgöngumálum og atvinnumálum. „Ég er alin upp í litlu einkareknu fyrirtæki sem hefur mótað skoðanir mínar og áhuga á íslenskum iðnaði. Öll okkar velferð byggist á að okkur takist að halda uppi útflutningstekjum“. Hún er einnig einörð í afstöðu sinni til heilbrigðismála. „Heilsugæslan á Reykjanesi er til dæmis ekki boðleg. Hugsaðu þér að þar hefur mannfjöldi aukist um 12 þúsund manns á meðan ekki hefur verið bætt við einu einasta stöðugildi læknis!“
Aðspurðu um bestu stundirnar í lífinu segir hún þau systkinin aldrei hafa verið í efsta stigi. „Okkar mottó er einfaldlega að vona hið besta. Stórfenglegu stundirnar eru þessar einföldu, að vera heima með fólkinu sem manni þykir vænt um, borða góðan mat eða sitja á þúfi úti í íslensku náttúrunni. Það þarf ekki mikið til að gleðja mig, ég á gamlan bíl og hús fullt af gömlu drasli.
Nægjusemin er gjöf frá pabba á dánarbeðinu, ég var aðeins 23 ára þegar ég missti hann og lærði þá að lífið er hverfult. Það má segja að það hafi mótað mig á vissan hátt, það eru ekki veraldlegu hlutirnir sem skipta máli öllu í lífinu,” segir Guðrún Hafsteinsdóttir.