Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Sigríður Andersen er neytandi vikunnar: „Mér finnst óþolandi að þurfa að henda mat“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Neytandi vikunnar að þessu sinni er Sigríður Á. Andersen sem hefur verið þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá árinu 2015. Sigríður var ráðherra á árunum 2017 til 2019. Hún er lögfræðingur að mennt og áður en hún tók sæti á Alþingi starfaði hún við lögmennsku. Sigríður rekur fjögurra manna fjölskyldu og þar að auki býr á heimilinu hefðarköttur. Allir heimilismenn stunda daglega íþróttir af einhverju tagi og tekur neysla þeirra nokkuð mið af því. Þessa dagana er Sigríður og flokkssystkini hennar í Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík í prófkjörsbaráttu. Sigríður er þar að óska eftir áframhaldandi stuðningi í 2. sætið.

 Hve miklu eyðir fjölskyldan í mat og aðrar rekstrarvörur heimilisins á mánuði og hvar verslar hún helst ?

„Maðurinn minn á hrós skilið fyrir að vera sá sem helst dregur björg í bú, í þeim skilningi að hann tekur oftast að sér að kaupa inn í matinn. Við förum í verslanirnar í nágrenninu úti á Granda og Hagkaup á Seltjarnarnesi þegar við nýtum skutlið í íþróttirnar. Svo fer ég kannski 2-3 á ári í Costco. Já og ekki má gleyma Melabúðinni. Ætli við eyðum ekki rúmlega 200 þúsund krónum í það sem kalla mætti nauðsynjavörur.“

Hvað með sparnað í matarinnkaupum og hverju vilt þú breyta sem neytandi ?

 „Ég er alltaf að leitast við að beita mig og fjölskylduna aðhaldi þegar kemur að matarinnkaupum. Við erum frekar íhaldssöm í innkaupum sem ég held að dragi úr matarsóun. Á móti kemur að magninnkaup finnast mér auka matarsóun, mér finnst óþolandi að þurfa að henda mat. Eitt ráð hef ég gegn því og það er að halda ísskápnum vel skipulögðum og ekki yfirfullum. Dóttir mín hefur séð um þetta undanfarið og það spornar vissulega gegn því að bakki af kjöti eða fiski gleymist undir eggjabakkanum t.d.“

Leggur þú fyrir, og hvaða leiðir notar þú ef svo er  ?

- Auglýsing -

 „Já, ég hef frá því ég hóf störf eftir skóla lagt mig fram um að leggja fyrir í reglulegum sparnaði. Gerði fljótlega samning um tiltekna fjárhæð, hún var mjög hófleg til að byrja með, sem þá rann í hlutabréfasjóð. Ávöxtunin af þeim sparnaði gerði mér kleift að kaupa minn fyrsta, og reyndar eina, bíl. Síðari árin hef ég lagt fyrir á bankareikning sem er nú reyndar ekki gæfulegt eins og vextirnir eru þessa dagana. Ég brýni það fyrir unga fólkinu nærri mér að huga að þessum málum og við sem eldri erum megum ekki gleyma því að endurskoða þessi mál reglulega. Þarfir okkar og markmið breytast með árunum.“

Telur þú álagningu verslana sanngjarna og gerir þú verðsamanburð á vörum og þjónustu ?

„Nei, ég geri ekki kerfisbundinn verðsamanburð en finn áþreifanlega fyrir því að verðið er lægra í „lágvöruverðsverslununum“. Það að ég skuli samt stundum fara í Melabúðina og Hagkaup bendir nú til að ég telji verðið ekki beinlínis ósanngjarnt. Hærra verð er svo að einhverju leyti bætt upp með meiri þjónustu og vöruúrvali. Hvað af því er álagning og hvað ekki hef ég svo sem ekki tilfinningu fyrir. En ég kaupi vissulega minna í dýrari búðunum.“

- Auglýsing -

Verðtryggð lán, óverðtryggð lán eða engin lán ?

„Ég er með verðtryggt lífeyrissjóðslán vegna húsnæðiskaupa sem ég legg áherslu á að borga reglulega aukalega inn á. Fæstir komast af án fasteignalána. En þar ættu flestir að láta við sitja.“

Umhverfisvernd, skiptir hún þig máli ?

 „Já í víðum skilningi. Eins og nefndi fyrr þá finnst mér brýnt að fjölskyldan takmarki matarsóun. Við reynum að takmarka að umbúðir og annað sem verður að sorpi komi inn á heimilið. Við fáum til dæmis ekki dagblöð á pappír inn til okkar. Það orkar reyndar svolítið tvímælis þessi misserin finnst mér. Ég tel að krakkar hafi gott af því að alast upp við að lestur af pappír og það sé hluti af daglegri rútínu. Það eru helst dagblöðin sem gefa færi á því í amstri dagsins.“

 Annað sem þú vilt taka fram ?

„Tja, úr því matvöruverslanir hafa svo mjög borið hér á góma þá get ég ekki látið hjá líða að nefna lítinn draum sem ég á um einmitt þær. Hann er sá að einhvern tíman verði opnuð matvöruverslun með gluggum. Að maður geti gengið inn í fallega verslun og notið þess að raða grænmeti og morgunkorni ofan í körfuna og séð til sólar út undan sér. Þegar slík verslun verður opnuð í vesturhluta borgarinnar þá lofa ég manninum mínum að hann muni losna úr innkaupaleiðöngrunum.“

 Hvaða mál og málaflokka telur þú að leggja þurfi meiri áherslu á ?   

 „Ég hef alltaf lagt áherslu á og barist fyrir lækkun skatta. Við náðum gríðarlegum árangri í að gera íslenska verslun samkeppnihæfa þegar tollar og vörugjöld voru afnumin af flestum vörum árið 2014. Við þurfum að gera betur með því að lækka virðisaukaskatt sem er hér einn sá hæsti í heiminum. Við Sjálfstæðismenn höfðum áform um það í síðustu ríkisstjórn. Þessi lækkun ásamt lækkun tekjuskatts þarf að vera í forgangi í næsta ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins. Auk auðvitað annarra frelsismála sem ég hvet lesendur til að kynna sér á heimasíðu minni www.sigridur.is.“

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -