Föstudagur 27. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Úr heimi tölvuleikja

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Undanfarin ár hefur kvikmyndaverum tekist að fá öfluga leikara til að fara með aðalhlutverkið í tölvuleikjamyndum og þannig aukið aðsókn á þær. Hér eru nokkrar af þeim þekktustu.

Faldir fjársjóðir
Tölvuleikirnir um Löru Croft nutu gríðarlegra vinsælda á síðasta áratug og gerðar voru tvær kvikmyndir með Angelinu Jolie í aðalhlutverki. Lara Croft kemur úr breskri aðalsfjölskyldu, en stundar það að fara á sögulega staði og safna fornmunum, úr musterum, gömlum borgum, og fleiri slíkum stöðum, víða um heiminn, og hún lætur ekkert stöðva sig, ekki einu sinni lífshættulegar aðstæður. Í fyrri myndinni, Lara Croft: Tomb Raider, sem kom út árið 2001 berst Lara við leynifélag sem kallast Illuminati í leit að fornum verndargrip sem gefur þeim sem hefur hann undir höndum möguleika á því að stjórna tímanum. Í mynd númer tvö, Lara Croft Tomb Raider: The Cradle of Life, leitar hún að öskju Pandóru í keppni við kínversk glæpasamtök. Nú er von að nýrri mynd með Aliciu Vikander í hlutverki Löru Croft.

Aftur í tíma
Assassin’s Creed-tölvuleikirnir eru níu talsins og gerast allir á tímum sögulegra átaka. Aðalsöguhetjan Desmond Miles getur ferðast aftur í tíma í gegnum minningar forfeðra sinna og getur þannig haft áhrif á framgang sögunnar. Skömmu fyrir áramót kom út kvikmynd sem er sjálfstæð eining innan þessa heims og kynnt er til sögunnar ný hetja. Callums Lynch er afkomandi hins vígfima Aguilar sem ásamt félögum sínum barðist á móti óréttlæti á tímum spænska rannsóknarréttarins. Með sérstakri tækni getur Callum ferðast aftur í tímann, tekið sér bólfestu í líkama Aguilar og haldið verkum hans áfram. Það er enginn annar en Michael Fassbender sem fer með hlutverk Lynch og Aguilar í kvikmyndinni (sjá aðalmynd).

Ógn uppvakninga
Resident Evil er líklega stærsta kvikmyndasería sem byggð er á tölvuleik. Þrátt fyrir slæma dóma njóta kvikmyndirnar mikilla vinsælda og nú er von á sjöttu og síðustu myndinni. Myndirnar segja frá fyrirtækinu Umbrella sem er eitt valdamesta fyrirtæki heims en það á velgengni sína að þakka rannsóknarstöð neðanjarðar þar sem nýstárleg vopn eru prófuð og framleidd. Í fyrstu myndinni er sagt frá því þegar veira sem fyrirtækið býr til, sleppur út og breytir hundruðum vísindamanna í hungraða uppvakninga. Tölvukerfið lokar stöðinni vegna sýkingarhættu og Alice ásamt neyðarsveit er send til að slökkva á tölvunni og koma höndum yfir veiruna. Það gengur ekki alveg eftir og veiran sleppur út og verður að faraldri. Í næstu fimm myndum reyna Alice og föruneyti hennar að ráða niðurlögum Umbrella og bjarga mannkyninu frá uppvakningum.

Prinsinn til bjargar
Í Prince of Persia-leikjunum er fylgst með prins einum í Persíu á miðöldum sem lendir í ýmsum ævintýrum og hremmingum. Leikurinn kom fyrst út árið 1989 og var endurvakinn árið 2003. Kvikmyndin Prince of Persia: The Sands of Time sem er byggð á leiknum kom út árið 2010 og segir í raun bakgrunnssögu prinsins, en hann er í raun ekki raunverulegur prins heldur fátækur munaðarleysingi sem konungurinn tók í fóstur. Á fullorðinsárum fær hann tækifæri til að endurgjalda greiðann og bjarga konunginum. Hann þarf að stöðva fyrirætlanir bróður konungsins sem ætlar að breyta tímalínunni með hjálp Tímarýtingsins þannig að konungurinn deyr sem barn og bróðirinn verði konungur. Myndin skartar einvala liði leikara, svo sem Jake Gyllenhal og Ben Kingsley, en hún fékk engu að síður fremur lélega dóma gagnrýnenda.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -